Captiva Eyðslumælinn þarf að forrita fyrir rauneyðslu eða meðaleyðslu. Forritunin er sýnd og skýrð í handbókinni á sama stað og sýnt er hvernig áttavitinn er réttur af.
Captiva Eyðslumælinn þarf að forrita fyrir rauneyðslu eða meðaleyðslu. Forritunin er sýnd og skýrð í handbókinni á sama stað og sýnt er hvernig áttavitinn er réttur af.
ESP = Skrikvörn Spurt: Ég á Suzuki Grand Vitara Lux. V6. Í mælaborðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað komist að því hvað þetta sé. Til hvers er þessi takki?

ESP = Skrikvörn

Spurt: Ég á Suzuki Grand Vitara Lux. V6. Í mælaborðinu er takki, sem á stendur ESP OFF. Ég hef ekki getað komist að því hvað þetta sé. Til hvers er þessi takki?

Svar: ESP = Electronic Stability Program er sjálfvirkt tölvustýrt stöðugleikakerfi sem notar breytur frá flóttaaflsnema, hallanema, hraðanema, inngjafarstöðunema, stefnunema og ABS-hjólnemum (en þeir mæla snúningshraða hvers hjóls) til að tryggja öryggi bíls með því að taka í taumana, t.d. þegar bíllinn byrjar að skrika til hliðar vegna hálku eða þegar bíl er ekið of hratt í beygju. Kerfið beitir ABS-bremsunum, inngjöf og rafstýri (sé það fyrir hendi) til að rétta kúrsinn. Með takkanum geturðu aftengt þetta kerfi, t.d. vegna spólvarnar en hún getur verið til óþurftar við ákveðnar aðstæður, t.d. sitji bíll fastur.

Eyðslumæli þarf að forrita

Spurt: Ég var að lesa grein á www.leoemm.com þar sem þú lýsir 3ja ára reynslu af Chevrolet Captiva. Þar talar þú um meðaleyðslu um 10 l. og undir 9 l. á þjóðvegi. Mín reynsla er sú að meðaleyðslan sé um 13,5 l. og á þjóðvegi fer hún ekki undir 10,3 lítra. Þessar mælingar eru gerðar frá fyllingu til fyllingar á tank. Eyðslumælir bílsins sýnir alltaf 12-13,5 lítra eyðslu. Eru einhverjar breytingar sem ég get gert til að draga úr eyðslunni?

Svar: Um er að ræða bíl kunningja míns sem reynst hefur mjög vel. Eyðslumælinn þarf að forrita fyrir rauneyðslu eða meðaleyðslu. Forritunin er sýnd og skýrð í handbókinni á sama stað og sýnt er hvernig áttavitinn er réttur af. Þegar mælirinn er stilltur á meðaleyðslu sýnir hann um 10 lítra í Captiva Diesel. Ég hef veitt því athygli að dekkjagerð og þrýstingur í dekkjum hefur mælanleg áhrif á eyðslu þessa jepplings. Með 36 pund (um 2 bör) í öllum dekkjum nærðu mestri sparneytni. Smurolían hefur einnig áhrif á eyðslu. Bestur árangur næst með syntetískri Valvoline 5w30 (Poulsen).

Loftflæðiskynjari eða raki í bensíni

Spurt: Ég er í vandræðum með Opel Corsa árg.´99 Málið er að þegar vélin er köld höktir hann mjög mikið eins og hann fái ekki nóg bensín. Ég þarf að stoppa í nokkrar mín. til að komast af stað. Þetta er bara þegar hann er kaldur. Vélarljósið lýsti öðru hverju svo ég fékk verkstæði Friðriks Ólafssonar til að lesa bilunarkóðana. Kóði var fyrir súrefnisskynjarann og endurnýjaði ég hann og kertin um leið. En bilunin er enn til staðar. Geturðu aðstoðað mig í þessu máli?

Svar: Muni ég rétt er loftmagnsskynjari við báðar vélargerðirnar í Corsa. Til öryggis skaltu setja ísvara í bensínið, einn 125 ml brúsa af isoprópanóli áður en þú ferð í aðrar framkvæmdir. Bilunin lýsir sér eins og ónýtir kertaþræðir eða bilaður loftmagnsskynjari. Þessi skynjari gefur stundum kóða og stundum ekki – ekkert er á hann að treysta við kóðalestur. Loftmagnsskynjari er frekar dýrt stykki sem frumbúnaður en umboðið, IH/BL, hefur selt loftmagnsskynjara frá öðrum framleiðanda fyrir mun lægra verð.

Vantar gorma í Toyota

Spurt: Ég er með Toyota Corolla 1.8 4WD árg. 1997 og vantar í hann gorma að aftan. Hefur þú einhverja hugmynd um hvar ég fæ þá?

Svar: Þeir hafa verið til í umboðinu og kostuðu engin ósköp. Þú getur einnig fengið þá notaða hjá partasalanum (Jamal) í Flugumýri í Mosfellsbæ.

Fastir ventlar eru algeng orsök gangtruflana

Sé bíl oftast ekið stuttar vegalengdir, jafnvel í lest til og frá vinnu, getur myndast óeðlilega mikið sót í brunahólfum vélar. Sótið getur sest á hausa og leggi útventla þannig að þeir festast í stýringunum; setjast ekki eða standa opnir. Oft fylgir þessu áberandi tikk-hljóð þegar vélin er gangsett köld. Syntetísk smurolía og hressilegri akstur við og við geta komið í veg fyrir að ventlar festist. Hjá Vöku fæst efni sem blandað er í vélarolíu og getur losað fasta ventla og sparað þannig dýra viðgerð. Ath: Efni, sem sett er í eldsneyti, losar ekki fasta ventla því það brennur áður.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)