Lampard á heimleið?

Frank Lampard er orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Chelsea í enskum …
Frank Lampard er orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Chelsea í enskum fjölmiðlum í dag. AFP

Frank Lampard, núverandi knattspyrnustjóri Derby County í ensku B-deildinni, er í dag orðaður við stjórastöðuna hjá sínu fyrrverandi félagi Chelsea. Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, þykir afar valtur í sessi þessa dagana en liðið situr í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 30 leiki með 57 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Chelsea tapaði 2:0-fyrir Everton á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og þá gerði liðið jafntefli við Wolves þann 10. mars síðastliðinn. Þá eru leikmenn Chelsea sagðir vera orðnir þreyttir á Sarri sem er sagður vera mjög íhaldssamur knattspyrnustjóri. 

Lampard þekkir vel til hjá Chelsea en hann lék með liðinu í fjórtán ár og varð þrívegis enskur meistari með liðinu og þá varð hann Evrópumeistari með Chelsea árið 2012. Hann hefur stýrt liði Derby frá árinu 2018 en stjórastarfið hjá Derby er hans fyrsta á ferlinum. Liðinu hefur gengið ágætlega í ensku B-deildinni á þessari leiktíð og situr í áttunda sæti deildarinnar með 56 stig eftir 38 leiki og er tveimur stigum frá umspilssæti um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert