Myndskeið: Peningatöskurnar fundust við Esjumela

Vegfarandi sem átti leið um Esjumela eftir hádegi í gær gekk fram á töskur sem þjófarnir höfðu á brott með sér úr peningaflutningabíl við Hamraborg í gærmorgun.

Um var að ræða fjórar töskur. Af myndskeiðinu að dæma hafa þjófarnir sagað göt á töskurnar til að ná peningunum úr, en talið er að þjófarnir hafi haft á brott með sér 20-30 milljónir króna. 

Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Kópavogi, segir í samtali við mbl.is að alls séu töskurnar sjö sem þjófarnir höfðu á brott með sér og hafi hinar þrjár fundist í Mosfellsbæ. Heimir segir að í tveimur af þessum sjö töskum hafi verið peningar.

Segja litasprengjur í töskunum

Í tilkynningu frá Öryggismiðstöðinni segir að töskurnar hafi verið í bifreið á vegum fyrirtækisins. Fjármunirnir hafi verið í sérhæfðum læstum verðmætatöskum sem búnar eru litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til þess að nálgast þau. 

Öll verðmæti í flutningi Öryggismiðstöðvarinnar séu tryggð gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert