Hyggjast setja reglugerð um aflþörf í fjölbýli

Ekki er gert ráð fyrir hleðslu rafbíla í mörgum nýbyggingum …
Ekki er gert ráð fyrir hleðslu rafbíla í mörgum nýbyggingum sem nú rísa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tilkynnt um að innan þess sé nú unnið að því að breytingar verði gerðar á byggingarreglugerð þannig að í henni verði kveðið með bindandi hætti á um að í nýbyggingum og við endurbyggingu eldra húsnæðis skuli gert ráð fyrir þar til gerðum tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla.

Bendir ráðuneytið á í tilkynningu að sprenging hafi orðið í sölu rafbíla í landinu en að hætt sé við að ónógir innviðir geti hamlað því að þessi þróun haldi áfram. Það megi ekki gerast enda hafi ríkisstjórn landsins lagt áherslu á að orkuskipti í samgöngum geti átt sér stað sem fyrst. Er talið að reglugerðarbreytingin geti auðveldað þá þróun.

Í dag er ekki tekið á hleðslu rafbíla í byggingareglugerð en ráðuneytið telur nauðsynelgt að þar séu skilgreind markmið og grunnkröfur fyrir slíka hleðslu. Í sérbýli sé ólíklegt að upp muni koma vandamál varðandi hleðslu rafbíla en að fjölbýlishús þurfi hins vegar að hanna með væntanlega aflþörf í huga. Við eldri fjölbýlishús þurfi auk þess í mörgum tilvikum að gæta að endurbótum til að gera hleðslu rafbíla yfir höfuð mögulega. Þá bendir ráðuneytið einnig á að möguleiki fólks til að hlaða rafbíla við vinnustað sinn sé einnig lykilatriði til að tryggja almenna eign umræddra tækja.

Verði reglugerðarbreytingin að veruleika mun almenningi verða gert betur kleift að koma sér upp hleðslutækjum þar sem í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því við hönnun húsnæðis.

Mun ráðuneytið birta drög að reglugerðarbreytingunni á næstunni og opna fyrir umsagnir um efni hennar.

ses@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: