Lagonda snýr aftur

Stríðnismyndin af nýja lúxusvagninum Lagonda sem Aston Martin kemur með …
Stríðnismyndin af nýja lúxusvagninum Lagonda sem Aston Martin kemur með á götuna á næsta ári.

Aston Martin ætlar að endurreisa gamalt og gott bílamerki með því að bjóða upp á rennilegan ofur lúxusvagn, Lagonda, aldarfjórðungi eftir að bílsmiðurinn lagði upp laupana.

Aston Martin hefur sent frá sér svonefnda stríðnismynd af lúxusvagninum nýja sem smíðaður verður í takmörkuðu upplagi. Mikið verður lagt upp úr lúxus útbúnaði og aðbúnaði.

Hermt er að smíðiseintökin verði boðin sérstöku úrvali viðskiptavina í Mið-Austurlöndum og verða bílarnir ekki í opinberri sölu, heldur nokkurs konar áskrift.

Forsvarsmenn Aston Martin segja að með bílnum hafi verið skapað listaverk. Myndin sem dreift hefur verið gefur til kynna að bílnum nýja muni svipa nokkuð að sinni löngu og mjóslegnu lögun til bílanna Rapid og Lagonda frá árinu 1976. Hann er fjögurra dyra og hvíslað hefur verið, að undir framhúddinu verði að minnsta kosti 565 hestafla vél, útgáfa af hinni 5,9 lítra V12-vél frá Aston Martin.

Sex hraða sjálfskipting verður í bílnum og drif á afturhjólum. Talið er að búast megi við að topphraði verði um 320 km og að hröðunin úr kyrrstöðu í 100 km hraða taki um fimm sekúndur.

Ekki hefur verið látið uppi hvaða vermiði verður á Lagondabílnum. Ytra byrði hans verður úr koltrefjaefni. Hvert og eitt eintak verður handsmíðað í bílsmiðjunni í Gaydon.

Lagonda bílsmiðjan var stofnuð árið 1906 en komst í eigu Aston Martin árið 1947.


Aston Martin Lagonda frá 1989, árinu sem smíði Lagonda var …
Aston Martin Lagonda frá 1989, árinu sem smíði Lagonda var hætt.
mbl.is