Örbylgjuloftnet trufla farsímasambandið

Sigurður Ísleifsson ekur um bæinn á sérútbúnum bíl.
Sigurður Ísleifsson ekur um bæinn á sérútbúnum bíl. mbl.is/Steinþór Guðbjartsson

Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar, PFS, aftengdu um 800 úrelt örbylgjuloftnet í Reykjavík í sumar og um 400 í fyrra, en talið er að um 3.500 loftnet séu enn til vandræða og valdi truflunum.

„Þetta er tímafrek vinna,“ segir Sigurður Ísleifsson, sérfræðingur hjá PFS. Hann byrjaði fyrir um tveimur árum að aka á sérútbúnum bíl um íbúðahverfi í Reykjavík til að leita að úreltum tengdum örbylgjuloftnetum á húsum. Loftnetin geta valdið truflunum á farsímasambandi í umhverfinu, haft áhrif á gæði og öryggi þjónustunnar, og því þarf að fjarlægja þau eða taka þau úr sambandi.

Örbylgjuloftnet eru til trafala.
Örbylgjuloftnet eru til trafala.

Skömmu eftir að íslenskt sjónvarp hóf göngu sína vann fólk við það að fara um landið til að finna óskráð sjónvörp á heimilum svo hægt væri að rukka afnotagjöld. Nú er öldin önnur og Sigurður ekur um bæinn til að draga úr kostnaði fólks og auka þjónustuna. Sérstakt loftnet er á þaki bílsins sem hann er á og inni í bílnum er mjög öflugt mælitæki. „Hér get ég séð tíðnina koma upp,“ útskýrir hann. Á keyrslunni um hverfið merki hann við það sem hann sjái með mælitækinu. „Ég sé kannski átta stykki í hverfinu og næst er að finna út hvar styrkurinn sé hæstur á hverju og einu.“ Þannig reki hann sig áfram í leitinni að biluðu loftnetunum.

Þegar áskriftarsjónvarp Fjölvarpsins hófst um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar settu margir upp örbylgjuloftnet til að ná útsendingunum. Notkun kerfisins var hætt 2017 og tíðninni úthlutað fyrir farsíma. Farsímafélögin hafa sett upp senda á henni, virk örbylgjuloftnet hafa móttekið tíðnina og valdið miklum fjarskiptatruflunum á hluta farsímakerfa. Helstu einkennin eru minni gæði í talsambandinu, hringingar skila sér ekki í fyrstu tilraun og samtöl slitna, SMS ná ekki í gegn í fyrstu tilraun, streymi höktir og er hægt og almenn netþjónusta er líka hæg. Auk þess bendir PFS á að kostnaður vegna rafmagns sé hærri en hann þyrfti að vera og eldhætta sé alltaf fyrir hendi vegna raftengds búnaðar sem sé farinn að bila.

Nánar er hægt að lesa um málið í Morgunblaðinu sem kom út 10. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert