Yfirvofandi úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu hefur í för með sér aukna áhættu fyrir alþjóðahagkerfið. Þetta sögðu fjármálaráðherrar G20-ríkjanna svonefndu, þ.e. þeirra 20 ríkja með stærstu hagkerfi heimsins. Fulltrúar G20-ríkjanna komu saman til fundar í Kína um helgina, m.a. seðlabankastjórar og embættismenn ríkjanna.
Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu ráðherrarnir úrsögn Breta úr ESB auka óvissustig innan alþjóðahagkerfisins. Aðrir þættir á borð við landfræðilegar deilur, hryðjuverk, flóttamannavandann, hægari vöxtu kínverska hagkerfisins og misheppnað valdarán í Tyrklandi hafa einnig slæm áhrif á alþjóðahagkerfið, sögðu fjármálaráðherrarnir.
„Í framtíðinni vonumst við til þess að Bretland og Evrópusambandið eigi í góðu samstarfi,“ sögðu ráðherrarnir í yfirlýsingu. Tóku þeir þó fram að G20-ríkin séu vel í stakk búin til þess að takast á við þær efnahagslegu áskoranir sem kunna að koma upp vegna úrsagnar Breta.
Jacob Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, brýndi fyrir fundinum að úrsagnarviðræður Breta og Evrópusambandsins færu fram með gagnsæjum og pragmatískum hætti.
Fyrir fundinn breytti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hagvaxtarspá sinni fyrir þetta ár og það næsta og spáði 0,1 prósentustigi lakari hagvexti en í fyrri spá.