Ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið gæti haft mikil áhrif hér á landi. Bretland er einn af okkar stærstu mörkuðum og þurfum við að ná samningum um sambærileg viðskiptakjör og jafnan markaðsaðgang ef áhrifin eiga ekki að verða veruleg.
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir slæmt að segja til um langtímaáhrifin og telur þau meðal annars velta á tímasetningu útgöngunnar. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, áréttaði í morgun að lög og reglur Evrópusambandsins gildi enn í Bretlandi á meðan úrsagnarferlinu stendur og getur það tekur um tvö ár.
Þorsteinn segir þennan tíma draga úr áhrifunum til að byrja með en telur ljóst að íslensk og bresk stjórnvöld þurfi að setjast niður að samningaborðinu. „Þetta er einn af okkar stærstu mörkuðum hvort sem litið er til innflutnings eða útflutnings á vörum eða þjónustu,“ segir Þorsteinn og bendir á að málið muni þar með hafa neikvæð áhrif á útflutningstekjur okkar til skemmri tíma sökum gífurlegs falls pundsins. „Það auðvitað þýðir að þetta mun hafa talsverð áhrif á útflutningstekjur þeirra fyrirtækja sem eru að flytja á Bretlandsmarkað.“
Gengi sterlingspundsins hríðféll um meira en tíu prósentustig eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu ljósar. Hafði gengið þá ekki verið lægra í 31 ár, eða frá árinu 1985. Þorsteinn segir að ferðþjónustan gæti orðið fyrir töluverðum áhrifum vegna þessa og þá sérstaklega í ljósi þess að Bretar hafa verið fjölmennasti hópur ferðamanna hér á landi.
„Það hefur meðal annars verið vegna sterkrar stöðu pundsins undanfarið og getur þetta haft einhver áhrif á neyslu þeirra ferðamanna sem ákveðið hafa að koma og það er spurning hvaða áhrif þetta mun hafa á áframhaldandi komur ef pundið réttir ekki úr kútnum,“ segir hann.
„En það er alveg ljóst að það mun líða nokkur tími þar til rykið sest og menn fara að sjá raunveruleg áhrif þessarar ákvörðunar til lengri tíma litið. Það veltur á endanum á viðbrögðum Evrópusambandsins og stjórnvalda varðandi viðskiptasambönd. Ég treysti því að vel verði haldið á þessu máli á þeim vettvangi.“
Hlutabréfamarkaðir hafa verið í frjálsu falli í kjölfar niðurstöðunnar. Breska FTSE 100-vísitalan hefur fallið um fimm prósentustig og sú íslenska er í hröðum lækkunarfasa en lækkunin nemur 3,45 prósentustigum þegar þetta er skrifað. Þorsteinn segir þetta vera til marks um að niðurstaðan hafi komið markaðsaðilum á óvart.
„Miðað við viðbrögð á mörkuðum í morgun virðast flestir hafa verið á þeirri skoðun að þetta myndi fara á hinn veginn. Óðagotið sem greip um sig á mörkuðum sýnir auðvitað hvað menn óttast afleiðingar þessa,“ segir Þorsteinn.