Ef bara allir bílar gætu prumpað

Það er alltaf eftir því tekið þegar vænghurðir eru opnaðar. …
Það er alltaf eftir því tekið þegar vænghurðir eru opnaðar. Þær eru þó ekki bara til skrauts heldur hafa líka mikið notagildi. Ásgeir Ingvarsson

Bílarnir frá Teslu eru svolítið eins og Elon Musk sjálfur: á yfirborðinu virðast þeir tilbrigðalitlir og einfaldir, en við nánari kynni kemur dýptin og skemmtilegur persónuleikinn í ljós.

Þannig tók það mig nokkra daga að komast að því að Tesla Model X, sem ég fékk að láni í nokkra daga suður í Frakklandi, gat leyst vind ef þess var óskað. Allt sem þarf er að sækja Teslu-snjallsímaforritið, tengja það við bílinn, og er þá hægt að skemmta sér löngum stundum með því að stríða gangandi vegfarendum og nágrönnum með fretum sem hljóma hátt og snjallt frá ytra hátalarakerfi bílsins. Eins og eitt gott prump sé ekki nóg þá býður Tesla upp á sex útfærslur af vindverkjum.

Við nánari skoðun kemur í ljós heilt prumpubrandaraþema í stjórnkerfi Model X. Er t.d. hægt að stríða farþegum með því að nota hljóðkerfi bílsins sem „prumpublöðru“. Þegar þessi stilling er virkjuð birtist á leiðsöguskjánum kort af farþegarýminu og þar sem hljóðkerfið fer leikandi létt með að framkalla þrívíða hljóðupplifun má láta prumpuhljóðið berast frá hvaða sæti sem er – kjörin leið til að lífga upp á langa bíltúra með börn í aftursætunum.

Þá er loftræstikerfið með svokallaða „efnavopnastillingu“, sem ég hélt í sakleysi mínu að væri einhvers konar skot á útblásturinn frá bensínbílum og leið til að virkja einhvers konar hágæðalofthreinsikerfi. En umfram allt virðist efnavopnastillingin hugsuð til þess að skipta út loftinu í farþegarýminu, ef einhver skyldi hafa rekið svo hressilega við að aðrir farþegar séu við það að kafna.

Er seint hægt að fá of mikið af svona hágæðaprumpubröndurum.

Vindmótstaðan ræður hönnun Model X og kemur á óvart hvað …
Vindmótstaðan ræður hönnun Model X og kemur á óvart hvað hann er rúmgóður að innan Ásgeir Ingvarsson

Lausnir sem ættu að vera í öllum bílum

Auðvitað hefur það ekkert að segja um notagildi bíls hvort hægt er að láta hann freta, en þetta lauflétta grín hjá Teslu sýnir vel hvað fyrirtækinu er í mun að skapa ánægjulega upplifun, reyna að fara fram úr væntingum ökumannsins og hugsa ögn út fyrir boxið svo að bíllinn sé eitthvað meira en kassi á hjólum til að flytja farþega og farangur frá A til B.

Metnaðurinn sést t.d. í leiðsögu- og upplýsingakerfinu, sem er sennilega það besta sem finna má í nokkrum bíl á markaðinum í dag. Upplýsingaskjárinn er risavaxinn og skarpur og gerir sambúðina með bílnum áreynslulausa og ánægjulega. Á þröngum götum Parísar nýtti skjárinn þá ótalmörgu skynjara sem eru á bílnum til að hjálpa mér að greina umhverfi mitt betur, og fyllti mig sjálfstrausti þó að Model X sé stór bíll – 4,7 metrar á lengdina og 1,9 á breiddina – sem ætti ekki að vera neitt sérstaklega gaman að aka í evrópskri stórborg með þunga umferð.

Möguleikar skjásins eru nýttir til hins ýtrasta. Til dæmis er hægt að breyta leiðsögukerfinu í leikjatölvu, karaókí-tæki eða streyma kvikmyndum af Netflix, svo farþegar geta stytt sér stundir ef þeir t.d. þurfa að bíða í 45 mínútur á hraðhleðslustöð á meðan fyllt er á rafhlöðurnar.

Margt af litlu og sniðugu lausnunum sem bílarnir frá Teslu búa yfir er svo afskaplega sjálfsagt, þegar út í það er farið, og merkilegt að aðrir framleiðendur hafi t.d. ekki apað eftir hunda-stillingunni sem hefur það hlutverk að halda þægilegu hitastigi í bílnum ef hann er skilinn eftir í stæði með gæludýr um borð. Upplýsingaskjárinn lætur aðra vegfarendur vita að ekki þurfi að hafa áhyggjur af dýrinu – loftkælingin sé í gangi og eigandinn ekki langt undan. Hugbúnaðurinn á bak við svona lausnir getur varla verið svo flókin smíði, og ætti að vera staðalbúnaður í öllum bifreiðum með loftkælingu og aksturstölvu.

Plaid-merkið nýtist m.a. til að gera aðra Teslu-eigendur afbrýðisama.
Plaid-merkið nýtist m.a. til að gera aðra Teslu-eigendur afbrýðisama. Ásgeir Ingvarsson

1.020 hestafla veisla

En úthugsað tölvukerfi er eitt, og akstursupplifun annað. Er skemmst frá því að segja að Tesla Model X er lipur og skemmtileg bifreið. Fékk ég „Plaid“ útgáfu af bílnum til að prófa, sem er kraftmesta gerðin og á að komast úr kyrrstöðu í 100 km/klst á aðeins 2,6 sekúndum. Að vísu þarf þá fyrst að hita bílinn upp, og virkja sérstaka spyrnu-stillingu og getur það tekið bílinn nokkur kortér, ef hann er kaldur, að gera sig kláran til að rjúka af stað. Í daglegum akstri er Model X samt enginn snigill, og gerðist það nokkrum sinnum í reynsluakstrinum að ég steig aðeins of fast á orkupedalann, svo að þessi 2,6 tonna 1.020 hestafla dreki rauk af stað með svo miklu offorsi að farþegum varð ekki um sel.

Þá bætir það akstursupplifunina hvað útsýnið er gott til allra átta, og hvað upplýsingagjöfin til ökumanns er skýr og góð. Framrúðan á Model X ku vera sú stærsta sem finna má í nokkrum bíl, en hún teygir sig frá húddi og alla leið yfir framsætin, svo engin hætta er á innilokunarkennd.

Reynsluakstursbifreiðin kom með nýja „yoke“ stýrinu frá Tesla en lögun þess minnir helst á stýrið í formúlu-kappakstursbíl. Stýrið vandist tiltölulega fljótt en gat verið svolítið óþjált í hringtorgum. Þá er stefnuljósunum stýrt með takka vinstra megin á stýrinu og gat verið snúið að nota stefnuljósið rétt þegar beygt var út úr hringtorgi, enda hreyfist takkinn með stýrinu.

Jaðrar jafnvel við að verkfræðingar og hönnuðir Teslu hafi gengið hálfu skrefi of langt við að skapa einfalt og stílhreint farþegarými því að engin gírstöng er í bílnum og þarf að nota snertiskjáinn til að skipta í bakkgír sem gat verið leiðinlegt við að eiga við sumar aðstæður. Sama gildir með að stilla stýrið: það er enginn pinni undir stýrisstönginni heldur þarf að kafa nokkuð djúpt í stjórnkerfi bílsins til að færa stýrið upp, niður, fram og til baka.

Þá stríddi tæknin stundum. Gerðist það t.d. í miðjum akstri að slokknaði á mælaborðinu í um það bil tíu sekúndur, og þá gekk á köflum ögn erfiðlega að tengja fullkominn snjallsíma við lyklabúnað bílsins en alla jafna á að vera hægt að nota símann sem lykil. „Lykillinn“ sjálfur er svo bara lítið kort, sem vissara er að geyma í veskinu til öryggis, ef síminn skyldi klikka.

Loks verður það að fljóta með að drægnikvíðinn gerði vart við sig í reynsluakstrinum. Leiðin lá frá París til strandbæjarins fallega Deauville við Ermarsund, og svo til Rúðuborgar í bakaleiðinni – ekki nema rúmlega 200 km akstur hvora leið. Stóð ég mig að því að heimsækja hraðhleðslustöðvar fjórum sinnum, þó uppgefin drægni sé 543 km á hleðslu. Var það mat semferðamanna minna að þó það geti verið agalega þægilegt að eiga rafbíl sem stinga má í samband heima og nota í daglegt snatt innanbæjar, og losna þannig við allar heimsóknir á bensínstöð, þá hafi það ýmsa kosti að vera á bensín- eða dísilbíl þegar lagt er upp í langferð og geta fyllt tankinn í hvelli – sérstaklega ef það er fátt skemmtilegt að sjá og gera í kringum hraðhleðslustöðvarnar.

Framrúðan teygir sig langt upp á þak. Sú stærsta sem …
Framrúðan teygir sig langt upp á þak. Sú stærsta sem finna má á nokkrum bíl. Ásgeir Ingvarsson

Erfitt að standast vænghurðir

Þó það sé leiðinlegt að þurfa að drolla á meðan fyllt er á rafhlöðurnar, þá verður að segjast eins og er að Model X er bifreið með heilmikið notagildi og kjörinn bíll fyrir heimili með mörg börn og jafnvel einn eða tvo hunda af stærri gerðinni, enda sæti fyrir sex manns að bílstjóra meðtöldum, og skottið rúmgott. Fella má öftustu sætaröðina niður s.s. til að koma fyrir reiðhjóli, og svo er líka farangursgeymsla undir húddinu sem er 183 lítrar að stærð – ætti að rúma a.m.k. fjóra innkaupapoka af stærstu gerð.

Líkt og með flesta bandaríska bíla má einnig finna nóg af djúpum og stórum geymsluhóflum í farþegarýminu og eru t.d. tvö stór hólf á milli framsætanna þar sem geyma mætti nokkrar stórar gosflöskur.

Punkturinn yfir i-ið eru vænghurðirnar að aftan, sem lyftast upp eins og á Mercedes-Benz 300SL. Skynjarar gæta þess að vængirnir rekist ekki utan í nálæga bíla eða upp í loftið á bílastæðakjallara með litla lofthæð, en bæði eru vænghurðirnar skemmtilegt krydd í tilveruna og eitthvað sem tekið er eftir, og þær bæta stórlega aðgengi að öftustu sætaröðinni. Vænghurðunum má svo loka með því einfaldlega að ýta á takka, eða í gegnum Teslu-snjallforritið.

Vænghurðirnar bæta aðgengið að aftursætunum.
Vænghurðirnar bæta aðgengið að aftursætunum. Ásgeir Ingvarsson

Tesla
Model X Plaid

1.020 hö / 1.020 Nm

Hámarkshraði: 262 km/klst.

Stærð rafhlöðu: 100 kWst

Drægni allt að 543 km (WLTP)

0-100 km/klst á 2,6 sek.

Eigin þyngd: 2.462 kg

Dráttargeta: 2,250 kg

Farangursrými: 183 l að framan og allt að 2.410 l að aftan

Verð: 16.745.725 kr.

Umboð: Tesla á Íslandi

Stýrið venst og leiðsögukerfið er framúrskarandi.
Stýrið venst og leiðsögukerfið er framúrskarandi. Ásgeir Ingvarsson



Þessi grein birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. maí.

Þegar aftasta sætaröðin er felld niður má koma miklu fyrir …
Þegar aftasta sætaröðin er felld niður má koma miklu fyrir í skottinu. Ásgeir Ingvarsson
Meira en 1.000 hestöfl kalla á hreyfanlega vindskeið.
Meira en 1.000 hestöfl kalla á hreyfanlega vindskeið. Ásgeir Ingvarsson
Þökk sé glerþakinu sést vel í allar áttir. Innréttingin er …
Þökk sé glerþakinu sést vel í allar áttir. Innréttingin er einkar stílhrein. Ásgeir Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: