Stundum er erfitt að fara að sofa

Sara Barsotti eldfjallafræðingur.
Sara Barsotti eldfjallafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var þungt og lævi blandið. Ég hef enga tölu á fundunum sem haldnir voru,“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands, um andrúmsloftið á vinnustaðnum daginn sem rýma þurfti Grindavík, 10. nóvember síðastliðinn.  

„Allir voru undir miklu álagi enda ábyrgðin mikil og mikilvægt að upplýsa almenning hratt og örugglega um stöðu mála. Hátt var kallað eftir skýringum. Við unnum náið með Háskóla Íslands, almannavörnum og fleirum og þarna kom sér vel að boðleiðirnar eru stuttar hérna á Íslandi. Í því felst mikill styrkur. Það gengur alltaf hratt og vel að ná í alla sem málið varðar og þurfa að koma að ákvörðunum. Það skiptir svo miklu máli við aðstæður sem þessar að allir þekki sitt hlutverk. Ég á ennþá erfitt með að hugsa aftur til 10. nóvember.“

Fara þarf krítísk yfir ferlið

Sara telur allt hafa gengið eins vel og það gat gert þennan dag en eigi að síður sé brýnt að fara mjög krítískt yfir ferlið í heild sinni – til að læra af því. „Rýmingin gekk vel og engin slys urðu á fólki. Það skiptir auðvitað mestu máli. En það má alltaf læra af svona stórum atburðum og gera betur næst. Vonandi verður ekkert næst en ef það gerist þá búum við að þessari dýrmætu reynslu. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að fara vel yfir alla þætti málsins. Atburðurinn sjálfur hefur kennt okkur mikið – og er enn að kenna okkur mikið. Það má alltaf bæta við sig skilningi og þekkingu.“

 – Sérðu fyrir þér að aftur verði búið í Grindavík?

„Það er ómögulegt að segja. Virknin mun halda áfram næstu ár og áratugi, það liggur fyrir. Mikilvægt er að hafa það í huga í þessu sambandi. Hún mun þó færast til og verður ekki bara bundin við Fagradalsfjall og Svartsengi. Framhald byggðar í Grindavík hlýtur að skoðast út frá því. Það sem ég hef lært á þessum árum hérna er að íslenska þjóðin er þrautseig, enda ýmsu vön, og kann ýmislegt þegar kemur að samskiptunum við móður náttúru. Þannig að ég útiloka ekkert. Ég ítreka þó að atburðurinn er hvergi nærri búinn. Akkúrat núna er eldgos í gangi meðan kvikuinnskot heldur áfram í Svartsengi. Þannig að í raun má tala um tvo atburði. Það eykur á óvissuna. Það að þrýstingur sé að byggjast aftur upp undir Svartsengi þýðir að kvikumagnið fer vaxandi, sem hefur í för með sér áframhaldandi spennu. Enginn veit hvernig þetta kemur til með að fara. Allt sem við vísindamennirnir getum gert er að vakta svæðið áfram og teikna upp hugsanlegar sviðsmyndir.“

Ekki með spákúlu

 – Eins alvarlegir og þessir atburðir á Reykjanesinu eru þá hljóta þetta að vera ákaflega spennandi tímar fyrir jarðvísindafólk og eldfjallafræðinga?

„Já, auðvitað. Þetta hefur í senn verið spennandi og hræðilegt. Það er ekki alltaf auðvelt að finna jafnvægið þar á milli enda eigum við því miður ekki spákúlu til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Stóra ábyrgðin liggur hjá okkur á Veðurstofunni og það eru forréttindi að fá að vinna með öllum þessum hæfu sérfræðingum sem vita alltaf allt en samt ekki allt.“

Hún hlær.  

Sara nefnir traust í þessu samhengi. „Við finnum að almannavarnir treysta okkur, almenningur í landinu treystir okkur. Auðvitað höfum við ekki öll svörin en fólk getur samt treyst mati okkar og svörum. Þau eru alltaf samkvæmt bestu vitneskju. Öll erum við þakklát fyrir þennan stuðning en það breytir ekki því að stundum er erfitt að fara að sofa. Maður vill alltaf vita meira í dag en í gær. Hvert eldgos er ný vegferð og auðvelt að gera mistök enda eru eldgos í eðli sínu ólíkindatól; engin tvö hegða sér nákvæmlega eins. Það verður alltaf einhver óvissa og eitthvað óvænt sem gerist.“

Nánar er rætt við Söru Barsotti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka