Hagkerfi Bretlands dróst saman um 0,2% á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hefur staðan ekki verið verri í þeim efnum frá árinu 2012 samkvæmt upplýsingum frá bresku hagstofunni. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.
Fram kemur í fréttinni að samdrátturinn hafi komið á óvart í kjölfar þess að hagvöxtur hafi aukist á fyrsta ársfjórðungi ársins sem einkum sé rakinn til þess að fyrirtæki hafi komið sér upp birgðum af aðföngum vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Gengi breska pundsins hefur lækkað í kjölfar þess að greint var frá samdrættinum sem leitt hafi til ótta við að Bretland stefni inn í efnahagslægð. Talað er um efnahagslægð þegar samdráttur verður í hagkerfi tvo ársfjórðunga í röð.
Hagfræðingar höfðu ekki spáð samdrætti á öðrum ársfjórðungi en höfðu hins vegar gert ráð fyrir því að hagkerfið myndi staðna og að hagvöxtur yrði þannig enginn.