Umboð fyrir MINI tekur til starfa hjá BL

MINI Cooper er verklegur að sjá enda stærsti bíllinn frá …
MINI Cooper er verklegur að sjá enda stærsti bíllinn frá fyrirtækinu.

Umboð fyrir bílaframleiðandann MINI verður formlega kynnt sem nýtt merki hjá BL nk. laugardag, 14. október, þegar aldrifinn tengitvinnbíll, MINI Cooper S E Countryman ALL4, verður frumsýndur á bílasýningu BL við Sævarhöfða milli kl. 12 og 16.

MINI Cooper S E Countryman ALL4 er fyrsti aldrifni bíll MINI og jafnframt fyrsti tengitvinnbíllinn (Plug-in-hybrid). Nýr Countryman er heldur stærri en eldri gerðir bílsins en býr yfir sömu aksturseiginleikunum sem MINI hefur alla tíð verið hvað þekktastur fyrir, eins og fram kemur í fréttatilkynningu, en þess hefur BMW Group gætt að í þróun bílsins frá því að fyrirtækið eignaðist framleiðandann árið 1994. 

224 hestöfl og 385 Nm tog

MINI Cooper S E Countryman ALL4 er búinn tveimur vélum. Rafmótorinn er 65 kW og 88 hestöfl sem skilar 165 Nm togi. Hámarkshraði á rafstillingu er allt að 125 km/klst og drægni mótorsins er um 40 km. Hinn aflgjafinn er 1,5 lítra þriggja strokka 100 kW og 136 hestafla bensínvél með forþjöppu við sex gíra steptronic sjálfskiptingu. Tog vélarinnar er um 220 Nm við 1.250-4.300 snúninga á mínútu. Saman skila aflgjafarnir 165 kW og 224 hestöflum og samsvarar sameiginleg orkunotkun þeirra rúmum tveimur lítrum 100/km að meðaltali. Kolefnisútblástur er um 50 grömm á hvern ekinn kílómetra samkvæmt stöðluðu prófi ESB fyrir tengiltvinnbíla.

Búinn ýmsum tæknilausnum

MINI Cooper S E Countryman ALL4 er rúmbesti bíllinn frá MINI auk þess sem bíllinn er búinn ýmsum tækninýjungum BMW Group sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í samgöngum. Meðal tæknilausnanna er eDrive kerfi BMW ásamt rafknúnu aldrifinu þar sem bensínvélin knýr framhjól bílsins og rafmótorinn afturhjólin.

Sameinar ákveðnar þarfir

Um tvær og hálfa klukkustund tekur að fullhlaða háspennta lithium-ion 7.6 kWh rafhlöðu bílsins í gegnum sérstaka vegghleðslu en þrjár og hálfa klukkustund við venjulega heimilisinnstungu. Í tilkynningunni kemur einnig fram að MINI Cooper S E Countryman ALL4 sé hentugur fyrir þá sem búa í þéttbýli og vilja aka rafknúnum, hljóðlátum og mengunarlausum bíl til og frá vinnu án þess að fórna þeim möguleika að geta nota bílinn til langferða út úr bænum.

Ítarlegar upplýsingar um staðalbúnað MINI Cooper S E Countryman ALL4 ásamt fáanlegum aukabúnaði eru að finna á vef BL. Bíllinn sem kynntur verður hjá BL á laugardag kostar 5.590 þús. króna.

Innanrými MINI Cooper. Bíllinn hentar að sögn þeim sem vilja …
Innanrými MINI Cooper. Bíllinn hentar að sögn þeim sem vilja umhverfisvænan bíl fyrir borgarakstur án þess að fórna möguleikanum á langferðum út á land.
mbl.is