Nútímalegri Dacia Duster

Kynningin fór fram við sjávarsíðuna í Lissabon og naut bíllinn …
Kynningin fór fram við sjávarsíðuna í Lissabon og naut bíllinn sín sérlega vel á klettasyllu með brimið í baksýn.

Dacia Duster var annar mest seldi fólksbíllinn á Íslandi á síðasta ári. Það er því ekki skrýtið að eftirvænting sé farin að byggjast upp fyrir nýrri og endurbættri útgáfu bílsins sem væntanleg er nú í sumar, þriðju kynslóðinni.

Framleiðandinn efndi til forsýningar á bílnum í Lissabon í Portúgal í nóvember síðastliðnum og þangað mættu blaðamenn víðsvegar að úr heiminum til að berja gripinn augum. Það var ekki að sjá annað á mannskapnum en að hann væri hæstánægður með það sem fyrir augu bar.

Dacia Duster, sem kemur upphaflega frá Rúmeníu, hefur í gegnum árin fengið hrós fyrir hagstætt verð og einfaldleika, þó að sumum gæti kannski fundist hann ganga þar fulllangt. Það er því bæði kostur og galli en með nýju útgáfunni hefur ýmsu bæði skemmtilegu og notadrjúgu verið bætt í ökutækið sem ætti að kæta bæði gagnrýnendur og unnendur bílsins.

Dacia Duster er á fermingaraldri. Hann á fjórtán ára afmæli í ár og nýtur góðs af því að vera í eigu Reunault-bílafyrirtækisins franska. Sannprófaðar nýjungar í Renault skila sér að jafnaði um þremur árum síðar inn í Dusterinn eins og forstjóri Dacia talaði um á kynningarfundi í strandhúsi við hvítar og klettóttar Lissabonstrendur. Þar stóð nýi Dusterinn til sýnis í öllu sínu veldi.

Upplýsingakerfið er rúmlega tíu tommur og býður upp á helsta …
Upplýsingakerfið er rúmlega tíu tommur og býður upp á helsta sem þarf, þar á meðal Apple Car Play og Android Auto.

Svalur og notadrjúgur

Forstjórinn talaði ítrekað um að nýi Dusterinn væri „svalur“ (e. cool), umhverfisvænn (e. eco) og notadrjúgur (e. economical) en til sýnis voru tvær mismunandi útgáfur og fengu blaðamenn einungis að ganga í kringum bílinn og setjast inn en ekki aka að þessu sinni.

Ökutækið er í takt við tímann að því leyti að 20% endurunnið Starkle-plast er í plasthlífum að utan. Eru þessi hlutar bifreiðarinnar merktir með endurvinnslumerkinu til ítrekunar, auk þess sem litlar hvítar doppur í plastinu gefa ennfremur sterklega til kynna að um endurvinnslu sé að ræða.

Lógóið er eins og bíllinn sjálfur að ytra og innra byrði orðið kantaðra, nútímalegra og stórskornara og mér duttu strax í hug línurnar í Land Rover Defender þegar ég sá farartækið fyrst en þetta útlit virðist vera í tísku nú um stundir. Það gerir bílinn óneitanlega gæjalegan og gefur þau skilaboð að hann sé til í ærsl og sprell.

Mikið var á kynningunni talað um nýtt kerfi sem Dacia kallar „Youclip“, en í það er hægt að smella ýmsum aukahlutum bæði í innra rými og skott, hlutum eins og ljósi, hanka, símahaldara og glasahaldara. Þetta er skemmtilegt en maður spyr sig hvort þetta sé eitthvað sem fólk almennt kemur til með að nota. Sjáum til með það.

Allt í allt eru átta staðir þar sem hægt er að koma smellunum fyrir. Aftan á höfuðpúðum (hægt að smella þar til dæmis spjaldtölvum fyrir krakkana), í miðjunni að aftan, tveir í skotti, einn á mælaborði og einn hjá fótum í farþegasæti.

