Erum betri nánast allan leikinn

Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs.
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við vorum betri aðilinn í leiknum. Vorum betri nánast allan fyrri hálfleikinn fyrir utan smá kafla þar sem leikurinn fór í eitthvað fíaskó og í seinni hálfleiknum vorum við mun betri aðilinn.“ Sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs, nokkuð svekktur eftir 2:2 jafntefli gegn HK í 6.umferð Inkasso-deildar karla fyrr í dag.

„Við héldum boltanum vel, sköpuðum okkur þónokkuð af góðum færum og það er svekkjandi að vinna ekki leikinn en HK er með gott lið.“

Eftir sex umferðir eru Þórsarar í þriðja sætinu með 11 stig. Er Lárus sáttur við þá byrjun?

„Þetta hefur gengið ágætlega. Auðvitað hefði maður eins og hérna í dag viljað fá fleiri stig en maður verður kannski að líta á síðasta leik þar sem við vorum ekki góðir og við náðum þremur stigum þar. Þannig heilt yfir hefur þetta gengið vel.“

Þeir Alvaro Montejo og Nacho Gil komu báðir til Þórs fyrir sumarið og hafa báðir spilað virkilega vel. Aðspurður um Spánverjana sagði Lárus:

„Þetta eru öflugir leikmenn báðir tveir og mjög góðir á boltann. Svo erum við með leikmenn eins og Guðna, Manna og Orra og fleiri sem eru mjög góðir á boltann líka. Þannig þeir passa vel inn í þetta hjá okkur. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert