Lilja Dögg nýr framkvæmdastjóri Almannaróms

Lilja Dögg Jónsdóttir.
Lilja Dögg Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Dögg Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni. Hún tekur við starfinu þann 1. maí.

Almannarómur hefur það hlutverk að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum. Til að fylgja íslensku inn í framtíðina er unnið samkvæmt metnaðarfullri máltækniáætlun stjórnvalda og sér stofnunin um framkvæmd hennar, að því er segir í tilkynningu. 

Lilja Dögg hefur að baki víðtæka reynslu úr heimi tækni og stefnumótunar. Sem sérfræðingur í forsætisráðuneytinu leiddi hún stefnumótun á sviði gervigreindar og fór meðal annars fyrir ritun stefnu Íslands um gervigreind. Þá tók hún nýverið þátt í mótun máltækniáætlunar 2.0 sem fulltrúi í stýrihópi menningar- og viðskiptaráðherra. Lilja hefur einnig sinnt fjölbreyttum verkefnum á hinu alþjóðlega sviði. Hún bjó í Bandaríkjunum í tæpan áratug og gegndi á þeim tíma meðal annars stjórnendastöðum hjá sprotahraðlinum Redstar Ventures og hugbúnaðarfyrirtækinu Burning Glass Technologies. Á Íslandi starfaði hún nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá íslensk-japanska fyrirtækinu Takanawa og situr einnig í stjórn Brynju, leigufélags ÖBÍ.

Lilja Dögg lauk BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og MBA-prófi frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 2015, segir enn fremur í tilkynningu. 

Áherslur Almannaróms á komandi misserum verða meðal annars að stuðla að aukinni hagnýtingu máltæknilausna í íslensku atvinnulífi og að styðja við áframhaldandi innviðauppbyggingu á sviði máltækni á Íslandi. Auk þess verður lögð rík áhersla á kynningarstarf jafnt innanlands sem utan, ekki síst með það að marki að tryggja íslenskri tungu stað í tæknilausnum erlendra fyrirtækja, segir jafnframt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK