Lexus hnyklar rafvöðvana

Þegar nánar er að gáð sést að höfuðljósið myndar L …
Þegar nánar er að gáð sést að höfuðljósið myndar L og undir því eru þrír stigvaxandi punktar. Eins má líkja ljósinu við skutlu sem gerir bílinn mjög sportlegan og „hvassan“ ef svo má að orði komast.

Árið er 1778 og það er liðið nærri jólum. Bræðurnir Nabullione og Giuseppe de Buonaparte stíga á land í Frakklandi í fyrsta sinn. Hafnarborgin Marseille er hinn augljósi lendingarstaður þeirra sem koma frá eyjunni Korsíku. Fáir veita drengjunum eftirtekt á bryggjunni og engum dettur í hug að saga Frakklands verði aldrei söm eftir þessa heimsókn. Aldarfjórðungi síðar krýnir sá eldri sig keisara Frakklands í hinni mikilfenglegu Notre Dame í París.

Frá þessum atburðum eru liðnar meira en tvær aldir. Enn er þó sagan skrifuð í Marseille með ýmsum hætti og fer vel á því. Borgin er sú elsta í gjörvöllu Frakklandi. Er talin stofnuð af Grikkjum sem þangað hröktust í kringum árið 600, kannski um svipað leyti og írskir papar hreiðruðu um sig hér uppi á fróni.

Sagan skrifuð áfram

Sagan sem hér er skrásett tengist hvorki Grikkjum, Napóleon eða pöpum heldur japönskum hugvitsmönnum sem komnir eru til Marseille til þess að kynna fyrir evrópskum bílablaðamönnum nýjasta undrið úr smiðju Lexus. Enn eina staðfestingu þess að úrtölumenn (eins og ég sjálfur) höfðu á röngu að standa þegar þeir töldu sig sjá teikn um að bílaframleiðandinn, sem einnig státar af hinum geysivinsælum Toyota-bifreiðum, væri að heltast úr lestinni í kapphlaupinu um rafvæðinguna miklu sem nú stendur sem hæst.

Af áralangri reynslu, þar sem ég hef fylgst með þessum japanska risa, hefur mér lærst að hann fer sér hægt, í anda hinnar japönsku kurteisi sem er Íslendingum nokkuð framandi. En þegar hann vill koma sínu á framfæri er það gert svo að eftir er tekið. Og feilsporin eru fátíð

Marseille er því rétta sviðið. Sagan kennir að þar koma menn að landi sem breyta gangi sögunnar.

Nýja smíðin, sem er farteskið austan úr löndum er hinn svokallaði RZ 450e. Það er fyrsti Lexusinn sem smíðaður er frá grunni sem rafbíll og ekkert annað. Áður hefur fyrirtækið kynnt á markaðinn UX 300e en sá á sér bróður í tengiltvinn- og tvinnbíl (250h og 200).

RZ byggir á sömu grunngrind og Subaru Solterra og Toyota BZ4X. Þá er RZ búinn nýjustu tegund Lithium-Ion rafhlöðu frá fyrirtækinu Preim Planet Energy & Solutions sem er sameiginlegt fyrirtæki í eigu Toyota og Panasonic. Um er að ræða 96 sellu rafhlöðu, 355 volt og er hún skráð með 71,4 kWh afkastagetu. Skilar það bílnum 313 hestöflum.

Grillið og framendinn sver sig mjög í Lexus-ættina og hönnuðir …
Grillið og framendinn sver sig mjög í Lexus-ættina og hönnuðir fyrirtækisins hafa því ekki fallið á rafbílaprófinu sem gjarnan gerðist, þó oftar áður, þegar slíkir voru hannaðir í formi geimskips fremur en bíls.

 

Listaverk og annar unaður

En nóg af tæknilýsingum í bili. Rétt utan Marseille er að finna stað sem nefnist Château Lacoste en erfitt gæti reynst að skilgreina hvað þar er að finna. Þar er jú víngerð (þetta er í Provance þar sem menn eru sólgnari en allt í rósavín) og þar er líka að finna hótel og bráðum tvö. En þar tvinnast saman heilsulindir, vínekrur, veitingahús og sum þeirra með stjörnur kenndar við besta dekkjaframleiðanda í heimi. Og þarna tvinnast þetta allt saman í mögnuðum og ósamstæðum arkitektúr og listaverkum sem sum rúmast innan veggja glæsibygginganna en önnur alls ekki. Í þessu öllu bregður svo fyrir nöfnum á borð við Damian Hirst, Renzo Piano og Frank Gehry.

