Audi A6 „Tímareimar í Audi virðast innþorna og fúna ört. Sé þessi 5 ára regla virt á þetta ekki að vera vandamál,“ segir Leó.
Audi A6 „Tímareimar í Audi virðast innþorna og fúna ört. Sé þessi 5 ára regla virt á þetta ekki að vera vandamál,“ segir Leó.
Audi A6: Slitin tímareim Spurt: Ég keypti vel með farinn Audi A6 af árgerð 2004 í fyrra. Honum hafði þá einungis verið ekið 32 þús. km. Nú, ári seinna, stendur hann í 45 þús. og þá gerist það að vélin, sem er 2.

Audi A6: Slitin tímareim

Spurt: Ég keypti vel með farinn Audi A6 af árgerð 2004 í fyrra. Honum hafði þá einungis verið ekið 32 þús. km. Nú, ári seinna, stendur hann í 45 þús. og þá gerist það að vélin, sem er 2.8 L V6 bensínvél, stöðvast skyndilega með smelli. Við skoðun á verkstæði er mér sagt að tímareimin hafi slitnað og ventlar bognað, jafnvel heddin séu skemmd. Mér er sagt að sé ég heppinn kosti viðgerð innan við eina milljón króna. Nú spyr ég þig, sem sérfræðing, hvort þetta sé algengt vandamál í Audi-bílum, hvort þetta teljist eðlileg ending á tímareim og hvort þetta sé ekki galli sem framleiðandi/umboði beri að bæta?

Svar: Þetta er þekkt vandamál í Audi. Gæði tímareima í Audi A4 og A6 virðast vera misjöfn, hjá sumum endast reimarnar um og yfir 100 þús. km. Bíleigendum og þjónustufyrirtækjum hættir til að gleyma því að framleiðandinn mælir með því að tímareim sé endurnýjuð eftir 100-140 þús. km eða á 5 ára fresti hvort sem fyrr kemur! Tímareimar í Audi virðast innþorna og fúna ört. Sé þessi 5 ára regla virt á þetta ekki að vera vandamál. Þar sem 5 ára reglan hefur ekki verið virt í þínu tilfelli og bíllinn ekki lengur í ábyrgð er ekki um galla að ræða sem umboði ber að bæta. Þegar tímareim er endurnýjuð sem eðlileg forvörn er reglan sú að skipta um leið um stýrihjól, strekkjara og vatnsdælu. Þú getur sparað talsvert fé með því að fá þetta unnið hjá Vélaverkstæðinu Kistufelli en þeir eiga jafnframt þá varahluti sem til þarf.

Toyota LandCruiser 120: Óeðlilegt vélarhljóð

Spurt: Ég er með Toyota LandCruiser 120 árgerð 2007. Skipt hefur verið um spíssa í vélinni tvisvar vegna mikils hávaða í vélinni sem hverfur samt ekki. Ég þori ekki á bílnum út fyrir borgina. Þegar vélin er gangsett köld eru háværir skellir í henni. Ég er búinn að tala við umboðið í Kópavogi eftir að seinni spíssarnir voru settir í. Þeir segja að þetta eigi að vera svona! En þetta er ekki sá bíll sem ég keypti. Ég hef átt marga LandCruiser-bíla en aldrei lent í svona vandræðum. Ég hef heyrt af fleirum með sams konar spíssavandamál í LC 120 og að vélar hafi jafnvel hrunið í framhaldi. Það hrellir mig einnig að sitja uppi með dýran og illseljanlegan bíl, a.m.k. myndi ég ekki þora að kaupa bíl með svona vélarhljóðum. Hefur þú heyrt af þessu? Á maður ekki rétt á að fá nýja vél? Bíllinn er ekinn 57.000 km og hefur farið í allar þjónustuskoðanir hjá Toyota í Kópavogi og því í fullri ábyrgð. Hvað ráðleggur þú manni að gera í svona máli?

Svar: Þessi spíssavandamál í LC 120 eru þekkt. Hins vegar er einhver misskilningur hjá þér varðandi ábyrgð framleiðandans, hún gilti í þrjú ár eða 100 þús. km og er því útrunnin og þjónustuskoðanir breyta því ekki. Mér kemur lýsing þín á viðbrögðum umboðsins spánskt fyrir sjónir því ég hef heimildir fyrir því að þar sé tekið á þessum spíssamálum umyrðalaust enda sérstök 3ja ára ábyrgð á því verki. Þá vaknar spurningin hvort þessi hávaði (skellir) sé frá spíssunum. Væri um galla í vélinni að ræða kæmi aftur að ábyrgðinni sem er útrunnin. Jafnvel þótt umboðið kæmi til móts við þig varðandi endurbyggða vél hlýtur þú að greiða einhvern hluta af þeim kostnaði með tilliti til 57 þús. km notkunar. Ég ráðlegg þér að fá álit óháðs bílvirkja á því hvað valdi þessu óeðlilega hljóð í vélinni og ræða aftur við umboðið í framhaldi af því.

Ábending

Heimalagaður rúðuvökvi

Settu einn lítra af ódýrasta frostlegi sem fæst út í 9 lítra af vatni. Bættu við einni matskeið af venjulegum uppþvottalegi. Frostlegi má sleppa að sumri til. Þegar þú reiknar út kostnaðinn munu verða hissa á því hve mikið má spara með dálítilli útsjónarsemi og lítilli fyrirhöfn.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)