Kúpulaga útlit GLE Coupé sportjeppans vekur hvarvetna athygli og honum tekst að sameina vel útlit jeppa og sportbíls.
Kúpulaga útlit GLE Coupé sportjeppans vekur hvarvetna athygli og honum tekst að sameina vel útlit jeppa og sportbíls. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Útlit, aksturseiginleikar, farangursrými _ Útsýni aftur og til hliða, verð

Fyrir bílaáhugamenn og sérstaklega þá sem láta sér annt um lúxusjeppa af stærri gerðinni, hefur tilkomu GLE jeppans frá Mercedes-Benz verið beðið með talsverðri eftirvæntingu. Hann hefur nú verið frumsýndur í Öskju í báðum útfærslum sínum, en í blaðinu í dag er sagt frá því þegar við reynsluókum GLE Coupé 350d. GLE-jeppinn er ekki ný kynslóð heldur aðeins andlitslyfting gamla ML-jeppans með nýju nafni. Með því að koma með Coupé-útfærslu einhendir Mercedes sér í samkeppni við BMW X6-lúxussportjeppann. Eftir talsverðu er að slægjast því að sá bíll hefur verið framleiddur í meira en 300.000 eintökum síðan að hann kom á markað árið 2008.

Fagur að innan sem utan

Þótt mörgum hafi þótt útlit kúpujeppanna skrítið til að byrja með hefur það vanist vel og nýjustu útfærslum BMW X4 og X6 verið vel tekið. Óhætt er að segja að GLE Coupé gefi þeim ekkert eftir í fegurðarsamkeppninni, hvort sem það er innandyra eða utan. Línurnar eru skemmtilega flæðandi og rísa upp aftur með bílnum, hjólin eru stór og staðsett utarlega og bílnum tekst að líta út eins og háreistur sportbíll. Að innan er margt sem gleður augað og vekur forvitni ökumannsins. Díóðulýsing setur skemmtilega blæ innandyra í skammdeginu og tvílit sætin gefa enn sportlegri blæ. Mælaborðið er í dæmigerðum Benz-stíl og fátt sem kemur á óvart þar, enda mestmegnis það sama og í ML-jeppanum. Prófunarbíllinn var í sérstakri AMG-útfærslu þannig að sætin í bílnum eru mjög sportleg og þá sérstaklega framsætin eins og gefur að skilja, en þau eru samt ekki óþægileg. Að vísu er hliðarstuðningur óþarflega mikill og þess vegna þarf hálfpartinn að lyfta rassinum til að smeygja sér út úr bílnum. Einnig þarf að gæta að höfði þegar sest er undir stýrið enda toppurinn lægri en annað útlit bílsins gefur til kynna. Plássið er einnig gott fyrir fjóra fullorðna og jafnvel þann fimmta líka í miðjusætinu. Það er líka óvenju rúmgott farangursrými í GLE Coupé en það er langt og djúpt og tekur heila 650 lítra.

Meira höfuðpláss en minna útsýni

Það sem háir þessum gerðum bíla eru venjulega atriði eins og lítið höfuðpláss og slæmt útsýni að aftan. Höfuðplássið í þessum bíl er með betra móti en það sama verður ekki sagt um útsýnið. Háreist axlarlína og afturendi, litlir gluggar og stórir gluggapóstar hjálpast þar að. Meira að segja A-bitar eru mjög breiðir og skyggja á útsýni fram á við. Ekki bætir úr skák að hliðarspeglar eru ekki nógu breiðir til að bæta úr þessu og gjarnan hefði mátt hafa bakkmyndavélina með 360° útsýni til að bæta fyrir þetta. Upplýsingaskjárinn er af stærri gerðinni og sýnir allt vel en er ekki snertiskjár. Það sem talsmenn Mercedes-Benz hafa sagt er að rannsóknir bendi til þess að notkun snertiskjás í akstri auki hættuna á slysum og þess vegna hafa þeir ekki viljað fara þá leið, ólíkt öðrum framleiðendum. Það hefur líka þann kost að skjárinn verður ekki þakinn puttaförum eins og vill verða með snertiskjái.

Skemmtilegur akstursbíll

Það er margt sem gefur ökumanni sportlega tilfinningu með þessum bíl og greinilegt að hönnuðir Mercedes-Benz hafa farið alla leið í þeim efnum. Stýrið er minna og sportlegra og gefur betri tilfinningu en í GLE-jeppanum. Hann er stífari á fjöðrum en GLE-jeppinn og jaðrar við að vera hastur. Hann liggur hins vegar mjög vel í hvers kyns átökum og er ekki gjarn að fara í undirstýringu eins og títt er um þunga dísilbíla eins og þennan, en við skulum hafa það í huga að bíllinn vegur tvö tonn og kvarttonni betur. Meira að segja hljóðið í vélinni er öðruvísi en í GLE-jeppanum og hún urrar aðeins þegar henni er gefið snöggt inn. Að öðru leyti er hún hljóðlát í akstri og þá einnig þegar staðið er fyrir utan bílinn. Sjálfskiptingin er níu þrepa og fljót að skipta í réttan gír sem hún gerir ótt og títt. Einnig er hægt að skipta handvirkt með flipum fyrir aftan stýri og einnig stilla á handskiptingu með M-takka í miðjustokki. Til hvers þeir voru að setja þennan takka þar er eiginlega óskiljanlegt því að bíllinn fer í handskiptingu um leið og ökumaður fer að fikta í flipunum.

Verðið ekki honum í hag

Eins og áður sagði er það aðallega einn bíll sem keppir við GLE Coupé á Íslandi, en það er að sjálfsögðu BMW X6. Að vísu myndu bílar eins og Porsche Macan S og Audi SQ5 einnig keppa við þennan bíl þegar horft er á íslenska kaupendur. Grunnverð Mercedes-Benz GLE Coupé er 13.210.000 kr. en grunnverð BMW X6 er talsvert lægra, eða aðeins 11.690.000 kr. Það sama er uppi á teningnum þegar verð á hinum þýsku bílunum eru skoðuð en grunnverð Macan S með dísilvélinni er 11.490.000 kr. og 11.590.000 kr. fyrir Audi SQ5 með sömu V6-dísilvélinni og Macan. Þrátt fyrir mjög góðan staðalbúnað í GLE Coupé verður því þegar sest er upp í bílinn, en gði þegar sest er upp sama og við þennan bmjög vel hj yrði umtalsvert meira en upp við gangstí að segja að verðið er honum ekki í hag.

njall@mbl.is