Ekki lengur ljóti andarunginn

Þakið hefur verið flatt út eins og sjá má. Efsti …
Þakið hefur verið flatt út eins og sjá má. Efsti hluti þess er aftar og bíllinn fimm sentimetrum lægri.

Stórt skref var stigið þegar Toyota sleppti tvinnbílnum Prius á markaðinn árið 1997. Prius var þá fyrsti fjöldaframleiddi tvinnbíllinn til að koma á markað og ruddi þannig brautina fyrir fjölda annarra bíla sem síðar áttu eftir að fylgja. Það má því segja að Prius hafi fyrstur riðið út á völl, þar sem nú ríkir mikil samkeppni.

Eins og áður hefur verið vikið að var lengi vel eins og japanski bílaframleiðandinn ætlaði sér einfaldlega að láta tvinntæknina duga, án utanaðkomandi rafmagnshleðslu. Fyrirtækið hefur enda um langt skeið haft mikla yfirburði á því sviði.

Endurhannaður og uppfærður

Á framleiðandanum hefur sömuleiðis mátt skilja að þetta hafi allt saman verið reiknað út fyrir nærri þremur áratugum, þegar riðið var á vaðið í rafvæðingunni og Prius sleppt út úr verksmiðjunni. Það hafi alltaf verið ætlunin að fara hægt í sakirnar.

Þó hefur orðið breyting þar á og fleiri tengiltvinnbílar bæst í úrvalið hjá Toyota, en fyrst árið 2013 var hægt að stinga nýjum Prius í samband. Enn þótti mörgum hann þó helst til hægur og jafnvel ekki ýkja fríður sýnum.

En nú er ný kynslóð af þessum brautryðjandabíl á leið til landsins, sú fimmta í röðinni, og henni fylgja fjölmargar breytingar. Í raun má fullyrða að bíllinn hafi verið endurhannaður og uppfærður á alla mögulega vegu.

Bíllinn var reyndur á hraðbrautum og kræklóttum þjóðvegum Attíkuskagans, suðaustur …
Bíllinn var reyndur á hraðbrautum og kræklóttum þjóðvegum Attíkuskagans, suðaustur af Aþenu á Grikklandi. Lét hann vel að stjórn og nýfenginn krafturinn kom á óvart. Skúli Halldórsson

Þurfti að hreyfa við fólki

Nýjasta útgáfan er komin á aðra kynslóð TNGA-undirvagnsins frá Toyota, sem dregur úr þyngd bílsins en gerir hann á sama tíma stífari til að bæta upplifunina af akstrinum. Undirvagninn tekur tillit til ólíkra orkugjafa og er nýttur í fleiri gerðir bíla hjá bæði Toyota og Lexus. Aðrir framleiðendur hafa einnig gripið til þessa ráðs á undanförnum árum, þ.e. að einfalda framleiðsluna eins og kostur er með því að kynna til leiks undirvagna sem nýtast þá nokkuð ólíkum bílum, sem þó deila stærðarflokki.

Satoki Oya, yfirverkfræðingur þessarar kynslóðar af Prius, sagði blaðamönnum á kynningu í Aþenu frá helstu áherslu sinni þegar hann tók við verkefninu: Frekar en að eltast við fullkomnu drægnina, þá vildi hann fyrst og fremst að fólk hrifist af bílnum. Benti hann á að það væri ekki lengur nóg fyrir Prius að vera tvinnbíll á markaði sem þessum, heldur þyrfti hann líka að hreyfa við fólki.

Rennilegri en sá sem fyrir rann

Á þessum grunni leyfðu verkfræðingarnir og hönnuðirnir sér að breyta útliti bílsins umtalsvert. Nútímalegar og fágaðar línur einkenna þessa kynslóð, sem hefur einnig það sérkenni að hæð bílsins hefur verið lækkuð um fimm sentimetra frá kynslóðinni á undan. Efsti hluti þaksins er færður aftar og ummál dekkjana stækkað, eins og tíðkast þessi misserin, eða upp í allt að 19 tommur.

Og hann virkar vissulega rennilegri en fyrirrennarinn. Satoki segir þó að 4. kynslóðin hafi í raun verið betri upp á straumlínulögun að gera. Ástæðan er sú að efsti hluti þaksins var framar, sem dró úr mótstöðu loftsins í keyrslu.

Aftur á móti, vegna þess að nýi bíllinn var lækkaður á heildina litið, þá minnkaði yfirborðssvæði hans sem því samsvaraði. Þannig er heildarloftmótstaða bílsins sú sama og í 4. kynslóðinni, en sá nýi þó mun fegurri að sjá.

Mælaborðið er beint af augum og val um tvær stærðir …
Mælaborðið er beint af augum og val um tvær stærðir af skjám til að stýra kerfum bílsins.

Nútímalegra, hraðara og betra

Þegar sest er í bílstjórasætið beinist athyglin fyrst að mælaborðinu, sem er fyrir aftan stýrið í fyrsta sinn í sögu Prius. Um er að ræða sjö tommu skjá sem er beint af augum og sýnir manni allar helstu upplýsingar sem þörf er á við aksturinn.

