10 ára drengur vill ekki mæta í skólann: Hvað er til ráða?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur á sál­fræðistof­unni Sál­ar­líf fær spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af syni sínum vegna skólaforðunar. Hvað er til ráða?

Sæl.

Okkur foreldrunum gengur illa að fá son okkar sem er 10 ára gamall að mæta í skólann. Hann vill ekki mæta í skólann og reynir allar mögulegar leiðir til þess að sleppa við það eins og að gera sér upp veikindi. Ertu með einhver ráð fyrir okkur?

Kveðja, 

Mamma 

Sæl mamma. 

Takk kærlega fyrir þessa mikilvægu spurning. Erfiðleikar með skólasókn, eða skólaforðun eins og það er kallað, getur verið flókið viðureignar ef ekki er gripið fljótt inn í. Fyrst af öllu þarf að reyna að kortleggja og komast að því hvers vegna sonur ykkar vill ekki fara í skólann, hvað veldur. Ég myndi mæla með að þið mynduð spyrja hann eftirfarandi spurningar:

  1. Hvað veldur þér áhyggjum við að fara í skólann?
  2. Hvað heldur þú að gerist ef þú mætir í skólann?
  3. Hvað er það versta sem gæti gerst ef þú ferð í skólann?

Þá er mjög mikilvægt að fá skólann með ykkur í lið til að kortleggja vandann. Gott er að hafa í huga að það getur verið algengt ef barn hefur misst mikið úr skóla (vegna veikinda eða vanlíðan) að því kvíði fyrir því að mæta aftur. Óttast kannski spurninga annarra þegar þau mæta, eða hafa áhyggjur af því að hafa misst mikið úr námsefninu. Getur orðið vítahringur ef ekki er gripið fljótt þar inn í.

Ég mæli með því að þið gerið þrepaáætlun fyrir hann með það að markmiði að vinna hann aftur inn í skólann og fá hann til að mæta reglulega. Ef hann mætir t.d. ekkert í skólann þá er gott að byrja á því að fá hann til að mæta í tíma sem honum finnst auðveldir og líður vel í t.d. mæta í tíma fyrir hádegi einn dag.

Svo væri hægt að fá hann til að mæta í alla tíma fram að hádegishléi á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Því næst mæta í alla tíma fram að hádegishléi. Þegar það er alveg komið væri hægt að bæta við alla tíma fram að frímínútum eftir hádegi og svo loks mæta í skólann á hverjum degi í heila viku.

Mikilvægt er að þið umbunið honum fyrir hvert þrep sem hann reynir við og nær að gera. Umbun getur verið t.d. í formi þess að hann fái að ráða hvað er í matinn, fara í sund, fá auka tölvutíma og svo þegar lokaþrepinu er náð (að hann fari að mæta í skólann) væri umbunin aðeins stærri t.d. ferð í SKOPP, ferð í húsdýragarðinn, bíóferð eða eitthvað sem barninu finnst eftirsóknavert.

Mesta áskorun ykkar foreldra er að hvetja hann áfram og láta hann reyna við þrepin. Talið jákvætt um skólann og að það sé margt skemmtilegt við að fara í skólann. Þá er einnig mikilvægt að þið foreldrar séu meðvitaðir um það að mörgum börnum finnst fínt að vera heima, nota kannski tímann til að horfa á sjónvarpið, spila tölvuleiki eða gera aðra skemmtilega hluti. Sem gerir skólann minna spennandi og dregur samhliða úr áhuga barnanna að sigrast á kvíðanum sínum. Foreldrar þurfa því að setja mörk hvað það varðar, hvað gerist á heimilinu á skólatíma og veita því aukið eftirlit.

Að lokum langar mig að benda ykkur á bókina „Hjálp fyrir kvíðin börn“ hún er „kvíðabiblían“ fyrir alla foreldra að mínu mati. Þar er einnig nánari útskýring á því hvernig foreldrar geta búið til þrepaáætlun fyrir barnið sitt til að sigrast á því sem veldur barninu kvíða.

Með von um að þetta hafi eitthvað hjálpað ykkur!

Bestu kveðjur,

Tinna Rut, sálfræðingur 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert