Lélegur stuðull á eldgosi hjá Coolbet

Jarðskjálftarnir undanfarið eiga flestir upptök sín suðvestan við Keili.
Jarðskjálftarnir undanfarið eiga flestir upptök sín suðvestan við Keili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íþróttaveðbankinn Coolbet hefur bætt við nýrri tegund af veðmáli í þjónustu sína hérlendis. Nú er hægt að veðja um það hvort til eldgoss komi á Reykjanesskaga.

Af stuðlunum sem veðbankinn býður upp á að dæma er líklegra en hitt að ekki verði af eldgosi.

Coolbet á Íslandi, sem býður upp á mikið úrval af veðmálum um íslenskar íþróttir, tilkynnti um nýja valkostinn á Twitter í dag.

„Hvað segja okkar helstu Twitter-jarðfræðingar? Er eldgos á leiðinni eða eru þessir skjálftar bara bullandi stemning? Stuðlar komnir á Coolbet!“ skrifaði Coolbet í færslu á samfélagsmiðlinum.

Stuðull á eldgosi hár

Veðmálið gengur út á það hvort eldgos verði á Íslandi fyrir eða eftir apríl. Stuðullinn á að það gerist fyrir er þrefaldur, sem þýðir að ef maður veðjar á að hér gjósi í mars og það gerist, fær maður þrefalda upphæð til baka.

Stuðullinn á að næsta eldgos hér á landi eigi sér stað eftir 1. apríl er 1,33, sem þýðir að samkvæmt útreikningum veðbankans sé það töluvert líklegra en hitt. Ef maður veðjar á þetta og þetta gengur eftir fær maður upprunalegu upphæðina auk 33% hennar til baka. Almennt eru veðmál með svo lágum stuðlum ekki talin borga sig.

Svæðisstjóri Coolbet á Íslandi er Daði Laxdal Gautason.

Jarðskjálftahrina og færslur á yfirborði jarðar hafa gefið tilefni til að ætla að kvikugangur hafi átt sér stað í jarðskorpunni á Reykjanesskaga, að sögn vísindamanna undanfarna daga. Ekkert liggur þó fyrir sem bendir með óyggjandi hætti til þess að eldgos sé yfirvofandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert