Fá helling fyrir peninginn

„Hjólið er eins konar bræðingur af miklu dýrari og stærri …
„Hjólið er eins konar bræðingur af miklu dýrari og stærri evrópskum Scrambler-hjólum hvað útlitið varðar en hefur léttleikann sem yfirleitt finnst bara í 250 rúmsentimetra hjólum,“ segir í umsögninni Eggert Jóhannesson

Mótorhjólafólk kætist jafnan þegar vorar og ný mótorhjól koma á göturnar. Það er þó fremur sjaldgæft að mótorhjólamerki sé kynnt til sögunnar á Íslandi þar sem fyrir eru rótgróin vörumerki úr mótorhjólaheiminum sem berjast um markað sem er fremur smár, þótt hann fari vaxandi.

En það gerðist í vetur þegar umboðið Rött kynnti til sögunnar ítalska merkið Fantic Motor, mótorhjól, krossara, skellinöðrur, rafmagnshjól og rafmagnsreiðhjól, en Fantic á nokkuð langa framleiðslusögu þar sem fyrirtækið byrjaði að framleiða krossara árið 1968 við góðan orðstír.

Það er reyndar góður byrjunarpunktur fyrir Fantic Caballero Deluxe 500 Scrambler þar sem leitað hefur verið til upprunans til að framleiða hjól sem byggist á arfleifð fyrirtækisins en höfðar til stækkandi hóps hjólafólks sem vill létt og meðfærilegt mótorhjól fyrir bæinn sem ræður líka við malarvegi og lengri ferðir, og það án þess að tæma budduna en er samt með útlitið með sér. Heitustu hjólin síðustu ár, fyrir utan ferðahjólin, hafa verið mótorhjól sem höfða til töffaranna. Leður og töff textílfatnaður er inni, nælonsýnileikagallar eru úti. Caballero hakar við flest vinsælustu boxin.

Mótorhjólið frá Fantic hefur útlitið svo sannarlega með sér.
Mótorhjólið frá Fantic hefur útlitið svo sannarlega með sér. Eggert Jóhannesson

Hægt að breyta og bæta

Útlitslega er Caballero-hjólið virkilega vel heppnað. Það vekur töluverða athygli hvert sem það fer og hafa hönnuðirnir gætt að því að strjúka fólki rétt þar. Áherslan er á uppbyggingu hjólsins sem samsvarar sér vel, retró litaval, teinafelgur og nokkra vel valda hluti sem lyfta gæðum hjólsins heilt yfir eins og gyllta rafhúðaða framdempara, CNC smáskorna álhluti, töff sætisáklæði, kubbadekk, Arrow-púst og útskiptanlegar bensíntankshlífar. Fantic sparar svo á öðrum stöðum sem skipta minna máli með ódýrum plasthlutum og einföldum stjórntækjum sem eru flutt yfir frá krossurunum. Til dæmis er tankurinn á hjólinu undir hlíf sem auðvelt er að skipta um til að fá annað útlit eða lit á hjólið. Sama má segja um sætið, vilji maður brúnt sæti í stað þess svarta til að rúnta á næsta sumar þá skiptir maður bara.

Þess er líka gætt að búnaðurinn sé nægjanlega nútímalegur til að fólk líti ekki annað eftir því sem telst nauðsynlegt í dag og hjólið er því útbúið ABS-hemlum sem auðvelt er að slökkva á og vönduðu hemlakerfi frá undirfyrirtæki Brembo sem heitir því skemmtilega nafni ByBre sem er stytting á orðasambandinu By Brembo. Það vantar því í rauninni ekkert nema hita í stýrið en því getur eigandinn að sjálfsögðu bætt við sjálfur. Þá er fáanlegt úrval af töskum og töskufestingum á hjólið í ýmsum litum og því þarf ekki að leita langt yfir skammt til að fá fullbúið hjól, tilbúið í langferð eða á Laugaveginn.

Fantic Caballero er því mótorhjól sem getur höfðað jafnt til þeirra sem vilja gott byrjendahjól, sem og til þeirra sem vilja færa sig á liprara hjól, t.d. til innanbæjarnotkunar með léttri malarnotkun á móti. Aflið er nægjanlegt, jafnvel með farþega, því þótt hjólið sé aðeins 40 hestöfl við 7.500 snúninga þá vegur það ekki nema 150 kíló sem þýðir að framúrakstur á þjóðvegum er ekkert mál. Það þarf bara aðeins að hræra í sex gíra gírkassanum.

Stjórntæki eru einföld og mjög auðveld í notkun. Hér eru engir ótæmandi valmöguleikar með valbilslám í fjöllita skjám heldur bara hraðamælir, mjög lítill en nægilega skýr snúningshraðamælir, kílómetramælir, mælir fyrir lengd ferðar, hefðbundin gaumljós og bensínljós – sem veitir reyndar ekkert af því bensíntankurinn er nokkuð lítill eða 12 lítrar.

Hraðamælar þurfa ekki að vera flóknir.
Hraðamælar þurfa ekki að vera flóknir. Eggert Jóhannesson

Sunnudagsleikfang, eða meira

Sú spurning sem brennur væntanlega á flestum er hvernig Fantic Caballero er í akstri. Stutta svarið er að hjólið er mjög auðvelt í akstri. Mjög! Og að auki kallar það á örlítinn fíflagang, svo lipurt er hjólið og stöðugt. Ásetan er þægileg en eilítið knöpp fyrir hjólara sem er 185 sentimetrar á hæð en á móti kemur að stýrið er breitt og sætið langt þannig að það er auðvelt að hagræða sér til að ná góðri stöðu. Ekkert er hægt að kvarta yfir sætinu, það fer vel með mann og sætishæðin ætti að henta flestum og er til að mynda ekkert vandamál fyrir fólk í kringum 160 sentimetra á hæð.

Vélarhljóðið er skemmtilegt, gróft eins og í flestum eins strokks hjólum og pústhljóðið alveg mátulegt og vel hljómandi með púströri framleiddu af Arrow – líkt og fyrr var getið – sem gefur frá sér nettar sprengingar þegar slegið er af gjöfinni á ferð. Hjólið lætur einnig mjög vel að stjórn, fellur náttúrulega í beygjur með góðu jafnvægi en er vel kvikt enda fremur nett. Þó virkar Caballero mun stærra þegar maður gengur í kringum hjólið en það virðist vera um það bil á pari við Triumph Bonneville í lengd, raunar munar aðeins níu sentimetrum. Það er hins vegar eins og hjólið skreppi saman þegar maður sest á það og byrjar að aka því.

Gírskipting er snurðulaus og viss í sínum skiptingum þótt það geti verið erfitt að finna hlutlausan á stundum sem mögulega má skrifa á nýtt hjól sem hefur ekki enn verið tilkeyrt. Bremsur eru mjög traustvekjandi, sterkar og taka vel með stigvaxandi afli þannig að auðvelt er að beita þeim nákvæmlega. Kúplingin er sömuleiðis auðveld en maður finnur vel fyrir kúplingsbarkanum þegar kúplingunni er sleppt hægt. Eldsneytisgjöfin er helst til snörp en sömuleiðis gæti verið að það megi skrifa það á ótilkeyrt og glænýtt mótorhjólið. Ekkert af þessu er þó þannig að maður hafi áhyggjur af því að það mýkist ekki né venjist. Óvant mótorhjólafólk er í öllu falli ekkert að kvarta yfir þessu.

Fjöðrunin er stífari en mann grunar í fyrstu. Hjólið lítur út fyrir að hafa nokkuð slaglanga fjöðrun en virkar þó fremur stíft á möl og á hraðahindrunum. Hún virðist allavega nægilega stíf og slaglöng til að slá ekki saman þegar ekið er í djúpar holur á möl, ítrekað, en það verður sennilega seint sagt að fjöðrunin sé þægileg á grófum malarvegi.

Standandi á hjólinu og á malarvegi er akstursstaðan sennilega fullknöpp fyrir fólk sem er 185 sentimetrar á hæð eða hærra. Fótstaða og stýri eru ekki með nægjanlegu bili og því þörf á að beygja sig mikið, beygja hendur hressilega og setja þyngdina á afturdekkið bara til að komast vel fyrir. Það léttir hins vegar aðeins á framdekkinu sem sinnir þá sínu hlutverki betur á grófum slóða. Ef hugmyndin er sú að eyða meiri tíma á möl en á malbiki ætti ef til vill að skoða Fantic Caballero Explorer 500-hjólið en það er með töluvert slaglengri og hærri fjöðrun sem hentar betur fyrir lengri túra, til dæmis á hálendið.

Stjórntækin á hjólinu eru auðveld í notkun.
Stjórntækin á hjólinu eru auðveld í notkun. Eggert Jóhannesson

Snjöll blanda sem skilar góðri samvirkni

Vélin í Caballero er frá kínverska fyrirtækinu Zongshen en fyrirtækið leiðir á mótorhjólamarkaðinum í Kína. Zongshen framleiðir einnig fyrir fyrirtæki eins og Aprilia, Piaggio, BMW og Harley Davidson og gæðin eru því fín. Vatnskæld, fjögurra ventla, eins strokks vélin er merkilega spræk og hefur karakter sem er nokkuð hrár en hæfir hjólinu ljómandi vel. Hér er aflið komið sem hefur vantað í Royal Enfield Himalayan-mótorhjólið, sem dæmi, en það hjól hefur allt sem þarf til að vera frábært hjól fyrir íslenskar aðstæður, nema hugsanlega aflið. Í hörðum mótvindi á íslenskum þjóðvegi veitir ekkert af þessum 40 hestöflum sem Caballero ræður yfir, þau duga og rúmlega það. Þetta er því hjól sem hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum í mótorhjólamennskunni.

Caballero hittir á markaðinn í autt pláss. Hjólið er eins konar bræðingur af miklu dýrari og stærri evrópskum Scrambler-hjólum hvað útlitið varðar en hefur léttleikann sem yfirleitt finnst bara í 250 rúmsentimetra hjólum. Fantic Motor nær svo að splæsa þessu öllu saman með gæðum og sparnaði á réttum stöðum þannig að viðskiptavinurinn fær helling fyrir peninginn. Það er vel gert.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 20. júní

Hugað hefur verið að mikilvægustu smáatriðunum.
Hugað hefur verið að mikilvægustu smáatriðunum. Eggert Jóhannesson

 

Fantic Caballero
Deluxe 500 Scrambler

40 hestöfl við 7.500 snúninga

43 Nm tog við 6.000
snúninga

6 gíra gírkassi

Frambremsur: Fljótandi stakur diskur 320 mm

Afturbremsur: Stakur 230 mm diskur

12 lítra eldsneytistankur

Sætishæð: 820 mm, hægt að hækka í 840 mm

Þurr vigt: 150 kg

Eyðsla: 4,2/100 km

CO2: 97 g CO2/km

Grunnverð: 1.794.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: