Sameinar sportbílinn við skyldur fjölskyldufólks

MG4 XPower er meðal öflugustu rafbíla á markaðinum og getur …
MG4 XPower er meðal öflugustu rafbíla á markaðinum og getur náð 100 km hraða á 3,8 sekúndum. Arnþór Birkisson

22 ára Ford Focusinn minn lötrar upp Ártúnsbrekkuna í átt að BL umboðinu síðla dags í nóvembermánuði. Bíllinn, sem eitt sinn tilheyrði ömmu minni, hefur mikið tilfinningalegt gildi og kemur mér frá A til B með tilheyrandi árlegum viðgerðarkostnaði og áhættuakstri á veturna.

Stýrið er kalt og ökutækið nötrar af áreynslu upp brekkuna í rökkrinu. Það er á dögum sem þessum sem þolinmæði mín er á þrotum og mér er skapi næst að demba mér í skuldir til að festa kaup á bíl með stýris- og sætishita.

Ég sé því síður en svo eftir gamla bílnum þegar fulltrúar umboðsins afhenda mér lyklana að glænýrri og vígalegri MG4 XPower-bifreið til reynsluaksturs. Mér til mikillar gleði býr bíllinn að kröftugum stýris- og sætishita sem ég set strax í botn.

Fagurgrænn og tímalaus

MG-merkið er aldargamalt í ár og á rætur að rekja til sportbíladeildar breska bílaframleiðandans Morris Cars, og vísar hönnun flestra bíla merkisins til sportbílaróta þess og upprunalandsins, en til að mynda sækja framljós bílanna innblástur í breska parísarhjólið London Eye.

Við fyrstu sýn verður ekki hjá því komist að taka eftir fegurð MG4 XPower-bílsins, en sá sem undirrituð fékk til reynsluaksturs skartar fagurgrænum og tímalausum lit. Liturinn er nýjung í litapallettu MG og er 4 XPower sá fyrsti og eini sem fæst í litnum „Hunter Green“. Hann fæst þó í tíu öðrum fjölbreyttum litum sem kaupendur geta valið út frá smekk og hjartans þrá.

Útlínur bílsins eru fágaðar og sléttar og ljós hans skemmtileg í laginu. Til að mynda prýða skrautljós skottið og mynda það sem líkist einna helst tveimur X-um sínu hvorum megin á bílnum, ef til vill tilvísun til nafnsins.

Ekkert er sparað til í smátatriðunum og má best lýsa útliti bílsins sem nútímalegu með sígildu ívafi og er því ekki ólíklegt að útlit hans muni eldast vel. MG á sér ríka sportbílasögu sem fer ekki á milli mála í útliti MG4-bílsins með tveimur vindskeiðum að aftan, 18” álfelgum og sportlegum bremsudælum. XPower vísar þó ekki einungis til sögunnar í útliti heldur einnig í hraða og virkni.

Viðmótið í bílnum er afbragðsgott með tveimur skjám sem eru …
Viðmótið í bílnum er afbragðsgott með tveimur skjám sem eru einfaldir, smekklegir og næmir á snertingu. Hljóðkerfið er þó ekkert til að hrópa húrra fyrir. Arnþór Birkisson

Sportbíll sem rýkur hratt af stað

Ekki þarf ekki að stinga lykli í skrá til að ræsa bílinn, sem er jú orðin reglan frekar en undantekningin í nýlegri bifreiðum. MG4 tekur þetta aftur á móti skrefinu lengra en ekki þarf að ýta á starttakka heldur einungis að stíga á bremsuna og svo bensíngjöfina. Bíllinn slekkur svo á sér þegar ýtt er á læsinguna á bíllyklinum.

Stýrikerfið er einfalt og lipurt í notkun en hringlaga gírstangir munu sennilegast seint vera í uppáhaldi hjá mér enda minna þær einna helst á hljóðtakka á útvarpi. Er það engu að síður smekksatriði og er ekkert út á virkni gírskiptingarinnar að setja. Bíllinn er gífurlega þægilegur í keyrslu og drífur mjúklega og hnökralaust af stað þegar bremsunni er sleppt og þrýst er á bensíngjöfina.

Ökumaður skal þó ekki látast blekkjast en bíllinn getur rokið hratt af stað. Með sportakstursstillingu bílsins er hægt að virkja svokallaða „Launch Control“-virkni sem gerir ökutækinu kleift að þeytast af stað og ná allt að 100 km hraða á aðeins 3,8 sekúndum, en bíllinn afkastar allt að 320 kW og er með 600 Nm í tog. Í honum eru tveir rafmótorar, einn á hvorum öxli, þannig að bíllinn er með drifi á öllum hjólum. MG4 XPower er því meðal öflugustu rafbíla á markaðinum og það sýndi kagginn svo sannarlega í verki enda var undirrituð mætt tíu mínútum of snemma í vinnuna, sennilegast í fyrsta og hinsta sinn.

MG4 XPower gefur því ökumanni kost á að velja hvernig bíl hann kýs að keyra frá degi til dags, þar sem hann hefur til að bera eiginleika sem henta bæði til aksturs dagsdaglega og til kappaksturs, en auk „Launch Control“ er einnig hægt að nota „Track Mode“-virkni bílsins. Er þar boðið upp á tvo valkosti: „Stage Mode“ og „Lap Mode“ til að taka tíma og hraða á tiltekinni leið eða á hringjum á kappakstursbraut.

Auk þessa býr bíllinn yfir akreinastýringu sem togar í stýrið til að rétta bifreiðina af, sé maður kominn of langt yfir strikið. Sem kona sem vill hafa tögl og hagldir á hlutunum verð ég að viðurkenna að mér þótti örlítið erfitt að sleppa tökunum í fyrstu og leyfa akreinastýringunni að vera baksætisbílstjóri. En hvað sem minni stjórnunaráráttu líður er virknin ekki amaleg viðbót upp á akstursöryggi að gera, og ekki flókið fyrir þá sem hafa óbilandi trú á eigin akstursfærni að slökkva á aðstoðarbílstjóranum.

Innbyggt leiðsögukerfi kemur skemmtilega á óvart

Rúður bílsins eru skyggðar að aftan sem bætir við „sportbílalúkkið“. Bakrúðan, sem er einnig skyggð, er aftur á móti í minna lagi og höfuðpúðar aftursætanna gera bílstjóranum enn erfiðara fyrir að sjá út um hana. Hefur bílstjórinn því ekki annarra kosta völ en að reiða sig á bakkmyndavél bílsins til að bakka en gæðum hennar er ábótavant, sem stingur í stúf við annars nútímalegt viðmót bílsins.

Þrátt fyrir að gæði myndarinnar hafi verið örlítið kornótt á tíðum verður þó að viðurkennast að 360° víðmynd hennar var afar gagnleg í beygjuakreinum og á gatnamótum og gætir þess að bílstjóri hugi að hjólreiðamönnum, gangandi vegfarendum eða öðru sem gæti komið ökumanni að óvörum frá hægri. Sem fyrrverandi Kaupmannarhafnarbúi, þar sem hægribeygjuslys eru tíð, get ég fátt annað en kunnað að meta slíka virkni.

Raddstýring bílsins er heldur ekki amaleg, en röddin, ólíkt mörgum raddstýringum, er ekki óþægileg eða pirrandi. Við ættum jú, ef við ætlum á annann bóginn að persónugera dauða hluti, í það minnsta að gera það vel. MG tekst það svo sannarlega og er í þokkabót með þægilegt innbyggt leiðsögukerfi sem er alls ekki sjálfgefið. Ég hef áður gefist upp á forneskjulegum og óþjálum leiðsögukerfum og opnað Apple Car Play, en greip lítið til þess að þessu sinni þar sem mér þótti kerfi bílsins þægilegt í notkun, enda var það að mestu laust við þau vandamál sem mörg leitarkerfi eiga í þegar kemur að innslætti og íslenska stafrófinu

Tenging símans við bílinn gengur afar saumlaust fyrir sig og tengist strax við kerfið um leið og sest er inn í ökutækið. Hljóðkerfið er þó ekkert til að hrópa húrra fyrir sem er miður þar sem það yfirgnæfir ekki hve hávær bíllinn er á götu.

Mér til mikillar gleði hefur MG4 XPower-bíllinn innbyggða símahleðslu á litlum fleti á hægri hönd bílstjórans og er því hægt að hefja bílferðina á því að leggja símann frá sér til að hlaða. Gott geymslurými er einnig á hægri hönd bílstjórans, sem hægt er að loka til að fela drasl og dót sem fylgir daglegu amstri.

Aftursætin eru klárlega hentugri fyrir smáfólkið fremur en langleggjaða farþega.
Aftursætin eru klárlega hentugri fyrir smáfólkið fremur en langleggjaða farþega. Arnþór Birkisson

Barnaprufuakstur gekk vonum framar

Almennt var viðmótið í bílnum afbragðsgott með tveimur þægilegum skjám sem eru einfaldir, smekklegir og næmir á snertingu. Engu að síður hefði ég viljað sjá nokkra takka til viðbótar utan skjásins; einna helst fyrir miðstöð bílsins. Jafnvel bestu snjallskjáir geta gert manni lífið leitt á ferð og vill maður helst bara geta kveikt á sætishitaranum og stillt loftkælinguna án þess að líta of mikið af veginum.

Pláss í skottinu er mjög gott og er bíllinn almennt rúmgóður. Gott pláss er í framsætunum og þau einstaklega þægileg og auðveldlega stillanleg. Aftursætin eru aftur á móti klárlega hentugri fyrir smáfólkið fremur en langleggjaða farþega.

Sjálf er ég barnlaus en fékk tvö að láni til að stinga í aftursætið og gekk barnaprufuaksturinn vonum framar. Skyggðar rúður aftursætisins hlífðu börnunum við þeirri litlu sól sem eftir var í nóvembermánuði og sætisbelti bílstjórans var nógu langt frá fæti annars prufubarnsins svo að ekki var ítrekað stigið á það, líkt og barnafólk kannast eflaust við úr löngum og þreytandi bílferðum.

Ökumaður verður ökuþór á augabragði

MG4 XPower hefur því upp á margt að bjóða, þá sérstaklega ef litið er til verðflokksins en bíllinn kostar frá 7.490 milljónum. Aðrar útgáfur MG4-bílsins eru einnig fáanlegar, þar á meðal Luxury og Trophy Extended Range, en sá fyrrnefndi er falur á rúmar 6,7 milljónir en hinn síðarnefndi á tæpa 7,1 milljón. Ef horft er til þess að upprunalegi MG4-bíllinn kostar rúmar 5,5 milljónir er ekki hægt að segja annað en að verðmiðinn sé í hagstæðara lagi.

MG4 XPower kemur því á óvart en bíllinn leynir mikið á sér með eiginleika sem henta fleiri tegundum lífsstíla. Að mínu mati sameinar MG4 XPower sportbílinn við skyldur fjölskyldufólksins og er tilvalinn til að bruna á leikskólann í Sport Mode og koma börnunum öruggum heim með aðstoð „Lane Control“.

Pláss í skottinu er mjög gott og er bíllinn almennt …
Pláss í skottinu er mjög gott og er bíllinn almennt rúmgóður. Arnþór Birkisson

MG4 XPower

  • Aflrás með tvöföldum rafmótor sem knýr bæði fram- og afturhjól.
  • Afl mótors: 435 hö.
  • Drægni: Allt að 385 km (WLTP)
  • Hámarksafl: 320 kW
  • Hámarkstog: 600Nm
  • Hröðun (0-100 km): 3,8 sekúndur
  • Hámarkshraði: 200 km/klst.
  • Stærð rafhlöðu: 64 kWst
  • DC hleðslugeta: 140 kW
  • Allt að 80% hleðsla á 26 mínútum
  • Umboð: BL
  • Verð: Frá 7.490.000 kr.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. janúar 2024.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: