Glóðakertin þurfa að vera í góðu lagi eigi ekki illa að fara og tjón að henda.
Glóðakertin þurfa að vera í góðu lagi eigi ekki illa að fara og tjón að henda.
Sorento: Dularfullir smellir í nýjum bíl Spurt: Ég endurnýjaði nýlega Kia Sorento með árgerð 2011. Sá nýi er frábær en þó ekki gallalaus. Í honum eru aukahljóð – högg sem heyrast þegar farið er yfir hraðahindrun.

Sorento: Dularfullir smellir í nýjum bíl

Spurt: Ég endurnýjaði nýlega Kia Sorento með árgerð 2011. Sá nýi er frábær en þó ekki gallalaus. Í honum eru aukahljóð – högg sem heyrast þegar farið er yfir hraðahindrun. Umboðið er búið að skoða bílinn nokkrum sinnum, hefur staðfest aukahljóðið en ekki fundið orsökina. Bíllinn hefur verið „hristur“ í „píningarbekk“ hjá skoðunarstöð án þess að uppspretta aukahljóðsins hafi fundist. Framleiðandinn virðist ekki kannast við þennan „galla“. Að vonum er ég ekki sáttur við bílinn með þessum aukahljóðum – getur þú ímyndað þér hvað þetta gæti verið?

Svar: Það vill svo til að ég prófaði svona bíl á dögunum. Þegar farið var yfir hvassar hraðahindranir heyrðust skellir í botni bílsins. Undir hvorum framstól er stokkur úr hörðu plasti sem veitir miðstöðvarblæstri til afturrýmis. Stokkarnir reyndust lausir og smullu utan í stálbrík við högg. Endurbætt festing leysti málið.

LandCruiser 90: Glóðarkertin geta eyðilagt vélina

Spurt: Ég rakst á grein á vefsíðunni þinni (www.leoemm.com) þar sem þú bentir á að nauðsynlegt væri að endurnýja glóðarkertin í Toyota LandCruiser 90-jeppa með Dieselvél eftir um 90-100 þús. km akstur. Ég tók ekki áhættuna, keypti glóðarkerti hjá N1 og endurnýjaði. Í ljós kom að oddinn vantaði á eitt þeirra (sjá mynd). Vélin gengur eðlilega án aukahljóða og gangsetning er nú auðveldari að morgni. Er ástæða til að láta athuga þetta frekar?

Svar: Ég hef áður vakið athygli á þessu máli og ekki að ástæðulausu. Til að valda ekki óþarfa áhyggjum mun þessi 100 þús. km ending einungis eiga við LC90 (þótt ég taki ekki ábyrgð á því). En tjón af þessum völdum getur verið mikið og dýrt. Vonandi hefurðu verið heppinn og sloppið við skemmdir. Fullkomnari vélaverkstæði eiga fjarsjárbúnað sem hægt er að renna inn um kertagat til að skoða brunahólf, ventla og stimpilkoll. Glóðarstifti kertanna geta verið úr ryðfríu stáli og verða því ekki fjarlægð með segulstáli.

Saab 9-5: Ónýt tímakeðja?

Spurt: Á gamlan og góðan Saab 9-5 með 4ra sílindra 2ja lítra vél, ekinn 176 þús. km. Hringl og lítilsháttar smellir heyrast í vélinni í lausagangi – annars er bíllinn í fínu lagi. Á verkstæði í minni heimabyggð er mér sagt að hljóðin séu í slitinni tímakeðju og hana þurfi að endurnýja. Það skilst mér að sé dýrt verk. Fást viðgerðarhandbækur fyrir þessa bíla?

Svar: Tímakeðjan á að vera eins og ný eftir 176 þús. km. Oftast er ástæða þess að slaknar á tímakeðjunni sú að hringrásaröndun vélarinnar hefur teppst. Þá myndar rakaþéttni skúm innan í ventlalokinu sem smám saman stíflar smurrásir. Sjálfvirkur strekkjari tímakeðjunnar, sem er knúinn með þrýstingi frá smurkerfinu, stíflast, stirðnar eða festist vegna óhreininda. Eftirfarandi leysir oftast málið og sparar tugþúsundir króna: Öndunarkerfið hreinsað og blásið út. Hreinsiefni (Engine flush) sett saman við smurolíuna og vélin látin ganga heit í 30 mín. Smurolían endurnýjuð ásamt síu. Ég mæli með syntetískri Halvoline 5w-40 (Poulsen). Notaðu hana 5000 km og endurnýjaðu þá aftur með sams konar olíu og síu. Skal ég hundur heita verði tímakeðjan ekki til friðs upp frá því. Hægt er að fá tímakeðju fyrir þessa vél sem er þrædd í. Vanur maður er hálftíma að því. Haynes-viðgerðarbækur (á ensku) hafa fengist hjá N1 og Bókabúð Steinars við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur

leoemm@simnet.is

(Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar

og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)

Þrjú bílaheiti

Íslendingar og fleiri klæmast á þremur bílheitum umfram öðrum. Þau eru alþjóðlega skráð vöruheiti í eigu bílaframleiðanda: Vauxhall. Bretar bera þetta tegundarheiti fram sem „Voxhol.“ Íslendingar klæmast á því og nefna „Vúxhall,“ setja jafnvel stút á munninn. Enn þekktari ambaga tengist Renault: Frakkar, og þeir sem kunna frönsku, bera það fram sem „Reno.“ Íslendingar, sem vilja hafa vit fyrir Frökkum, bera Renault fram sem „Runo“ eða „Runó.“ Vilji fólk auglýsa nesjamennsku sína sérstaklega ber það Porsche fram sem „Porch“ en við það spretta burstirnar upp á fagfólki í bílaiðnaði. Heitið er tékkneskt og alþjóðlegur framburður þess er „Porsé.“