„Það er fátt betra en að skella sér í sjóinn“

Skúli Mogensen rekur sjóböðin í Hvammsvík og sækir sjóinn sjálfur.
Skúli Mogensen rekur sjóböðin í Hvammsvík og sækir sjóinn sjálfur.

Á sunnudaginn kemur verður Hvammsvíkursundið haldið í annað sinn. Lagt verður upp frá sjóböðunum í Hvammsvík og sundleiðin er 1,2 km hringur í kringum hólmann í víkinni. Svæðið hentar einstaklega vel til sjósunds og lítið er um strauma.

„Við hlökkum mikið til að halda hið árlega Hvammsvíkursund enda er sjósund orðið stór liður í upplifuninni í Hvammsvík. Það er fátt betra en að skella sér í sjóinn beint úr heitu laugunum okkar allt árið í kring og hlökkum við til að sjá sem flesta,“ segir Skúli Mogensen, einn eigandi Hvammsvíkur sjóbaða. 

Þátttakendur þurfa að mæta í Hvammsvík klukkan 10.00 og sundið …
Þátttakendur þurfa að mæta í Hvammsvík klukkan 10.00 og sundið sjálft hefst klukkan 11.00. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

SJÓR, sund- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur heldur utan um sundið líkt og á síðasta ári. Um 60 manns tóku þátt í fyrra og er búist við svipuðum fjölda núna í ár.

„Þetta er frábær viðbót við þau sund sem við höfum verið að bjóða upp á hjá félaginu, má þar nefna Viðeyjarsundið og Fossvogssundið. Sérstaða Hvammsvíkur er gott aðgengi að sjó og það var mikil ánægja með sundið í fyrra en það tókst sérstaklega vel. Við hlökkum til að endurtaka leikinn með Hvammsvík,“ segir Herdís Anna Þorvaldsdóttir, formaður SJÓ. 

Öryggið verður haft að leiðarljósi en á svæðinu verður Björgunarsveitin Ársæll ásamt læknunum Evu Katrínu Sigurðardóttur og Kristjáni Þór Gunnarssyni sem verða sundgörpum innan handar.

Gerð er krafa um að sundfólk hafi synt Fossvogssundið eða sambærileg sund áður og sundfólk verður að ljúka sundi innan við klukkustund. Litríkar sundhettur eru skylda til að auðvelda starfsmönnum að sinna öryggisgæslu. Hægt er að skrá sig í sundið á vefsíðu Hvammsvíkur sjóbaða. 


„Við hvetjum þátttakendur að nærast vel fyrir sundið, vera vel hvíld og hlusta á líkamann. Þetta er allra meina bót og hvetjum við sem flesta til að taka þátt,“ segir Herdís. 

Reikna má með að sjórinn verði um 10 gráður.
Reikna má með að sjórinn verði um 10 gráður. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
Það var einstök stemning.
Það var einstök stemning. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert