Meira en þúsund keyptir óséðir

Nissan Leaf er söluhæsti rafbíllinn í Noregi og útlit er fyrir að ný kynslóð bílsins eigi eftir að gera enn betur en sú fráfarandi.
 
Enn er bíllinn ekki kominn á götuna og enginn hefur séð hann eða reynsluekið i Noregi. Engu að síður hafa á annað þúsund Norðmanna pantað sér eintak og tryggt með innborgun. Munu fyrstu kaupendur fá bíla sína kringum áramótin.

Segja talsmenn bílaumboða að enn fleiri séu í startholunum en vilji fyrst sjá bílinn og skoða áður en þeir skuldbinda sig til kaupa.  

Nissan Leaf hinn nýi verður með 150 hestafla rafmótor, eða 41 hestafli meira en forverinn. Hann verður einnig ögn lengri, lægri og breiðari. Af þeim sökum er rúmbetra í innanrýminu fyrir farþega auk þess sem farangursrými stækkar.

Til að byrja með verður nýr Leaf framleiddur með 40 kWh rafgeymi en á seinni helmingi næsta árs verður einnig hægt að fá bílinn með 60 kWh geymi. Með honum eykst drægi Nissan Leaf í rúmlega 400 kílómetra.

mbl.is