Háklassa lúxuslest senn á sporið

Stórir gluggar gera farþegum kleift að njóta umhverfisins betur en …
Stórir gluggar gera farþegum kleift að njóta umhverfisins betur en til þessa.

Sér einhver fyrir sér ferðalag í lest sem einungis er hönnuð fyrir 34 farþega, þjónustan um borð  fimm  stjarna og þægindin meiri en nokkru sinni? Slík lest kemur jú til sögunnar í Japan árið 2017.

Það er austur-japanska lestarfélagið sem hefur áform um að hefja ferðir lúxuslesta af þessu tagi vorið 2017. 

Fremsti vagninn verður all nýstárlegur með risastórum gluggum sem munu gera farþegum kleift að njóta umhverfisins í allar áttir.

Í lestinni verða 10 vagnar, þar sem meðal annars verður að finna glæsilega setustofu og matstofu, tvær lúxussvítur og 15 aðrar svítur en íburðarminni.

„Tilgangurinn er að bjóða upp á lúxus meðan fólk nýtur náttúrufegurðar og þjóðlegra rétta,“ segir talsmaður JR East-lestarfélagsins.

Enn er eftir að ákveða á hvaða leiðum fyrstu lúxuslestarnar aka.

Japanska lestarfélagið JR Kyushu hóf ferðir lúxuslestar í fyrra sem ber heitið Sjöstjarnan. Fjögurra daga ferðalag með henni kostar frá og með 700.000 jenum, eða að lágmarki um 800.000 krónur.

mbl.is