Hæstiréttur Bretlands mun í dag taka til meðferðar hvort bresk stjórnvöld þurfi samþykki þingsins áður en úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu verður formlega hafið á næsta ári.
Rúmur mánuður er síðan breskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu og var það mikið áfall fyrir bresku ríkisstjórnina, sérstaklega Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hún hyggst hefja úrsagnarferlið í mars á næsta ári og telur ríkisstjórn sína hafa konunglegt vald til þess að taka ákvörðun um að hefja ferlið, en um er að ræða hluta af framkvæmdavaldinu.
Málinu var áfrýjað til æðra dómsstigs og hefst sú meðferð í dag og stendur hún yfir í fjóra daga. Þá er gert ráð fyrir því að greint verði frá niðurstöðu Hæstaréttar í janúar.
Bretar kusu um framtíð þjóðarinnar í Evrópusambandinu í sumar. 51,9% vildu ganga úr sambandinu en 48,1% vildu vera þar áfram.
Málsmeðferðin hefst klukkan 11 og verður hún í beinni útsendingu á BBC.