Fá ekki bætur vegna flugs í öðrum vélum en MAX

Farþegarnir höfðu pantað flug og áttu að fara með Boeing …
Farþegarnir höfðu pantað flug og áttu að fara með Boeing 737 MAX-8 þotu Icelandair, en vegna kyrrsetningar fóru þau í annarri leiguvél.

Samgöngustofa hefur hafnað skaðabótakröfu farþegaa sem flugu með Icelandair í vél sem félagið tók á leigu eftir að Boeing 737 MAX-vélar félagsins voru kyrrsettar í fyrra. Töldu farþegarnir að um niðurfærslu hefði verið að ræða.

Í úrskurði Samgöngustofu er vísað í svar Icelandair við kvörtuninni, en þar kemur meðal annars að í flugunum tveimur sem um ræðir hafi verið farið með flugvél með kallmerkið LY-KEA. Hefði félagið tekið þá vél á leigu til að sporna við niðurfellingu ferða vegna flugvélaskort í kjölfar kyrrsetningarinnar og taldi félagið þessi ráðstöfun klárlega betri kostur af þeim tveimur sem voru í boði.

Farþegarnir höfðu keypt sér farmiða á Economy farrými, en munurinn var sá að í MAX-vélunum var bæði Economy og Saga farrými. Í leiguvélinni hafi hins vegar eingöngu verið Economy farrými. Þá væri pláss fyrir fætur sambærilegt milli vélanna.

Í umsögn farþeganna segir að einn hafi fengið bakverki eftir flugið og breytingin hafi valdið óþægindum. Þá hafi þeir verið tilbúnir að borga aukagjald fyrir þá auknu þjónustu sem almennt væri í boði í vélum Icelandair, en það hafi ekki verið í boði í þessu flugi. Þá töldu farþegarnir að flugvélin hafi ekki verið snyrtileg.

Samgöngustofa segir hins vegar í úrskurði sínum að ekki verði séð að farþegarnir hafi verið færðir niður á lægra farrými, heldur að aðeins hafi verið um óhjákvæmilega tilfærslu að ræða innan sama farrýmis sem stafaði af því að stærð flugvélanna var mismunandi. Þá er tekið fram að í skilmálum Icelandair komi fram að reynt sé eftir fremsta megni að verða við öllum sætisbeiðnum, en það sé ekki alltaf hægt.

Í þessu ljósi telur Samgöngustofa að kvartendur eigi ekki bótarétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert