22,6% aukning í október

Toyota Yaris er mest selda einstaka bílamódelið frá áramótum til …
Toyota Yaris er mest selda einstaka bílamódelið frá áramótum til októberloka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukning upp á 22,6% varð í bílasölu í landinu í nýliðnum októbermánuði miðað við sama mánuð fyrir ári, 2016. Að sögn Bílgreinasambandsins (BGS) stefnir í að bílasalan slái fyrri met og verði á þriðja tug þúsunda nýskráðra bíla.

Nýskráðir fólksbílar í október voru 1.114 á móti 909 í fyrra. Frá áramótum til októberloka er aukningin í fólksbílum 15,1%. Skráðir voru 19.375 fólksbílar á tímabilinu sem er aukning um 2.541 bíl frá fyrra ári.

Hlutfall bílaleigubíla í nýskráningum fólksbíla á árinu er 40,2%  af heildinni á þessum fyrstu 10 mánuðum ársins. Samkvæmt upplýsingum frá bílaumboðinu BL fengu bílaleigur 81 nýjan bíl afhentan í október, 36% færri en í sama mánuði í fyrra þegar nýskráðir voru 127 bílar. Samdráttur í nýskráningum bílaleigubíla það sem af er árinu nemur um tveimur prósentum miðað við sama tíma í fyrra. Alls keyptu leigurnar 8.164 nýja bíla fyrstu tíu mánuði þessa árs samanborðið við 8.345 bíla janúar-október 2016.

Samkvæmt upplýsingum frá BGS er söluhæsti einstaki bíllinn það sem af er ári Toyota Yaris en alls hafa verið nýskráð 721 eintök af því bílamódeli. Í öðru sæti er Toyota Rav4 með 631 eintök og í því þriðja Kia Rio með 574 stk.

15% aukning á árinu

Samkvæmt upplýsingum frá BL voru alls 1.248 fólks- og sendibílar nýskráðir á markaðnum í október sem er rúmlega 22% aukning frá október 2016. Hefur og heildarmarkaður fólks- og sendibíla vaxið um 15% á árinu miðað við sama tíma í fyrra. Frá áramótum til októberloka  höfðu 21.072 fólks- og sendibílar verið nýskráðir í landinu. Þar af nam fjöldi bíla af merkjum BL 5.914. Það eru rúmlega 25% fleiri bílar en á sama tímabili 2016 og munar 1.164 bílum.

mbl.is