„Á það til að taka að mér hunda sem vantar heimili“

Hanna og Avo eru miklir félagar.
Hanna og Avo eru miklir félagar. Ljósmynd/Aðsend

Hanna Jezorski er námsmaður sem á tvo hunda, þá Gylfa og Avocado, sem eru tólf og sex ára. Hún ráðleggur fólki að þrauka hvolpaárin og að mikilvægt sé að leyfa þeim að taka þátt í lífi manns eins mikið og hægt er.

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Ég fékk Avo þegar hún var bara 10 vikna hvolpur. Þá var ég 19 ára. Avo var mjög þrjóskur hvolpur sem fór í út í horn í fýlu ef ég skammaði hana. Gylfa tók ég að mér síðasta desember frá vinum besta vinar míns en ég á það til að taka að mér hunda sem vanta heimili.“

Avo og Gylfi eru miklar andstæður. Gylfi er mjög feiminn …
Avo og Gylfi eru miklar andstæður. Gylfi er mjög feiminn en Avo elskar alla og vill hafa mikið fjör í kringum sig. Ljósmynd/Aðsend

Hver er ykkar daglega rútína?

„Við förum alltaf í göngutúra þegar við vöknum en það er mjög þægilegt að hafa tvær svefnpurrkur sem sofa alltaf til hádegis. Við förum yfirleitt í þrjá göngutúra yfir daginn.

Hundarnir eru miklar andstæður. Avocado elskar fólk og vill vera þar sem mikið er um að vera og er líka mjög athyglissjúk. Aftur á móti líkar Gylfi lítið við fólk sem hann þekkir ekki og felur sig oftar en ekki bakvið mig ef það kemur einhver að okkur sem hann kannast ekki við. Þannig að ég fer oft með Avo á kaffihús og bæjarrölt þar sem ég heimsæki staði á borð við Jungle, American Bar og Héðinn. Hún gjörsamlega elskar það. Ég er hins vegar enn að reyna að venja Gylfa á kaffihús en hann bara felur sig undir borði eða vill bara vera í fanginu mínu allan tímann. Svo ef það er vont veður úti og ég er á leið út með Avo þá bara felur hann sig undir sænginni.“

Áttirðu gæludýr þegar þú varst yngri?

„Já, ég hef alltaf átt gæludýr bæði hunda og ketti.“

Kostirnir við að eiga hund?

„Skilyrðislaus ást. Þau eru alltaf ánægð að sjá þig þegar þú kemur heim. Þá er það líka mjög þægilegt að eiga hund þegar maður missir mat á gólfið því maður þarf ekki að þrífa það upp!“

Ókostirnir við að eiga hund?

„Get ekki hugsað neina ókosti.“


Hafið þið deilt saman einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum?

„Avo týndist þegar hún var sirka 14 vikna uppí bústað þegar hún var að leika við stóran labrador. Hún týndist í 11 klukkutíma fannst í grenjandi rigningu. Eftir það hefur hún ekki vikið frá mér. Hún er alltaf alveg upp við mig og vill alltaf vita hvað ég er að fara að gera.“

Avo er Pug en Gylfi er Boston Terrier.
Avo er Pug en Gylfi er Boston Terrier. Ljósmynd/Aðsend

Hafa hundirnir einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Avo er athyglissjúk. Hún elskar alla, vill tala við alla og fá athygli frá öllum. Gylfi vill líka athygli en bara frá fólkinu sínu og hann er algjör díva. Þau eru bæði yndisleg en þau eru athyglissjúkar dívur. Þau vilja alltaf vera hjá mér og reyna að ýta hvort öðru í burtu til þess að vera ein í fanginu mínu.“

Avo fagnar fjölbreytileikanum á Reykjavík Pride.
Avo fagnar fjölbreytileikanum á Reykjavík Pride. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengur að skipuleggja fríin með dýr á heimilinu?

„Oftast bara vel, séstaklega þegar fólkið manns hefur þekkt þau lengi. Þá vilja allir fá að vera með þau hjá sér.“

Einhver góð ráð til annarra hundaeigenda?

„Þrauka hvolpaárin af, þau róast mjög mikið eftir 2-3 ára aldurinn. Þá er gott að gera þau hluta af lífi sínu. Leyfa hundinum að vera með í því sem ykkur finnst gaman að gera og hafið áhuga á (séstaklega ef þið eruð með hvolp). En maður lærir líka inn á hundinn sinn, eins og Avo elskar að fara á Reykjavík Pride hátíðina því allir veita henni athygli. Ég færi hins vegar ekki með Gylfa því hann yrði bara stressaður og hræddur.“

Hanna er dugleg að fara með hundana á kaffihús. Gylfi …
Hanna er dugleg að fara með hundana á kaffihús. Gylfi á það til að vera hræddur við annað fólk og leitar þá í fang Hönnu. Ljósmynd/Aðsend
Avo er mikið yndi og elskar að fá athygli frá …
Avo er mikið yndi og elskar að fá athygli frá fólki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert