Derby reyndi við Gerrard

Steven Gerrard hefur stýrt liði Rangers frá árinu 2018.
Steven Gerrard hefur stýrt liði Rangers frá árinu 2018. AFP

Enska knattspyrnufélagið Derby County er að öllum líkindum að missa knattspyrnustjóra sinn Frank Lampard til Chelsea. Maurizio Sarri lét af störfum hjá Chelsea til þess að taka við ítalska stórliðinu Juventus og því leitar Chelsea sér að framtíðarknattspyrnustjóra.

Lampard er sagður funda með Roman Abramovich þessa dagana en enskir fjölmiðlar fullyrða að Lampard verði næsti stjóri Chelsea. Derby er því að leita að nýjum knattspyrnustjóra og greina enskir fjölmiðlar frá því í dag að félagið hafi sett sig í samband við Steven Gerrard, knattspyrnustjóra Rangers, í Skotlandi.

Gerrard tók við liði Rangers fyrir síðasta tímabil en Rangers endaði í öður sæti skosku úrvalsdeildarinnar í vor með 78 stig, 9 stigum minna en topplið Celtic. Gerrard hefur hins vegar ekki áhuga á því að færa sig yfir til Englands á þessum tímapunkti og er sagður hafa hafnað því að taka við B-deildarfélagi Derby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert