Innréttingin er sportleg með rauðum beltum og álpedölum en um leið dálitið gamaldags.
Innréttingin er sportleg með rauðum beltum og álpedölum en um leið dálitið gamaldags.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fyrsta skipti í langan tíma koma sportlegir hlaðbakar til landsins nánast á færibandi. Sá síðasti til að sýna ásjónu sína hér er Renault Mégane RS, en eitt eintak var pantað hingað fyrir skömmu.

Í fyrsta skipti í langan tíma koma sportlegir hlaðbakar til landsins nánast á færibandi. Sá síðasti til að sýna ásjónu sína hér er Renault Mégane RS, en eitt eintak var pantað hingað fyrir skömmu. Það er ekki langt síðan við höfðum nánast eins bíl til reynsluaksturs, en það var Opel Astra OPC. Útlitslega eru þessir bílar mjög líkir og margt er einnig líkt með talnaupplýsingum þeirra og því óhjákvæmilegt að bera þá saman. Hestaflatalan er nánast sú sama og þótt þar muni fimm hestöflum finns það ekki í upptakinu, enda munar þar aðeins 0,1 sekúndu sem OPC er fljótari. Það er svo lítill munur að góður ökumaður getur auðveldlega snúið honum sér í vil. Á móti kemur að RS-inn er með meiri hámarkshraða, 255 km á klst. í stað 250 hjá OPC.

Sportleg en gamaldags innrétting

Að innanverðu er margt sem gleður augað eins og rauð öryggisbelti, rauður ísaumur í innréttingu og stýri og sportlegir álpedalar. Framsætin koma frá Recaro og eru með háum hliðarbörðum sem halda ökumanni vel á sínum stað. Samt er innréttingin ekkert sérstaklega spennandi að öðru leyti og virkar frekar gamaldags. Reyndar er upplýsingaskjár fyrir miðju mælaborðsins en hann er ofan á mælaborðinu svo að til að nota hann þarf ökumaður að teygja sig óeðlilega mikið. Annað er í hefðbundnum Renault-stíl og handbremsan er meira að segja af gömlu gerðinni, sem verður að teljast kostur í bíl sem þessum. Pláss í aftursætum er þokkalegt og fótarými með skárra móti fyrir þriggja dyra sportara en útsýni fyrir aftursætisfarþega er mjög lítið. Farangursrýmið er frekar mjótt og ekkert sérlega rúmgott en það mun líklega ekki standa í væntanlegum kaupendum þessa bíls.

Við akstur koma allir kostir Mégane RS í ljós. Vélin er snögg upp á lagið og er hljómfögur án þess að virka mjög hávær. Sex gíra kassinn er stífur eins og búast má við í bíl með vélarafli eins og þessu en er ekki eins klossaður og í OPC. Aflið er vélinni er mest á miðju snúningssviðinu, sem kom sér vel þegar bíllinn var reyndur á nýju hringakstursbrautinni á æfingasvæði Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni. Fjöðrunin er vægast sagt stíf og þótt það hafi verið kostur á brautinni var hann óþægilega stífur á köflum í hefðbundnum akstri. Bremsurnar frá Brembo sem eru í Mégane RS þykja sér á parti og stórir diskar og eldrauðar bremsudælurnar eru mjög áberandi innan í 19 tommu álfelgunum. Diskarnir að framan eru 340 mm og með fjögurra stimpla dælum. Það finnst vel hvað hann er fljótur að grípa í þegar stigið er snöggt á bremsufetilinn og gott að geta látið bílinn fá meira grip á framdekkin með einu snöggu átaki þegar á þarf að halda. Stýrið gefur mjög góða tilfinningu þótt það sé ekki eins dobblað og í OPC. Frá borði í borð eru rúmlega tveir og hálfur hringur, sem er hálfum hring meira en í Opelnum.

Verðið hálfgert grín

Mann setur hljóðan í smástund við þá staðreynd að í jafn líkum bílum og Astra OPC og Mégane RS skuli verðmunurinn vera heilar tvær milljónir. Er verið að gera grín með því að segja að RS-inn sé svona ódýr eða er OPC einfaldlega svona dýr? Opel Astra OPC kostar nefnilega 7.990.000 kr. en Renault Mégane RS kostar ekki nema 5.990.000 kr. Morgunblaðið prófaði Volkswagen Golf R fyrr í sumar, en sá bíll er 300 hestöfl. Golf R kostar beinskiptur 7.270.000 kr. svo að gera má því skóna að verðið á RS-inum sé bara svona gott. Í það minnsta er langt síðan hestöfl hafa verið jafn ódýr og í Mégane RS.

njall@mbl.is