Mexíkó í undanúrslit eftir sigur í níu marka leik

Henry Martín fagnar öðru marka sinna í sigrinum gegn Suður-Kóreu …
Henry Martín fagnar öðru marka sinna í sigrinum gegn Suður-Kóreu í dag. AFP

Mexíkó varð í dag fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í Tókýó þegar það vann öruggan 6:3 sigur á Suður-Kóreu í fjórðungsúrslitunum.

Henry Martín kom Mexíkó yfir á 12. mínútu með skalla af stuttu færi eftir skallasendingu Luis Romo.

Á 20. mínútu jafnaði Suður-Kórea hins vegar metin þegar Lee Dong-Gyeong skoraði með góðu skoti í bláhornið.

Romo kom Mexíkó yfir á ný eftir hálftíma leik þegar hann stýrði fyrirgjöf Ernesto Vega í netið af stuttu færi.

Francisco Cordóva skoraði svo þriðja mark Mexíkó úr vítaspyrnu á 39. mínútu og staðan því 3:1 í hálfleik.

Markaveislan var rétt að byrja því Lee Dong-Gyeong minnkaði muninn fyrir Suður-Kóreu með sínu öðru marki strax á 51. mínútu, með laglegu skoti upp í samskeytin.

Martín skoraði svo sitt annað mark örskömmu síðar þegar hann skoraði með góðum skalla eftir hárnákvæma aukaspyrnu Cordóva.

Staðan orðin 4:2.

Cordóva bætti við fimmta marki Mexíkó og sínu öðru á 69. mínútu þegar hann fékk góða sendingu frá Vladimir Lorona, lagði boltann fyrir sig við vítateigslínuna og þrumaði boltanum í netið.

Sjötta markið kom á 84. mínútu þegar Eduardo Aguirre fékk sendingu frá Diego Lainez í vítateignum og stýrði boltanum niður í hornið.

Hwang Ui-jo skoraði svo síðasta mark leiksins, sárabótarmark fyrir Suður-Kóreu, á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Lokatölur 6:3 í ansi athyglisverðum leik og Mexíkó er komið í undanúrslitin, þar sem liðið mætir Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert