Tim Martin, stjórnarformaður bresku kráarkeðjunnar JD Wetherspoon, telur að hræðsluáróður George Osbornes, fjármálaráðherra Breta, Englandsbanka og fleiri stofnana í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um veru Breta í Evrópusambandinu muni til lengri tíma hafa skaðlegri áhrif á breskt efnahagslíf en möguleg útganga Breta úr sambandinu.
Martin, sem barðist harðlega fyrir því að Bretar segðu skilið við sambandið, segist efast um heilindi stofnananna sem og dómgreind þeirra. Þær hafi augljóslega brugðist í kosningabaráttunni og ekki lagt rétt mat á aðstæður.
Hann vísar sérstaklega til ummæla Christine Lagardes, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, David Camerons, fyrrum forsætisráðherra Breta, og Mark Carneys, bankastjóra Englandsbanka.
Í maímánuði útbjó hann 200 þúsund glasamottur þar sem fram kemur hörð gagnrýni á Lagarde og ummæli hennar um að útganga Breta úr Evrópusambandinu yrði „mjög, mjög slæm“.
Í sérstakri tilkynningu til bresku kauphallarinnar tók Martin jafnframt fram að leiðtogar breska iðnaðarsambandsins, Goldman Sachs, Morgan Stanley, PWC, sem og fjölmargir aðrir stjórnendur stórfyrirtækja, hefðu beitt sér fyrir því að Bretar kysu áframhaldandi aðild að sambandinu.
„Að mínu mati eru þessir einstaklingar og stofnanir annaðhvort óheiðarleg eða hafa lélegan skilning á hagfræði, þar sem náið samband er á milli lýðræðis og velmegunar og Evrópusambandið er klárlega ólýðræðislegt,“ sagði hann.
Í kosningabaráttunni kom Martin sjálfur við á um hundrað krám fyrirtækisins til þess að ræða við viðskiptavini og sannfæra þá um að hagsmunum Bretlands væri betur borgið utan sambandsins.
Hann segir að Bretar hafi tekið rétta ákvörðun með því að greiða atkvæði með útgöngu úr sambandinu. Efnahagshorfur muni batna, þó svo að líklegt sé að „fordæmalausi og óábyrgi hræðsluáróðurinn muni leiða til einhvers konar hægagangs,“ bætti hann við.
Hann sagði að þrátt fyrir allar dómsdagsspárnar hefði rekstur JD Wetherspoon styrkst á undanförnum vikum, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sala fyrirtækisins hefur aukist um 3,4% það sem af er ári.