Dekkin meira en bara dekk

Dekkjastafli í Dekkjahöllinni á Akureyri.
Dekkjastafli í Dekkjahöllinni á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dekk eru ómissandi og enginn kemst langt án þeirra undir bílnum. Þrátt fyrir mikilvægi þeirra velta menn því líklega sjaldnast fyrir sér hvað dekk eru í raun og veru. Þau þykja bara sjálfsögð og meira sé ekki um þau að segja.

Dekkin eru alla jafna eini hluti bílsins sem snertir jörðina og fátt er mikilvægara en að þau séu ekki of slitin og loftþrýstingur í þeim sé réttur.

Þar fyrir utan er ýmislegt um dekkin að segja, kafi menn aðeins ofan í hvers konar fyrirbæri þau eru. Fyrst skal nefna að gúmmíið sem til framleiðslunnar er brúkað er ekki svart, heldur hvítt. Saman við það er hins vegar blandað svörtu koltrefjaefni til að auka gagnsemi þess og endingu. Það gerir dekkin svört.

Í öndverðu var dekkið gegnheilt og skrúfað fast við felgur bílanna. Sú tíð er löngu liðin þótt enn séu til bílar þannig búnir.

Dekk kappakstursbíla eru oftast fyllt köfnunarefni fremur en venjulegu lofti. Gasið þurra veitir stöðugri þrýsting en loft sem tekið getur breytingum vegna vatnsgufu.

Dýrustu dekk sem framleidd hafa verið voru nýverið seld og kostuðu sem svarar 72 milljónum íslenskra króna. Hið rétta nafn Michelin-mannsins er Bibendum. Dagar varadekkjanna eru taldir. Engin slík fylgja stórum hluta nýrra bíla nú til dags, heldur bara búnaður til að dæla lofti í dekk sem springa, en það sparar pláss og léttir bílinn.

Meira en 250 milljónir dekkja falla til ár hvert og er stærstur hluti þeirra endurunninn og afurð þess notuð til malbiksgerðar. Lego leikfangafyrirtækið danska framleiðir fleiri dekk á ári en nokkurt fyrirtækið annað, eða 306 milljónir örlítilla dekkja undir leikfangabíla.

Í tilraunum sínum til að vera ekki eins háður gúmmíi til framleiðslunnar hefur Continental Tyres-fyrirtækið prófað sig áfram með túnfífla til framleiðslu nýrrar gerðar hjólbarða.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: