Stjórnmál orðin eins og bílakjallari

Svandís sagði raunverulegan ótta búa í Alþingishúsinu þessa dagana.
Svandís sagði raunverulegan ótta búa í Alþingishúsinu þessa dagana. mbl.is/Eggert

Það er veruleiki kvenna á öllum aldri að búast við að ráðist verði á þær. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í pallborðsumræðum á málþinginu Minna hot í ár.

Svandís minntist þess þegar hún skildi ekki hvað kynjajafnrétti í skipulagsmálum snerist um, þangað til henni var sögð sagan af ungu konunni, sem standi fyrir allar konur, sem grípi um lyklakippuna í dimmu húsasundi og í bílakjallara og hugsi um fljótlegustu leiðina út og hvernig hún geti brugðist við ef ráðist yrði á hana.

Í kjölfar Klausturmálsins sagði Svandís að sér fyndist allt í einu eins og bílakjallarinn væri kominn inn í stjórnmálin „Í raun og veru værum við komnar í þá stöðu að það væri ekki bara búið að hækka þröskuldinn inn í stjórnmál, heldur væri það líka orðið þannig að stjórnmálin væru hættulegur staður að vera á. Það er grafalvarlegt fyrir lýðræðið ef það er orðið þannig,“ sagði Svandís.

„Og það er þannig í litla húsinu okkar við Austurvöll í dag, að það er raunverulegur ótti sem á heima þar þessa dagana.“

Svandís sagði það sem fram fór á Klausturbarnum hluta af því sem sé að gerast í öllum samfélögum á Vesturlöndum: uppgangur öfgahægrisins sem lítur á hatursorðræðu gagnvart konum, hinsegin fólki og fötluðu fólki sem hluta af pólitískri umræðu, sem sæist meðal annars í bakslagi í afstöðu til fóstureyðinga og innflytjenda.

Frá pallborðsumræðum.
Frá pallborðsumræðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er flagg sem verið er að reisa um alla Evrópu og í Bandaríkjunum, og þetta sem fram fór á Klausturbarnum er toppurinn á þeim ísjaka innan íslenskra stjórnvalda.“

Hún sagði það litlu máli skipta hvort allir töluðu svona eða ekki, en að það væri öllum ljóst sem fylgst hefðu með stjórnmálum um áratugaskeið að við værum í miðju jafnréttisbakslagi.

„Ég vildi óska þess að þetta væri partur af dauðastríði feðraveldisins,“ sagði Svandís og vitnaði þar í orð Silju Báru Ómarsdóttur, eins frummælenda á málþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert