Breski bankinn Lloyds hefur ákveðið að leggja niður 3.000 störf og loka 200 útibúum. Er það gert til þess að bregðast við líklegum vaxtalækkunum í kjölfar ákvörðunar Breta um að yfirgefa Evrópusambandið.
Hagnaður bankans var þó 2,5 milljarðar punda fyrstu sex mánuði ársins og er það tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra. Að sögn Antonio Horta-Osorio, framkvæmdastjóra bankans, er þó búist við því að nú muni hægja á hagnaði bankans.
„Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um Evrópusambandið er útlitið í breskum efnahagi óljóst en nákvæm áhrif koma ekki í ljós fyrr en samið verður við Evrópusambandið. En núna er minnkandi hagnaður líklegur,“ sagði hann.
Lloyds hefur þegar lagt niður 9.000 störf frá árinu 2014. Með nýjum sparnaðaraðgerðum verða niðurlögðu störfin orðin 12.000 í lok næsta árs.
Þá hafði 200 útibúum þegar verið lokað.