En hver hrærði þessu öllu saman á þessum veðursæla stað? Það er maður að nafni Paddy McKillen, Norður-Íri sem á síðustu áratugum hefur byggt upp mikið hótel- og fasteignaveldi sem teygir sig víða um Bretlandseyjar. Hann hefur byggt upp Château Lacoste með ærnum tilkostnaði en að sögn kunnugra af einskærri gleði og margir gleðjast sannarlega með. Newsweek hefur t.a.m. fullyrt að staðurinn sé einn af 100 áhugaverðustu stöðum veraldar til að sækja heim.

Og einmitt þarna. Biðu þeir RZ-bílarnir sem okkur íslensku sendinefndinni var ætlað að reynsluaka um sveitir Frakklands. Undir þeim öllum sumardekk, en grófari búnaður sennilega ekki langt undan, enda veturinn verið harður, jafnvel syðst í Frakklandi og aðeins 48 klukkustundum áður en við lentum í Marseille var snjóföl yfir öllu. Ekki kom þó til dekkjaskipta og hitinn hélt sig í námunda við 10° eins og rósavíni sæmir, allan tímann sem prófanir stóðu yfir.

Í fyrstu fannst mér skotthlerinn nokkuð þunglamalegur en þegar hann …
Í fyrstu fannst mér skotthlerinn nokkuð þunglamalegur en þegar hann er skoðaður nánar gefur hann bílnum nokkuð stærra yfirbragð.

 

Fallegar úthafsöldur

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður nálgast RZ í fyrsta sinn er hversu straumlínulagaður hann er og hversu mjög lágmörkun loftmóstöðu kemur við sögu við hönnun hans. Hliðar bílsins eru þannig sem óbrotin alda sem leiðir aftur að skotti og gæti hreinilega reynst freistandi augum brimbrettakappa. Hið sama á við um grillið á bílnum sem sannarlega sver sig í ætt við RX og UX en er þó á einhvern hátt nýtískulegra. Það er helst að afturendinn, skotthlerinn einkum sem skeri sig úr. Virkar í fyrstu nokkuð klunnalegur og „útstæður“ en venst vel og stækkar hann jafnvel í augum þeirra sem aka eða standa aftan við hann.

Segja má, til að setja stærð RZ í samhengi við aðra bíla frá Lexus að hann komi mitt á milli NX og RX en þó verð ég að segja að þegar inn í bílinn er komið er han þó nær RX. Á það bæði við um rými bílstjóra og farþega frammí en ekki síst fyrir aftursætin þar sem plássið er gott og ræður vel við háfætta og tignarlega farþega (eins og þá sem við ferðuðumst með að þessu sinni).

Það skemmdi ekki fyrir fyrstu kynnum að við höfðum daginn áður ekið nokkuð um á UX sem er mun minni bíll. Afar snotur en helst hugsaður sem borgarbíll fyrir tvo, fremur en ferðabíll fyrir fjóra eða jafnvel fimm. RZ ræður hins vegar vel við slíkar hópamyndanir og fer vel með alla, jafnvel miðjusætisfarþegann aftur í.

Og hófst þá aksturinn fyrir alvöru. Eknir voru fyrirfram skipulagðir spottar, í kringum 80 km hver og þrætt á milli hraðbrauta og sveitavega þar sem frönsku þorpin fengu að njóta sín með sínum ógurlegu hraðahindrunum. Þar var ekki gott að spretta úr spori (þær eru gerðar til þess að koma í veg fyrir slík). En úti á hraðbrautunum var allgaman að láta RZ taka á því sem hann býr yfir, ekki síst þegar búið var að stilla bílinn í sport-stillingu. Verð ég í því sambandi að segja að ég saknaði þess að geta ekki með ofureinföldum hætti, með gamaldags takka eða sveif, skipt milli akstursstillinga, en það er kannski tímanna tákn að það er gert í gegnum app á kvikumöflugum og stórum skjánum í mælaborði bílsins.

Jú það var meðvindur

En þarna kom það. Firnakraftur sem skilaði bílnum á 100 km hraða án nokkurra átaka á réttum 5 sekúndum. Það var ekki síst ánægjulegt vegna þess að stundum hefur Lexus verið legið á hálsi fyrir að framleiða ótrúlega virðulega og þægilega bíla, en ekki nægilega kraftmikla til að keppa við suma samanburðarbíla á markaðnum. Rafmagnið fletur þann samjöfnuð út og ég leyfi mér að segja að enginn venjulegur bílstjóri, við íslenskar aðstæður, hefur nokkuð við meiri kraft en þann sem býr í mótorunum tveimur í RZ að gera.

Og henn lék í höndum bílstjóranna. Hæst sló hann í 168 km á klst (er það ekki hámarkshraðinn í Suður-Frakklandi?). Kunni RZ vel við sig á þeim hraða, jafnvel þótt verkfræðingarnir hafi stillt hámarkshraða bílsins á 160.... Sennilega hefur sunnanvindurinn feykt okkur aðeins yfir hin opinberu mörk framleiðandans.

Það sem einkennir RZ eins og flesta aðra velsmíðaða rafbíla er hversu lágur þyngdarpunkturinn er og því liggur bíllinn einkar vel í flestum aðstæðum, ekki síst á talsverðri ferð í aflíðandi beygjum. Fjöðrunin er einnig stimamjúk eins og Lexus er einum lagið og það magnar upp lúxusupplifunina. Þá er hljóðvistin í bílnum með því besta sem ég hef upplifað í rafbíl. Þegar lætin í sprengihreyflinum yfirgnæfa ekki umhverfis- og veghljóð geta þau orðið þreytandi og víða hefur maður tekið eftir þessum vanda, ekki síst í aftursætum bifreiða. Verkfræðingar Lexus hafa hins vegar tryggt mikinn þéttleika bílsins og notast við búnað sem tregur úr titringi, ekki síst í þaki bílsins, en ólíkt því sem margir halda berst talsvert veghljóð úr þeirri áttinni inn í bíla. Það leiðir í raun frá dekkjum og undirvagni og upp í yfirbygginguna sem er viðkvæmari og oft og tíðum ekki sérútbúin til að takast á við hljóðdempun.

Hér má sjá stýrið sem vakið hefur hrifningu bílablaðamanna og …
Hér má sjá stýrið sem vakið hefur hrifningu bílablaðamanna og ku venjast fljótt.

 

Rafstýri og þotuflug

Það teldust næg tíðindi ein og sér að Lexus kynni nú til sögunnar nýjan rafbíl, hugsaðan sem slíkan frá grunni. En fyrirtækið lætur ekki þar við sitja. Þannig gafst blaðamönnum tækifæri á að prófa bíllinn með hefðbundnu rafstýrðu stýrishjóli en einnig svokölluðu One Motion Grip sem er raftengt og minnir frekar á búnað í fullburða farþegaþotu en hefðbundinn fjölskyldujeppa. Segir Lexus að stýrið taki mót sitt af fiðrildi – og er það viðeigandi enda fjaðurkennt og mjúkt og fást við það á akstrinum. Ólíkt því sem lýsingin gefur til kynna tryggir rafstýrið beinni svörun milli þess og dekkjanna þannig að viðbragðið er snarpt. Þar að auki þarf afar lítið að leggja á stýrið til þess að bíllinn beygi af fullum þunga. Tekur það nokkrar mínútur og þrjár til fjórar beygjur að komast upp á lagið með að notast við búnaðinn.

Þegar farið er yfir ójöfnur, eða ekið á möl, leiðir það litið sem ekkert upp í stýrið sem slíkt sem gerir upplifunina enn mýkri, þótt íslenskir ökuþórar muni í einhverjum tilvikum telja sig svikna af hinni „einu sönnu“ akstursupplifun.

Lögun stýrisins og tilfinningin sem því fylgir veldur því að maður telur sig jafnvel geta tekið á loft þegar bíllinn er stiginn af fullu afli. Þá er ekki laust við að maður telji sig geta tosað stýrið að sér og sagt í hálfum hljóðum „air borne“.

Þessi tækni á eftir að taka breytingum á komandi árum og ekki ósennilegt að þetta stýri verði vinsælt meðal þeirra sem kalla eftir lúxus í bland við nýöld. Vondu fréttirnar eru þær að Lexus gerir ekki ráð fyrir því að þetta stýri verði í boði á almennum markaði fyrr en árið 2025.֧

Allt að einu

Lexus RZ er afar vel heppnaður lúxusborgarjeppi og japanska bílasmiðnum hefur enn einu sinni tekist að koma mér á óvart. Gagnrýnin um helst til of fá hestöfl hefur auðvitað verið kveðinn í kútinn og þá stendur fyrirtækið með pálmann í höndunum enda orðlagt fyrir frábæra hönnun, ekki síst innanstokks.

Athyglisvert er að skoða verðmiðann á bílnum. Það setur þennan bíl í flokk með iX3 og EQE SUV. Aðeins ofan við þann fyrrnefnda og nokkuð vel undir þeim síðarnefnda.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 21. mars 2023.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: