Bankasýsla ríkisins hefur sent bréf til Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, og til bankaráðs Landsbankans vegna fyrirhugaðra kaupa bankans á TM tryggingum af Kviku banka.
Í bréfinu segir að Bankasýslunni hafi verið alls ókunnugt um viðskiptin og að stofnunin taki undir áhyggjur Þórdísar.
Þórdís Kolbrún sagði í Facebook-færslu að viðskiptin yrðu ekki að veruleika með hennar samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.
Segir í bréfinu að Bankasýslan hafi hvorki fengið upplýsingar um fyriráætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð, né um að tilboðið hafi verið lagt fram.
„Heldur var einungis upplýst um þegar skuldbindandi tilboð var tekið um kl. 17 þann 17. mars sl.“
Þó segir að Helga Björk Eiríksdóttir, fráfarandi formaður bankaráðs Landsbankans, hafi upplýst Bankasýsluna (BR) 11. júlí 2023 um áhuga bankans á að kaupa TM eftir að samrunaviðræðum Íslandsbanka og Kviku var slitið.
Segir að Helga Björk hafi tilkynnt Bankasýslunni að hún myndi halda stofnuninni upplýstri um framganga mála.
20. júlí var Bankasýslan upplýst um að ekki hefðu komist á formlegar viðræður á milli Landsbankans og Kviku um kaup á TM.
Þá segir að Bankasýslan hafi átt reglulegan fund með bankaráðinu 16. nóvember án þess að málið hefði komið til umræðu, en formlegt söluferli TM hófst daginn eftir.
„Engar frekari upplýsingar bárust BR um málið en formaður bankaráðs Landsbankans telur sig hafa minnst á endurvakinn áhuga Landsbankans á að taka þátt í söluferlinu. Það á að hafa komið fram í óformlegu símtali til stjórnarformanns BR vegna launauppbótar starfsmanna í desember 2023,“ segir í bréfinu.
Þá segir að engar formlegar upplýsingar hafi á nokkrum tímapunkti borist um viðskiptin.
„Þvert á móti taldi stjórn BR einsýnt að ekki yrði af viðskiptunum af hálfu Landsbankans í kjölfar viðtals við fjármála- og efnahagsráðherra þann 6. febrúar.“
Bankasýslan fundaði með bankaráði Landsbankans í dag þar sem bankaráðið var spurt út í viðskiptin.
Segir í bréfinu að það sé mat Bankasýslunnar að Landsbankanum hafi borið að upplýsa um fyrrgreind viðskipti með skýrum og formlegum hætti.
„Slíkt var því miður ekki gert. Það kom hins vegar fram á fundinum með bankaráði að því hafi verið ljóst fyrrgreind afstaða ráðherra til kaupanna.“
Þá segir í bréfinu að Bankasýslan hafi óskað eftir formlegri og ítarlegri greinargerð bankaráðs um viðskiptin innan sjö daga.
„Þar til hún hefur verið lögð fram og metin, getur BR ekki tekið ákvarðanir um næstu skref.“
Einnig er þess krafist að aðalfundur bankans sem á að fara fram á miðvikudag verði frestað um fjórar vikur í ljósi stöðunnar.
Á fundinum á að kjósa nýtt bankaráð en í febrúar var greint frá því að Helga Björk, sem hefur verið formaður frá árinu 2016 myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í ráðinu.
Þá mun Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs, sem setið hefur í bankaráði frá árinu 2016, heldur ekki gefa kost á sér og lætur af störfum í bankaráði á sama tíma.
Ekki hefur náðst í Helgu Björk við við vinnslu þessarar fréttar.