Fyrir framan framsætin er í miðjunni annar skjár að vanda, en þar stendur valið á milli 8 og 12,3 tomma stærða. Margmiðlunarkerfið hefur tekið töluverðum framförum frá síðustu Toyota-bílum, grafíkin er nútímalegri og kerfið hraðvirkara. GPS-viðmótið er einnig betra en maður hefur átt að venjast. Þá fylgir aðgengi að Apple CarPlay og Android Auto til að tengja snjallsíma þráðlaust við bílinn.

Meira pláss aftur í en áður

Lægra þaki fylgir að maður situr lægra en í fyrri útgáfum. Það kemur þó ekki að sök. Hávaxnir gætu þó ekki viljað sitja til langs tíma aftur í bílnum en um borð eru núna fimm sæti en ekki fjögur eins og voru framan af í sögu bílsins.

Rafhlaða bílsins hefur loks verið færð undir aftursætin, svo að meira pláss er í farangursrými bílsins sem er nú 284 lítrar að stærð.

Prius hefur fyrir löngu öðlast verðskuldaðan sess í bílasögunni.
Prius hefur fyrir löngu öðlast verðskuldaðan sess í bílasögunni.

Stóraukinn kraftur og góð fjöðrun

Síðasta útgáfa af Prius var meira en 10 sekúndur að ná upp í hundrað kílómetra hraða. Það tekur nýja bílinn aðeins tæplega sjö sekúndur að ná sama marki. Hemlunarvegalengdin hefur að sama skapi styst töluvert.

Auðvelt var að finna fyrir þessum stóraukna krafti bílsins, þar sem keyrt var á hraðbrautum jafnt sem kræklóttum þjóðvegum fornfræga Attíkuskagans í janúar síðastliðnum. Nýja kynslóðin er stífari eins og áður sagði, en bíllinn svarar manni hratt, fjöðrunin er góð og deyfir vel þau högg sem verða á vegi bílsins. Á ferð um hraðbrautirnar, á rúmlega hundrað kílómetra hraða, virkaði bíllinn tiltölulega áreynslulítill. Hljóðlátur og aðeins lítils háttar veghljóð til að tala um. Bílstjórasætið heldur manni vel í beygjum og það fer ágætlega um ökumann á lengra ferðalagi.

Í stuttu máli má segja að þetta sé betri bíll á alla vegu.

Nærri 70 kílómetrar á rafmagninu

Þá að drægninni: Lokaútgáfa Príus hefur ekki enn litið dagsins ljós og raunar er hann ekki væntanlegur til landsins fyrr en síðsumars. Ekki hafa því fengist gefnar upp lokatölur um eldsneytisþörf bílsins, svo sem hversu marga lítra hann þurfi á hundraðið.

Tölur sem Toyota hefur þó gefið upp til bráðabirgða, samkvæmt WLTP-staðlinum, gefa til kynna að Prius muni komast tæplega 70 kílómetra á rafmagninu einu saman, kjósi maður að keyra hann með þeim hætti. Að þeim kílómetrum loknum tekur 40 lítra eldsneytistankur við.

Bensínvél, tveggja lítra, framleiðir 152 hestöfl og í samvinnu við rafmagnsvélina frammi í bílnum, upp á 120 kílóvött, nær vélin samtals 223 hestafla krafti, eða sem nemur 164 kílóvöttum.

Breytt staðsetning rafhlöðu þýðir að meira pláss er í skottinu.
Breytt staðsetning rafhlöðu þýðir að meira pláss er í skottinu.

Besta eldsneytisnýtingin til þessa

Tveggja lítra vélin er 56% kraftmeiri en sú 1,8 lítra vél sem tilheyrði 4. kynslóð bílsins. Samt sem áður er nýja kynslóðin um það bil jafn sparneytin. Satoki segir að ástæðuna megi að mestu rekja til endurbóta á tvinnkerfinu. Ýmsar aðrar litlar lagfæringar hafi einnig hjálpað til. Meðal annars var breidd dekkjana minnkuð til að draga úr mótstöðu á veginum. Allt þetta gerir það svo að verkum, ef marka má upplýsingar frá Toyota, að þessi útgáfa mun hafa bestu eldsneytisnýtinguna til þessa.

Ljóti andarunginn er kannski ekki orðinn blakandi háfleygur svanur. En hann er ekki lengur ungi. Og alls ekki ljótur.

Stjórnbúnaður er stílhreinn og umhverfi ökumanns snyrtilegt.
Stjórnbúnaður er stílhreinn og umhverfi ökumanns snyrtilegt.

Toyota Prius 5. kynslóð

2,0 lítra bensínvél

120 kW mótor

223 hestöfl / 164 kW

Hámarkshraði: 177 km/klst.

0-100 km/klst. á 6,8 sek.

Eigin þyngd 1.545 til1.605 kg

Koltvísýringslosun á km: 19

Umboð: Toyota á Íslandi

Verð liggur ekki enn fyrir

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: