Skorar hátt á krúttskalanum

ORA 300 PRO er sprækur í akstri og tilvalinn fyrir …
ORA 300 PRO er sprækur í akstri og tilvalinn fyrir borgar búa sem leggja áherslu á útlitið. Eyþór Árnason

Leiðrétt: Í þessari umsögn sem upphaflega birtist í Bílablaði Morgunblaðsins 16. janúar var ritað að AC-hleðslugeta bílsins væri hraðari en DC-hleðslugeta. Rétt er að DC-hleðslugeta er hraðari og er velvirðingar beðist á þessu ranghermi. Hér að neðan hefur umræddur hluti greinarinnar verið felldur út.

Skvísubílar hafa ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá mér; litlir, nettir og sætir bílar með stílhreinni og gjarnan litasamræmdri innréttingu og hljóðkerfi sem hægt er að blasta háværri popptónlist í.

Skvísubíll er fyrsta orðið sem kom upp í huga mér þegar ég barði ORA 300 PRO-bílinn fyrst augum fyrir framan bílaumboðið Heklu.

Bíllinn sem mér áskotnaðist var hvítur með svörtu þaki og var útbúinn stórum og glæsilegum skjá sem teygir sig yfir mælaborðið bílstjóramegin. Þegar sest er inn í farþegarýmið synda fagrir Koi-vatnakarpar yfir mælaborðið við stutta laglínu sem líkist einna helst lagi úr spiladós. Byrjunin lofaði því góðu.

Bílnum svipar einna helst til Citroën-bjöllu, Mini Coopers eða Fiat 500, sem allir eru skvísubílar að mínu skapi. Allt frá því að systir mín klessti Fiat 500-bíl foreldra okkar hef ég lifað við sárar minningar þess er fest voru kaup á notaðri Nissan Micru, sem lyktaði af hundahárum og draugum fyrri eigenda, í stað Fiatsins. Var ég því yfir mig ánægð að fá tækifæri til að bruna um á fyrsta flokks skvísubíl að nýju, rafvæddum í þokkabót.

Eitt stakk þó í augun er ég settist inn í bíllinn. Lítill skynjari með myndavél andspænis bílstjórasætinu. Bílasalan hafði gert mér viðvart um tilvist skynjarans og höfðu gantast með að ég skyldi ekki einu sinni reyna að taka upp símann eða reyna að varalita mig á ferð. Skynjarinn fór strax í taugarnar á undirritaðri sem hefur aldrei verið mikið fyrir að láta skipa sér fyrir, hvorki af foreldrum né kennurum og hvað þá tölvum. Ég hét því þó að leggja alla fordóma til hliðar og ganga að bílnum og skynjaranum með opnum hug.

Bílinn er snotur og skartar hönnun, bæði að innan sem …
Bílinn er snotur og skartar hönnun, bæði að innan sem að utan, sem mun án efa standast tímans tönn. Eyþór Árnason

Kínverskir bílar smeygja sér inn á evrópskan markað

ORA 300 PRO-bíllinn er nýjasta afurð bílaframleiðandans GWM eða Great Wall Motor. Nafnið vísar að sjálfsögðu til eins þekktasta mannvirkis heims, Kínamúrsins, en GWM er einn stærsti og elsti bílaframleiðandi landsins. Merkið hefur um langt skeið verið leiðandi í sölu á jeppum, jepplingum og pallbílum í Kína, en hefur nú fært sig yfir í borgarbílana.

Bíllinn heitir réttu nafni Funky Cat, þar sem evrópska skrifstofa merkisins taldi upprunalegt nafn bílsins Good Cat ekki duga á evrópskum markaði. Rök þessa eru undirritaðri ókunnug, en svo virðist sem Funky Cat-nafnið sé einnig lítt notað í mörgum löndum, þar á meðal hérlendis og er bifreiðin einungis auglýst sem ORA 300 PRO. Persónulega þykir mér hún missa krúttstig með nýju nafngiftinni.

Bílaframleiðendur í Kína hafa vissulega gerst framsæknari á alþjóðamarkaðnum á síðustu árum í kjölfar rafbílavæðingarinnar og hafa hægt og rólega látið meira á sér bera á evrópskum markaði. Margir hverjir geta boðið upp á betri verðmiða en evrópskir og bandarískir framleiðendur og hafa einnig sérhæft sig í rafhlöðum sem þola hita- og kuldabreytingar betur en aðrar.

Áhyggjur hafa verið uppi um að verðmuninum fylgi skerðing á gæðum og að stöðlum framleiðslu og hönnunar á bílum í Kína sé háttað öðruvísi. Það á þó svo sannarlega ekki við í tilfelli ORA 300 PRO sem er, að mati öryggisráðs, ívið öruggari en margir bílar á vestrænum markaði.

Eru ekki allir spenntir?

Bíllinn er metinn öruggastur í flokki lítilla fjölskyldubíla að mati Evrópska bílaöryggisráðsins (EURO NCAP) sem gefur honum fimm öryggisstjörnur. Er hann því eflaust tilvalinn fyrir glannalega unglinginn til að róa taugar áhyggjufullra foreldra; eldri borgara sem eru orðnir óöruggari á vegi eða Elvanse-svelta athyglisbrestspésa.

Skynjarinn fylgist vissulega vel með athyglisgetu bílstjórans og gerir honum viðvart ef hann telur augu ökumannsins leita of lengi af umferðinni eða ef hann virðist vera farinn að þreytast. Bíllinn gefur þá fyrirskipanir um að hafa augun á veginum og minnir ökumann einnig á að bremsa ef bíll er fyrir framan hann. Tók ég sérstaklega eftir því að fyrirmæli bílsins urðu tíðari eftir því sem ég blaðraði meira við farþega mér við hlið.

Það er eflaust ekki fyrir alla að láta skipa sér fyrir í akstri en þrátt fyrir eigin þrjósku tók það mig styttri tíma að venjast afskiptum skynjarans af akstrinum en ég hafði búist við. Mætti jafnvel segja að ég hafi tamið mér betri akstursvenjur fyrir vikið af hreinni og beinni samviskusemi og regluþrælslund.

Bifreiðin leyfir ökumanni ekki að keyra af stað beltislausum sem kann einnig að ergja marga og þykja stjórnsamt. Þó má segja að það sama hafi átt við þegar margir bílaframleiðendur bættu við virkni sem spilar taugatrekkjandi hljóð þegar keyrt er af stað án bílbeltis, sem nú er í öllum nýjum bílum. Má jafnvel minnast þess er reglur voru settar um að bílbelti skyldu vera í öllum bifreiðum, sem margir áttu erfitt með að fella sig við í upphafi. Er því einnig hægt að álykta sem svo að um sé að ræða nýjan lið í þróun bílbelta og að innan skamms muni engir bílar halda af stað fyrr en allir farþegar séu spenntir í beltin.

Augljóst er að nostrað hefur verið við smáatriði innréttingarinnar.
Augljóst er að nostrað hefur verið við smáatriði innréttingarinnar. Eyþór Árnason

Kemur skemmtilega á óvart í akstri

Bíllinn er afar nettur og er því einstaklega hraður og lipur á vegi. Býr hann einnig yfir skynvæddum hraðastilli sem er hugsaður til að halda öruggri fjarlægð frá ökutækinu fyrir framan og lyfti ökumaður fæti af bremsunni dregur bíllinn afar skjótt úr hraðanum. Hröð hemlunin er þó ekki alltaf sniðug, þá sérstaklega ef annar bíll fylgir fast á hæla manns. Í öllu falli verður aksturinn eilítið kippkenndur og þreytandi þegar stanslaust er gefið í og dregið úr. Ýmsar aðrar öryggis- og þægindastillingar fylgja bílnum, þar á meðal árekstrarvöktun að framan og aftan með neyðarhemlun, en sem betur fer kom ekki til þess að blaðamaður þyrfti að reyna á hana. Þess skal þó geta að hægt er að slökkva á flestum stillingunum höfði þær ekki til bílstjóra.

ORA 300 PRO kemur aftur á móti skemmtilega á óvart í bæði hraðakstri og á erfiðari vegum. Þrátt fyrir að vera eflaust hugsaður meira fyrir borgarlífsstíl er hann afar góður og stöðugur á grófari vegum, sem hefur ekki alltaf verið raunin þegar kemur að kínversku bílunum. Hægt er að skipta á milli fjögurra akstursstillinga: Auto, Normal, Sport og Eco, en bíllinn tekur afar vel við sér í beygjum af framhjólabíl að vera.

Hvað varðar stefnuljós bílsins er hönnun þeirra afar skemmtileg, þar sem þau eru hringlaga og innbyggð í framljósin, sem minna einna helst á stór augu. Hönnun afturljósanna er ekki síður einstök en auk tveggja minni ljósa neðst á bílnum er innbyggð ljósrönd í afturrúðuna.

Sjálf stefnuljósastillingin er aftur á móti mjög viðkvæm og þarf sérstaklega fíngerðar og nákvæmar hreyfingar til að slökkva á stefnuljósunum, en einnig eru þau lengi að slökkva á sér sjálfkrafa. Eins og gefur að skilja getur það leitt til vandræða og ruglings á vegi þegar stefnuljósin slökkva ekki á sér heldur breyta um stefnu og biður undirrituð því ökumenn á Arnarnesveginum síðla dags 16. desember forláts á ruglingslegri stefnuljósagjöf.

Þess má einnig geta að ekki er rúðuþurrka á afturrúðu bílsins, sem kann eflaust að eiga sér skýringu í ólíku veðurfari í upprunalandi ökutækisins. Hvað sem því líður reyndist það þó síður hentugt í desemberslabbinu hér á landi að sjá ekki almennilega út um afturrúðuna. Framrúða bílsins er aftur á móti búin verulega góðri rúðuþurrku og rigningarskynjara, sem setur þurrkurnar sjálfkrafa af stað þegar vart verður við regndropa.

Hönnun sem stenst tímans tönn

Innrétting bílsins er einstaklega falleg og skemmtileg bólstrun er ráðandi fyrir útlit hennar. Í tilfelli lánsbílsins var innréttingin ásamt bólstruninni grá/svört með bláum saumi en hægt er að velja aðrar litasamsetningar. Blái saumurinn poppar upp útlit innréttingarinnar á fágaðan hátt sem mun að öllum líkindum standast tímans tönn.

Sæti bílsins eru ekki eingöngu mjúk heldur einnig auðveldlega stillanleg og er afar þægilegt að sitja við stýri í bílnum. Kom það einnig sérstaklega á óvart hve rúmgóður ORA 300 Pro er með tilliti til þess hve lítill og nettur hann er. Fótarými er afar gott bæði í aftursætum og framsætum og skottið ágætt miðað við stærð bílsins. Hljóðkerfi var einnig afbragðsgott og góður ómur í bílnum. Stóðst hann einnig símtalspróf leyfi ég mér að fullyrða eftir að hafa prufukeyrt símakerfið vel og mikið til að stytta mér stundir í akstrinum.

ORA-lánsbíllinn var tvílitur, hvítur og svartur, en hann er einnig fáanlegur í tvílitu rauðu og svörtu ásamt einlitu svörtu, hvítu og rauðu og grænu, en undirritaðri þykir bíllinn í litnum Starry Green sérstaklega eigulegur. Mælaborðið er einstaklega fallegt og slétt og er frágangur á útliti bílsins til mikils sóma og augljóst að nostrað hefur verið við smáatriðin.

Langur skjár mælaborðsins fellur vel að bílnum og er ekki stór og klunnalegur þrátt fyrir að taka mikið pláss. Skjárinn skiptist í raun í tvo 10,25" snertiskjái sem sækja sjálfkrafa uppfærslur. Eru báðir skjáir afar snöggir að bregðast við skipunum og auðvelt að tengja við Apple Car Play og Android Auto.

Blaðamanni þótti vanta fleiri flýtileiðir í mælaborð bílsins.
Blaðamanni þótti vanta fleiri flýtileiðir í mælaborð bílsins. Eyþór Árnason

Möguleikar á stillingum ORA 300 PRO eru óteljandi og er bíllinn afskaplega vel búinn nýjasta hugbúnaði sem nútímabílstjórar kunna að vilja notast við. Þar á meðal má nefna raddstýringu sem er æði þjál, en bæði er hægt að velja rödd hennar og helstu tungumál veraldar. Er hún ansi ræðin og er fjöldi fyrirskipana og spurninga sem hún skilur og svarar. Þar á meðal er hægt að vekja bílinn með setningunni „Hello Ora“ eða setningu að eigin vali.

Einnig voru skemmtileg hljóð, sem minna helst á tölvuleiki á borð við Wii Sport, einkennandi fyrir tölvukerfi bílsins og setja bílinn enn hærra á krúttskalanum. Myndavélarkerfi kemur einnig skemmtilega á óvart og veitir 360° útsýni umhverfis hann, en hægt er að nota snertiskjáinn til að snúa myndinni og skoða umhverfi bílsins frá fleiri hliðum áður en haldið er af stað.

Miðstöðvarkerfi bílsins fellur þó ekki endilega að gamaldags smekk blaðamanns á hitastillingum utan tveggja takka sem kveikja og slökkva á rúðublástri, og á ferðinni er það töluvert bjástur að stilla hitann á snertiskjánum. Á það sérstaklega við þegar kveikt er á Apple Car Play, þar sem ekki er ein einföld leið til að fara aftur í hitastillingarnar í almenna kerfi bílsins.

Ekki er hægt að líta fram hjá verðmiðanum í mati bílsins, tæpar 5,9 milljónir, sem telst afar gott í samanburði við sambærilega bíla. Ef til þess er litið að ORA 300 PRO er sprækur í akstri, lítill og snotur má segja að hann sé tilvalinn fyrir borgarbúa, eða jafnvel skvísur sem leggja áherslu á útlit við bílavalið. Bifreiðin myndi án efa einnig duga vel á vegi í utanbæjarferðum, ef farangurinn er léttur og þolinmæði á hleðslustöðvum er höfð með í för.

GWM ORA 300 PRO

  • Afl mótors: 126 kW /171 hö.
  • Tog: 250 Nm.
  • Hröðun (0-100km): 8,3 sek.
  • Drægni: 310 km (WLTP)
  • Framhjóladrifinn
  • Stærð rafhlöðu: 48 kWst
  • DC Hleðslugeta: 64 kW á klst.
  • Hleðslugeta með heimastöð: Allt að 11 kW á klst.
  • Umboð: Hekla
  • Verð: 5.890.000 kr

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. janúar 2024.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: