„Þú átt að keyra lengri leiðina heim“

Porsche Cayenne E-hybrid árgerð 2024 kemur til landsins í júlí.
Porsche Cayenne E-hybrid árgerð 2024 kemur til landsins í júlí. Porsche

Að fá að keyra lúxusbíl í Ölpunum er nokkuð sem fáir myndu slá hendinni á móti. Í maímánuði kynnti Porsche nýjan Porsche Cayenne 2024 módel og fékk undirrituð, sem leikur stundum hlutverk bílablaðamanns, að skreppa yfir hafið í austurrísku Alpana að skoða og prufukeyra bíla sem marga dreymir um að eiga. Nýr og endurbættur Porsche Cayenne E-hybrid olli ekki vonbrigðum.

Porsche er heillandi bíll, því verður ekki neitað. Einstök hönnun hefur einkennt bílinn allt frá því hann kom fyrst á markað árið 1948 og svo er hann hraður og sportlegur, jafnvel í jeppabúningi eins og Porsche Cayenne.

Útlitið skemmir sannarlega ekki fyrir; Porsche-bílar eru nefnilega allt í senn; klassískir, töff og fallegir. Það er bara ekki til ljótur Porsche. En útlitið segir ekki allt. Og hvað varðar Cayenne, þá er hann líka rúmgóður fjölskyldubíll, kraftmikill, sportlegur og í tilviki E-hybrid umhverfisvænn. Benedikt Eyjólfsson, eða Benni í Bílabúð Benna, hitti blaðamann fyrir ferðina og leyfði honum að taka aðeins í Cayenne árgerð 2023, en segir þann nýja enn betri.

„Það sem er svo frábært við þennan bíl er að það er hægt að keyra hann bæði í torfærum og á kappakstursbrautum og ferðast á honum langar vegalengdir, en það er líka gott að keyra í honum innanbæjar,“ segir Benedikt og greinilegt er að honum finnst gaman að keyra Porsche.

„Þú átt að keyra lengri leiðina heim.“

Nýi Cayenne er á stærri dekkjum en áður og aðeins …
Nýi Cayenne er á stærri dekkjum en áður og aðeins breyttur í útliti. Hann er stórgóður í innanbæjarakstri en einnig á sveitavegum. Porsche

Sagan öll í Stuttgart

Af stað var haldið eldsnemma einn morguninn og lá leiðin frá Keflavík til Frankfurt. Með í för var fulltrúi Viðskiptablaðsins sem átti eftir að sýna góða takta, bæði undir stýri og eins þegar ná átti lestinni frá Frankfurt til Stuttgart. Fyrsta stoppið okkar var nefnilega í Porsche-safninu í þeirri borg. Lítill tími var á milli lendingar og lestar, og næsta lest var ekki góður kostur, því þá hefði Porsche-safnið verið lokað. Eftir nokkur hlaup um flugvöllinn, upp og niður lyftur og rúllustiga, fundum við loks lestina og horfðum á dyrnar vera að lokast. Samferðamaðurinn tók undir sig ofurhetjustökk og henti sér á milli stafs og hurðar, svo að segja, og klemmdist þar á milli í eina sekúndu; nógu mikið til að dyr opnuðust á ný og undirrituð gat fleygt sér inn. Ferðalög eru ekki alltaf tekin út með sældinni.

Í Porsche-safnið náðum við fyrir lokun. Fyrir utan stóðu í röðum nokkrir 911, í ýmsum litum, og innandyra var sagan öll. Það var verkfræðingurinn Ferdinand Porsche sem kom fyrsta Porsche-bílnum á markað árið 1948, bíll sem nefndist 356 og voru 52 slíkir bílar handsmíðaðir í litlum bílskúr í Gmund, Austurríki. Tveimur árum síðar eru fyrstu bílarnir pantaðir til Bandaríkjanna. Árið 1951 lést Ferdinand, en bíllinn hans var kominn til að vera og næstur á markað var 550 Spyder og síðar Speedster, sem eru í dag eftirsóttir hjá söfnurum. 911 kemur svo til sögunnar árið 1963 og slær í gegn. Og sagan hélt áfram, en alla þessa bíla Porsche-sögunnar er hægt að berja augum í safninu í Stuttgart og vel þess virði að kíkja þar við ef þið eigið leið um borgina.

Að innan hefur engu verið til sparað og innréttingin sérlega …
Að innan hefur engu verið til sparað og innréttingin sérlega falleg. Porsche

Enginn lúxus á fjallstoppi

Eftir nokkuð stuttan nætursvefn var haldið aftur út á flugvöll þar sem lítil leiguvél beið okkar blaðamanna. Flogið var áleiðis til Salzburg og lent þar í nokkuð drungalegu veðri. Vorið var rysjótt víðar en á Íslandi.

Þegar stigið var út úr vélinni, blasti dýrðin við; um fimmtán glænýjar og skínandi Cayenne-bifreiðar biðu okkar, bæði Cayenne S og E-hybrid, og fengum við fyrst að keyra þann fyrrnefnda. Það er alltaf sérstök tilfinning að setjast inn í glænýjan bíl, strjúka hendinni eftir leðrinu, fikta í nýjum tökkum, leggja af stað og gefa aðeins í. Enda ekki annað hægt þegar maður situr í bíl sem er tæp 500 hestöfl og 4,7 sekúndur í hundrað! Leiðin lá upp á við, upp á fjallstind í Ölpunum sem ég kann ekki nafnið á. Leiðin upp sjálft fjallið var brött og hlykkjótt og því ofar sem dró, því holóttari var vegurinn og bíllinn hreini varð fljótt blautur og drullugur. Það kom ekki að sök og ökuferðin upp gekk áfallalaust, enda vorum við í jeppa af bestu gerð.

Uppi á fjallstoppi var skíðaskáli þar sem kynning fór fram, ásamt síðbúnum hádegismat. Útsýnið átti að vera guðdómlegt, því úr þessari hæð hefði verið hægt að sjá yfir Alpana svo langt sem augað eygði, en nei, því miður var slydda og þoka og ískalt. Veðrið bauð sannarlega ekki upp á neinn lúxus.

Í Porsche-safninu í Stuttgart var hægt að skoða Porsche-bíla af …
Í Porsche-safninu í Stuttgart var hægt að skoða Porsche-bíla af öllum stærðum og gerðum. Ásdís Ásgeirsdóttir

4,9 sekúndur í hundrað

Snúum okkur að máli málanna, nýja Porsche Cayenne E-hybrid og Porsche Cayenne E-hybrid í Coupe-útfærslu en þessir bílar verða komnir til landsins í næsta mánuði. Eftir kynninguna á fjallstoppinum fengum við að keyra tvinnbílinn sem er sá bíll sem Íslendingar eru líklega spenntastir fyrir. Niður brekkuna var haldið og bíllinn, í þetta sinn hljóðlátur eins og rafmagnsbíla er siður, var eins og hugur manns, mjúkur sem smjör. Sumir myndu eflaust segja að þeir sakni vélarhljóðsins, en þetta er framtíðin og þýðir lítið að horfa til baka. Eftir að bíllinn komst af moldarvegum fjallsins var hægt að gefa aðeins í, og gaf hann S-týpunni lítið eftir, enda kemst hann í hundrað á 4,9 sekúndum, sem munar nú ekki miklu. Sem er ansi gott fyrir tveggja tonna jeppa.

Spurt hefur verið hvers vegna Porsche er að setja á markað þennan tvinnbíl þegar setja á 100% rafmagnsbíl á markaðinn árið 2025, en þessi verður hins vegar til sölu út áratuginn, samhliða þá hinum sem kemur eftir tvö ár. Og hann er kraftmikill, það vantar ekki. Heil 470 hestöfl finnast þar undir húddinu.

Öflugri rafmagnsmótor

Nýi Porsche Cayenne E-hybrid er virkilega spennandi og nokkuð breyttur frá fyrri árgerðum. Helst má nefna að drægnin er mun meiri; nú níutíu kílómetrar, en Porsche endurhannaði rafhlöðuna þannig að hægt væri að koma meira af batteríum í sama rými og áður. Rýmið í skottinu hefur því ekki minnkað. Rafmagnsmótorinn í þessum nýja bíl er nú miklu öflugri en í eldri bílum og því er upplifunin að keyra á rafmagninu mikið skemmtilegri en áður hefur verið.

Að utan eru breytingar ekki mjög áberandi, en þó eru nokkur atriði sem má nefna. Stærstu breytingar eru á fram- og afturendum. Þar má finna nýjan framstuðara, ný framljós og nýtt húdd, en að aftan er nýr afturhleri og nýr stuðari og númeraplatan hefur verið færð neðar. Breytingin sem er kannski hvað sýnilegust er að bíllinn er kominn á mun stærri dekk en áður. Dekkin eru þrjátíu tommur og bjóða því upp á mýkri og þægilegri akstursupplifun, sérstaklega á handónýtum sveitavegum landsins.

Fram- og afturljósin eru nú tæknilegri og eiga að stjórna ljósgeislanum mun nákvæmara en áður. Var það helst gert til að auka öryggi úti á vegum og til að bjóða upp á nýstárlega möguleika, en til að mynda ef þú keyrir inn á vinnusvæði og þarft að komast á milli keila, kasta ljósin fram á veginn „kassa“ jafnbreiðum bílnum, þannig að þú getur séð hvort bíllinn komist þar á milli. Eins henta ljósin vel ef gangandi vegfarendur eða dýr eru í vegkantinum, en þau skjóta þá blikkandi ljósi á manneskjuna, þó ekki þannig að viðkomandi blindist því ljósgeislinn er það neðarlega.

Skjár fyrir farþegann

Að innan er frágangur í hæsta gæðaflokki og hugsað fyrir öllu, en hægt er að panta sér ýmsar útgáfur af sætaefnum. Það er nóg pláss aftur í, sérstaklega ef þar sitja aðeins tveir, og gott pláss fyrir ofan höfuð farþega. Hér hefur verið bætt við þeim möguleika að halla sætum aftur, þannig að farþegar aftur í geta hallað sér aðeins. Einnig er hægt að færa þar sætin framar ef vantar meira pláss í skottinu, sem er æði rúmgott fyrir.

Frammi í eru nokkrar breytingar. Stjórnborðið og skjáir eru allir nýir. Fyrir framan farþega er nú skjár og getur hann þá annaðhvort fylgst með vegakorti og sagt til vegar, eða hreinlega horft á bíómynd. Ökumaður sér ekki á skjáinn þannig að hann truflast ekki við akstur. Snertiskjár er fyrir ökumann, en einnig takkar. Bose-græjur tryggja mikil gæði ef hlustað er á tónlist.

Í bílnum er nú þróaðra kerfi sem passar að ökumaður rási ekki yfir hvítu miðlínu vegarins og ef það gerist leiðréttir hann sig sjálfur aftur á beinu brautina. Sumum kann að þykja þessi tækni óþægileg en hægt er að slökkva á þessu.

Ýmsir nýir litir eru nú í boði, bæði að utan og innan, en fólk í dag er mikið að „smíða“ sér bíl eftir sínu höfði. Hvað varðar nýja Cayenne er nú meira í boði en áður af innréttingum og frjálslegri litir en áður og margar tegundir af felgum að velja úr.

Reynslunni ríkari

Eftir kynningu og nokkurra tíma keyrslu komum við á lúxushótel þar sem boðið var upp á kvöldmat og gistingu. Aftur var vaknað fyrir allar aldir og haldið heim á leið í íslenska vorið, Porsche Cayenne-reynslunni ríkari. Það er fátt slæmt hægt að segja um þennan ágæta bíl og stóðst hann allar væntingar okkar bílablaðamanna og gott betur.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 20. júni 2023.

 

Porsche Cayenne E-hybrid

Orkugjafi: Rafmagn/bensín

Hestöfl: 470 (304/176)

Drægni: Allt að 90 km

Hröðun 0-100: 4,9 sek.

Verð: Frá 17.990.000 kr.

Umboð: Bílabúð Benna

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: