„Náðum að herða vörnina“

Arnar Guðjónsson.
Arnar Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði sína menn hafa verið betri í 25 mínútur gegn Grindavík í kvöld en Grindvíkingar hafi verið betri í 15 mínútur. Stjarnan sigraði 89:80 og er 1:0 yfir í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. 

Stjarnan hafði ágæt tök á leiknum í fyrri hálfleik og var þá ellefu stigum yfir en Grindavík skoraði þrjátíu stig í þriðja leikhluta og náði að komast stigi yfir í síðasta leikhlutanum. „Okkur tókst að herða vörnina á lokakaflanum. Við réðum ekkert við þá í þriðja leikhluta né í lok annars leikhluta. Þeir voru betri en við í rúmar 15 mínútur í kvöld. En við náðum að vinna leikinn, guði sé lof. Eins og ég segi þá hertum við vörnina og náðum einnig að setja niður erfið skot sem hjálpaði,“ sagði Arnar og frammistaðan var of kaflaskipt hjá Stjörnunni að hans mati. 

„Ég er að hluta til ánægður með frammistöðuna en þetta var kaflaskipt. Þegar leit vel út þá var ég mjög glaður en þegar þetta leit illa út var ég hræddur. Við vitum að við erum að spila við hörkulið og þetta snýst um að vera á undan í þrjá sigra. Því er gott að vera komnir í 1:0 en það gefur okkur ekkert á sunnudaginn og þá þurfum við að ná í sigur,“ sagði Arnar þegar mbl.is ræddi við hann í Ásgarði. 

Filip Kramer og Collin Pryor í leiknum í kvöld.
Filip Kramer og Collin Pryor í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert