Björgólfur Thor Björgólfsson lýsir yfir sorgardegi í pósti sem hann sendi samstarfsmönnum vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa Evrópusambandið. Hann telur þetta vera efnahagslegt sjálfsmorð. (e. economical Hara-Kiri).
Í pósti sem Björgólfur sendi í morgun segir hann ákvörðun bresku þjóðarinnar byggða á fölskum tilfinningum um stolt og barnalegum hugmyndum um alþjóðavæðingu.
Eitt það sorglegasta við málið sé að eldri kynslóðin hafi kosið með útgöngu á meðan þeir yngri hafi kosið með framtíð innan Evrópusambandsins. Þannig hafi kynslóðin sem er á förum á næstu fimmtán til tuttugu árum að vissu leyti rænt þá yngri af framtíðinni sem hún hefði kosið.
Áhrifanna muni ekki síður gæta í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem raddir öfgahópa séu að verða háværari. Þetta sé akkúrat á sama tíma og þörf sé á hinu gagnstæða sökum fjölmargra vandamála sem steðja að Evrópusambandinu.
Björgólfur endar póstinn á að segjast vera í sjokki, eða „Am gutted right now“.