Þetta snjalla kerfi, eins og forstjórinn lýsir því, verður í öllum nýjum Dacia-bílum í framtíðinni.

Útlitið er orðið kantaðra og stórskornara rétt eins og lógóið.
Útlitið er orðið kantaðra og stórskornara rétt eins og lógóið. Þóroddur Bjarnason

Meiri torfærubíll

Nýi bíllinn er sem sagt enn meiri torfærubíll en sá gamli og búið að buffa hann svolítið upp. Fullyrti forstjórinn að maður væri sem fyrr að fá mikið fyrir peninginn, enda hefur það alltaf verið stefna Dacia.

Eitt af því sem sannprófað hefur verið í Renault-bílum er tvinnvélin sem nú má finna undir húddinu á nýja Dusternum. Hún var einfaldlega tekin af Renault-hillunni og komið fyrir í Dacia Duster 2024. Vélin ætti að gefa kost á um helmingsorkusparnaði og kolefnisútblástur minnkar um 10% ef keyrt væri eingöngu á bensíni.

Bíllinn er 166 sm á hæð, 1,8 metrar á breidd, 434 sm á lengd, en 209 mm frá jörðu í tvíhjóladrifsútgáfunni og 217 í fjórhjóladrifsútgáfunni. Skottið er síðan 472 lítrar.

Eins og menn þekkja úr fjölda annarra bíla býður sjálfskiptingin í fjórhjóladrifsbílnum upp á fjölval eftir því hvernig ökuaðstæðum bíllinn er í. Þar má nefna snjóval, sandval og ójöfnur. Svo er sjálfvirknival fyrir daglega notkun, ásamt umhverfisvæna Eco-kostinum. Af þessu má ráða að bíllinn er til í hvað sem er hvenær sem er. Einnig er hægt að fá bílinn með hefðbundinni sex gíra gírskiptingu.

Inni er bíllinn með 10,1 tommu snertiskjá með leiðsögukerfi og flestu því sem menn eiga að venjast nú til dags í svona búnaði, þar á meðal Android Auto og Apple Car Play.

Útgáfurnar sem voru til sýnis í Lissabon kallast Extreme og Journey. Þær eru tvær af fjórum sem Duster hyggst kynna á árinu. Journey er hugsaður meira fyrir borgarnotkun en Extreme fyrir önnur og kröfuharðari ævintýri uppi í sveit.

Ekki er boðið upp á díslbíl í Evrópu frá og með þessari 2024-útgáfu.

Sætin í Extreme-útgáfunni eru bæði sportleg og vatnsheld og þægilegt …
Sætin í Extreme-útgáfunni eru bæði sportleg og vatnsheld og þægilegt er að sitja í þeim. Þóroddur Bjarnason

Gott höfuðpláss

Þegar innra byrðið er skoðað nánar má sjá þar tvö USB-tengi fyrir farþega. Það var þægilegt að sitja í bílnum og höfuðpláss var gott. Ekki er boðið upp á neinn „óþarfa“ eins og rafmagn í sætum, enda er einfaldleikinn hér í fyrirrúmi, eins og Dacia hefur löngum státað af.

Það sem einkennir Extreme-útgáfuna er að koparlitur enduspeglast inni og úti. Liturinn er í spegli, í felgunni og svo inni í bílnum líka. Nokkuð laglegt.

Sætin eru vatnsheld í Extreme og auðvelt að þrífa þau. Það er mjög svalur fídus, sérstaklega ef maður kemur grútskítugur inn í bílinn beint úr sveitaverkum eða annarri útivist.

Sex hátalarar bílsins skapa ágætis hljóð auk þess sem ýmsar stillingar eru í boði í kerfinu, eins og bassi sem lætur manni líða eins og á dansgólfinu á Ibiza. Talk-stillingin á að auðvelda hlustun á hlaðvörp.

Duster-unnendur fá hér talsvert fyrir sinn snúð og ljóst er að þessi nýja útgáfa er klárlega líkleg til að stækka aðdáendahóp bílsins enn frekar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: