HAN er frár og feiknalega fallegur

HAN er sportlegur en virðulegur um leið. Honum svipar að …
HAN er sportlegur en virðulegur um leið. Honum svipar að nokkru til Tesla þótt hönnunin sé nokkuð flóknari. Hönnuður bílsins er meðal þekktustu þýsku bílahönnuða síðari ára, Wolfgang Egger. Kristinn Magnússon

Það hefur ekki verið hægt að komast hjá því að beina sjónum að Kína að undanförnu þegar rafbílavæðingin er annars vegar. Vatt ehf. hóf nýlega sölu á fólksbílum frá framleiðandanum BYD (sem stendur fyrir Build Your Dreams), líkt og höfundur gerði skil í síðasta bílablaði Morgunblaðsins. Og kannski finnst fólki nóg um: Er þetta ekki bara eins og þegar Polstar kom á markaðinn, eða Aiways, nú eða Maxus? Hvað með Hongqi, Rolls-Royce þeirra Kínverjanna?

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekki hægt að líkja innreið BYD á markaðinn við komu fyrrnefndra tegunda til Íslands. Fyrir því eru tvær ástæður helstar: Annars vegar sú að BYD er í dag orðinn umsvifamesti rafbílaframleiðandi heims og hins vegar sú að vörulínan er breið og fer stækkandi. Nú þegar eru þrír mjög ólíkir bílar frá BYD í sölu hér á landi og innan fárra mánaða mun þeim fjölga enn frekar með mjög forvitnilegu úrvali.

Snaggaralegur séð að aftan. Drekatennurnar svokölluðu gera hann skemmtilega sportlegan.
Snaggaralegur séð að aftan. Drekatennurnar svokölluðu gera hann skemmtilega sportlegan. Kristinn Magnússon

Framleiðir líka iPad

Fleira mætti þó tína til, m.a. þá staðreynd að BYD er leiðandi í þróun nýjunga við rafhlöðuframleiðslu og þá hefur fyrirtækið aflað sér gríðarlegrar reynslu og viðurkenningar með framleiðslu annarra raftækja, sem kemur sannarlega að góðum notum við bílsmíðina. Má þar nefna þá staðreynd að fyrirtækið hefur lengi annast framleiðslu spjaldtölvunnar iPad fyrir Apple og sér því m.a. stað í glæsilegum tölvuskjám sem prýða bílana frá fyrirtækinu.

Í fyrrnefndri grein frá liðnum mánuði fór ég í breiðum strokum yfir stöðu BYD og hvers má vænta frá fyrirtækinu á komandi misserum, ekki síst með nýjum smábíl undir heitinu Dolphin og sportlegum fólksbíl sem nefnist SEAL en honum er stefnt til höfuðs Tesla 3.

En nú þegar á markaðnum hér heima eru millistærðar-lúxusbíllinn HAN, sportjeppinn TANG og borgar-, snatt- og fjölskyldubíllinn Atto 3. Það var því úr vöndu að ráða hvern þessara bíla skyldi fjallað um á þessum vettvangi í fyrsta kasti en eftir nokkra ígrundun þótti mér ekki annað koma til greina en að taka HAN til kostanna. Hann er óhjákvæmilega flaggskip fyrirtækisins á markaðnum og verður það uns stórjeppinn U8 kemur á markað en nokkur bið verður á að honum verði sleppt lausum í íslenskri náttúru.

Að drekanum

HAN má skilgreina sem lúxusbíl í millistærð en það er erfitt að staðsetja hann á markaðnum með tilliti til annarra sambærilegra bíla. Verð og búnaður setur því skorður. Stærðin nálgast Tesla S en aflið er minna.

Hins vegar er bíllinn hlaðinn aukabúnaði sem gerir hann að mjög spennandi kosti fyrir þá sem ekki telja sig endilega þurfa 600 hestöfl út í hjólabúnaðinn og telja að rúmlega 500 séu nóg.

Það fyrsta sem grípur augað er ytra byrði bílsins. Hann er eins og flestir rafbílar mjög rennilegur útlits sem skýrist af kröfunni um lágmörkun loftmótstöðu við akstur. Þrátt fyrir það tryggir snaggaralegur afturendinn og sérkenni sem birtast í krómlistum á framhurðum og meðfram rúðum að straumlínulagað útlitið smættar ekki lengd hans. Vígalegar 19 tommu álfelgur gera slíkt hið sama.

Og útlitið er ekki „undarlegt“ eins og halda má fram að eigi við um t.d. Hongqi sem er einhvers konar afkvæmi Rolls-Royce og viðhafnarbíla Kínverska kommúnistaflokksins. Hið hefðbundna en sportlega útlit ætti þó ekki að koma á óvart enda hugarfóstur ekki minni hönnuðar en Wolfgangs Eggers en hann hefur fyrr á tíð getið sér frægð fyrir hönnunarstarf fyrir framleiðendur á borð við Audi, Lamborghini og Alfa Romeo. Því má segja að Han sé evrópskur í útliti og að skyldleiki sjáist ekki síst við hina fagurlega mótuðu Audi-bíla sem nú þeysa um göturnar undir merkjum Q8 e-tron og jafnvel e-tron GT.

Það væsir ekki um farþegana aftur í og þótt bíllinn …
Það væsir ekki um farþegana aftur í og þótt bíllinn sé ekki risavaxinn í sniðum þá minnir hann um margt á sannkallaða lúxuskerru. Sætin og tölvuskjárinn í millistokknum sjá fyrir því. Bíllinn er fimm manna. Kristinn Magnússon

Þétt og góð smíði

Hafi maður lyklavöldin mæta handföngin manni með mjúkri hreyfingu þegar gengið er upp að bílnum. Og það fyrsta sem maður tekur eftir, rétt eins og reyndin var í prufuakstri SEAL-bílsins í Barselóna um daginn, er að smíðin virðist þétt. Hurðirnar eru sannarlega ekki þungar, enda væri það til vansa á rafbíl sem þarf að byggja á léttleika, en þéttar eru þær og það kemur fyrst í ljós þegar maður er sestur inn og lokar á eftir sér.

Og þá hefst gamanið fyrir alvöru. Fyrst tekur maður óhjákvæmilega eftir 15,6 tommu snertiskjá fyrir ofan millistokkinn. Svo eru það stungin, brún leðursætin sem tóna vel við viðarklæddar innréttingar. Í sætum er bæði kraftmikil hitun en einnig kæling sem kannski er ekki bráðnauðsynleg við íslenskar aðstæður en ég get þó vitnað um, af fyrri reynslu (úr Kia Optima), að kemur sér vel þegar maður kemur hálfsveittur úr ræktinni eða hefur dúndrað sér í gufuna svona rétt áður en maður tekur kvöldverð með góðu fólki í bænum.

Eitt er svo mikilvægt að hafa á hreinu, áður en lengra er haldið í upptalningu á búnaði bílsins, að Úlfar og hans fólk hjá Vatt ehf. hafa ákveðið að gera íslenska markaðinum valið á Han nokkuð einfalt. Hann kemur aðeins í einni tækniútfærslu, fjórhjóladrifinn og hlaðinn aukabúnaði. Spyrja má hvort þar sé of eða van, en svarið er einfalt. Frekar mætti halda að of mikið sé í bílnum að finna en of lítið. Það gerir þó ekki til þegar verðið er gaumgæft og ljóst að þarna er mikið fengið fyrir peninginn.

Skemmtileg ljósastýring

Stýrið er sportlegt og í nettari kantinum þótt það sé leðurklætt að mestu. Aðgerðastýrið er sömuleiðis tiltölulega einfalt en takkaborðið á því er dálítið mikið plastkennt og hefði ég viljað sjá það í meiri glans, nokkuð í anda drifskiptingarinnar í millistokknum sem er nútímaleg og með skemmtilegri díóðulýsingu. Það er lýsing sem raunar teygir sig um bílinn þveran og endilangan og er útfærð með nokkuð smekklegum hætti. Þar hafa ljósahönnuðirnir ekki misst sig algjörlega eins og reyndin er í EQS frá Benz en þar teygja ljósaborðarnir sig upp eftir öllum sætum og má bara þakka fyrir að bílstjórinn sé ekki upptendraður með beinni rafspýtingu einnig.

Mikið pláss er fyrir bílstjórann og hvergi þrengir að honum þótt á sama tíma séu sætin þannig að maður upplifir lúxus og að þau haldi vel utan um bak og læri.

Aftursætin eru með sama móti og raunar eru þau rafstýrð einnig þannig að farþegar geta stýrt halla á sætisbaki með einföldum skipunum. Sé miðjusætið fellt fram kemur ekki aðeins í ljós vígalegur armpúði og glasahaldari heldur 7 tommu snertiskjár sem gerir forréttindapúkunum aftur í kleift að stýra loftræstingu aftur í og raunar músíkinni frammi í. Það er ágætt svo lengi sem maður situr aftur í sjálfur eða getur verið viss um að tónlistarsmekkur farþeganna sé í ágætu jafnvægi. Eins og dæmin sanna er ekki alltaf hægt að stóla á það.

Séu þrír farþegar í aftursætum kemur skjárinn ekki að notum. Þá er öðru minna stjórnborði fyrir að fara í miðjustokki sem er sömuleiðis vel aðgengilegt og skýrt. Fyrir farþegana aftur í er sóllúgan líka stór plús. Hún er stór og með rafstýrðu sólskyggni sem dempar birtuna mjög og tryggir, í mestu sólinni, að ekki er þörf á að grípa til sólgleraugnanna nema þá til þess að passa upp á útlitið.

Skiptingin og starthnappur eru sportleg og vel útfærð.
Skiptingin og starthnappur eru sportleg og vel útfærð. Kristinn Magnússon

Hóflegur töffaraskapur

Á skottloki bílsins stendur auk setningarinnar „Build your Dreams“ – sem ég tel reyndar bráðsnjalla lausn framleiðandans til þess að skapa þau hughrif að bíllinn sé framleiddur í Evrópu eða Bandaríkjunum en ekki Kína – HAN og svo talan 3,9. Hún lætur ekki mikið yfir sér en hún segir þeim sem fylgja í kjölfarið að það taki þennan dreka jafnmargar sekúndur að fara úr kyrrstöðu í 100 km hraða á klukkustund. Það er ekki það mesta sem við sjáum á markaðnum, en það er samt talsvert fyrir bíl sem þennan. Hröðunarmöguleikinn kallast svo skemmtilega á við afturljósin sem teygja sig þvert yfir skottlokið. Það er þó ekki aðeins bein lína heldur með talsverðum krúsídúllum sem framleiðandinn kallar sjálfur „drekatennur“ og fer vel á því enda fyrirbærið, sem raunar er ekki til nema í þjóðsögunum, eitt helsta einkennistákn Kína.

Í sportstillingu er bíllinn frár og fimur og afar skemmtilegur í meðförum. Það kemur ekki að sök hér á landi að hámarkshraði bifreiðarinnar sé ákvarðaður 180 km á klst. en það færi eflaust í taugarnar á ökumanni á hraðbrautum Þýskalands þar sem Taycan frá Porsche á enn 80 km inni hið minnsta þegar hámarksafköstum er náð á Han.

En bíllinn er ekki aðeins góður á spani. Hann er mjúkur í hægri keyrslu og dempunin er beinlínis hugljúf, ekki síst þegar farið er yfir hraðahindranirnar í Urriðaholtinu. Þeim er farið að svipa helst til eyjanna á Breiðafirði. Þær eru óteljandi! Fjöðrunin er tryggð með rafstillanlegum höggdeyfum frá MacPherson að framan og fjölliðafjöðrun að aftan sem sömuleiðis fylgja rafstillanlegir höggdeyfar.

Stjórntækin eru vígaleg og aðgengileg. Ekki amalegt að framleiðandi iPad …
Stjórntækin eru vígaleg og aðgengileg. Ekki amalegt að framleiðandi iPad sé hér við stýrið Kristinn Magnússon

Vetraraðstæður spennandi

Það verður skemmtilegt að prófa bílinn þegar kemur í vetraraðstæður og hálku – en nýjustu veðursviptingar, m.a. í Borgarfirði, útiloka þann möguleika ekki einu sinni í sumarbyrjun. Fjórhjóladrifið er góður kostur. Drægnin virðist góð og halda sér vel í bílnum þótt hraðakstur, þó innan marka, reyni nokkuð á þolrif rafhlöðunnar. Samkvæmt WLPT getur bíllinn náð allt að 662 km í innanbæjarakstri en það er aðeins gert við bestu aðstæður og með sparakstri sem gæti gert yngstu menn ellidauða. Nær má halda að drægnin sé ríflega 500 km við þokkalegar aðstæður og er það með afbrigðum gott.

Niðurstaða mín er þessi: BYD er komið til þess að hafa áhrif á markaðnum. Verðmiðinn á HAN, auk búnaðarins sem þar er boðið upp á, er með ágætum og mun freista margra sem eru reiðubúnir að setja allt að 10 milljónir í glæsilegan fjölskyldubíl. Litaúrvalið er ekki mikið en verður þó í hinum hefðbundna hvíta og svarta, steingráum og svo mjög fallegum rauðum sem kemur mjög vel út í perlulakki.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. maí 2023.

BYD HAN 4x4

510 hö /700 NM

Eyðsla frá: 146 Wst/km

Stærð rafhlöðu: 84,5 kWst

Drægni allt að 662 km (WLTP)

0-100 km/klst á 3,9 sek.

Eigin þyngd: 2.250 kg

Farangursrými: 410 lítrar

Verð: 9.980.000 kr.

Bílaumboð: Vatt ehf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: