Dacia Sandero með stærsta skottið

Stallbakurinn Dacia Sandero Stepway er með stórt skott.
Stallbakurinn Dacia Sandero Stepway er með stórt skott.

Franska bílaritið Auto Plus rekur eigin rannsóknarstofu sem meðal annars sinnir reynsluakstri bíla og hvers konar úttekt á þeim.

Einnig sinnir hún flestu því sem akstri og rekstri bíla viðkemur og útskýrir í ritinu eitt og annað um tæknilega starfsemi bílanna og einstakra kerfa þeirra.

Í nýjasta hefti sínu gerir stofan úttekt á stærð farangursgeymslna í þeim stærðarflokki bíla sem hún kallar borgarbíla. Kemur plássið sér vel, ekki síst þegar helgarinnkaupin eru gerð.

Aðeins þrír bílar í þessum stærðarflokki reyndust með 360 lítra eða stærri farangursgeymslu. Í efsta sæti varð Dacia Sandero frá dótturfyrirtæki Renault með 366 lítra skott.

Skammt á eftir í öðru sæti er Suzuki Baleno með 362 lítra farangursgeymslu og í því þriðja Seat Ibiza með 360 lítra.

Rafbíllinn Renault Zoe varð í fjórða sæti í úttektinni með 350 lítra geymslu, eða einum lítra meira en Hyundai i20. Skoda Fabia varð í sjötta sæti með 336 lítra skott, Peugeot 208 í því sjöunda með 332 lítra, Renault Clio og VW Polo urðu jafnir í áttunda með 330 lítra og tíundu stærstu farangursgeymslu borgarbíla er að finna í Fiat Punto eða 320 lítra.

Aðrir bílar með yfir 300 lítra skott reyndust vera Ford Fiesta (315), DS 3 (312), Opel Corsa fimm dyra (312), Kia Rio (310) og Opel Corsa þriggja dyra (307).

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: