Fólk að „skrolla“ í pottinum

Hún segir einnig mörg dæmi um að fólk sé að …
Hún segir einnig mörg dæmi um að fólk sé að „skrolla“ í símanum í liggjandi pottum á borð við diskinn í Laugardal og andapollinn í Breiðholtslaug. mbl.is/Sigurður Bogi

Minnst tvívegis hafa komið upp tilvik undanfarin misseri þar sem einstaklingur hefur verið myndaður í búningsklefa á baðstöðum í Reykjavík. Annars vegar í Nauthólsvík og hins vegar í Vesturbæjarlaug. 

Forstöðumaður Laugardalslaugar segir slík tilvik ekki algeng en hins vegar séu of mörg dæmi um að fólk hafi símann meðferðis í búningsklefa og jafnvel ofan í sundlaugum. 

Nýlega var birtur dómur þar sem maður var dæmdur til greiðslu miskabóta vegna myndatöku í búningsaðstöðu í Nauthólsvík. Þá voru tveir menn handteknir í vetur vegna myndatöku í Vesturbæjarlaug.

Drífa Magnúsdóttir, sem nýlega tók við sem forstöðumaður Laugardalslaugar, segir að sem betur fer séu slík tilvik óalgeng. Hins vegar beri á því að fólk sé með símana á lofti á baðstöðum og brýnt sé að minna fólk á að hann eigi ekki erindi þangað.

Úti á bakka að tala í símann

„Það má segja að það sé vandamál að fólk sé að fara í símann í klefunum og gleymi sér, en ekki að fólk sé að taka myndir. Sem betur fer,“ segir Drífa. 

Hún segir langflesta sem alast upp hér á landi vita af því að maður eigi ekki að taka símann upp í sundlauginni. Hins vegar hafi færst í aukana að útlendingar skoði símann í sundi. Jafnvel ofan í laug.  

„Það er mikið um að fólk sé úti á bakka að tala í símann. Þá er það kannski með tösku með sér og tekur svo upp símann. Ég hef sjálf orðið vitni að því. Þetta er bara fólk sem þekkir ekki reglurnar,“ segir Drífa. 

Skjálaus samvera 

Hún segir einnig mörg dæmi um að fólk sé að „skrolla“ í símanum í liggjandi pottum á borð við diskinn í Laugardal og andapollinn í Breiðholtslaug. 

„Þá reynum við að skipta okkur af fólki og bendum á að þetta er skjálaus samvera,“ segir Drífa.

Eins bendir hún á að það sé í góðu lagi ef fólk bendir þeim sem er með símann á reglurnar sem hanga á veggjum í sundlaugunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka