Fæddi óvænt barn án þess að vita af óléttunni

Ljósmynd/Unsplash

Í nóvember 2022 fór hin 21 árs gamla Rashae Serna með hraði upp á spítala vegna mikilla verkja í kviðnum. Á leiðinni á spítalann hafði hún ekki hugmynd um að hún myndi ganga út af spítalanum með þriðja barnið í höndunum, enda vissi hún ekki að hún væri ófrísk. 

Daginn áður hafði Serna farið í steypiboð hjá mágkonu sinni og átt góðar stundir. Hún var himinlifandi yfir því að fjöskyldan væri að stækka en fann líka fyrir miklum létti að vera ekki í sömu sporum og mágkona hennar. 

„Dóttir mín K'zaleigh var tveggja ára og Kai sonur minn var ellefu mánaða. Ég var svo fegin að svefnlausar nætur og bleyjur fyrir nýbura væru loksins að baki,“ segir hún í samtali við The Sun. Serna og eiginmaður hennar voru afar lukkuleg með börnin sín tvö og höfðu ekki hugsað sér að eignast fleiri börn á næstunni. „Við áttum stelpu og strák og lífið sem tveggja barn amóðir var alveg nógu erilsamt,“ útskýrir hún.

Á þessum tímapunkti hafði Serna ekki hugmynd um að innan 24 klukkustunda myndi hún eignast sitt þriðja barn, enda hafði hún ekki upplifað nein meðgöngueinkenni sem hún upplifði á fyrstu tveimur meðgöngunum og var ekki með sjáanlega óléttukúlu. 

Bílferðin einkenndist af uppköstum og öskri

Morguninn eftir steypiboðið vaknaði Serna við mikla verki í kviðnum. „Ég fann fyrir hræðilegum sársauka í hægri hliðinni sem vildi bara ekki hverfa,“ segir hún og bætir við að í fyrstu hafi hún haldið að hún væri einfaldlega að byrja á blæðingum. 

Serna áttaði sig þó fljótt á því að eitthvað annað væri í gangi. „Verkjatöflurnar sem ég tók hjálpuðu alls ekki og þegar ég gat ekki einu sinni gengið varð eiginmaðurinn minn mjög áhyggjufullur,“ segir hún, en á þessum tímapunkti héldu þau að hún væri með botlangabólgu og ákváðu að fara upp á spítala. 

Fjölskyldan bjó í um klukkutíma fjarlægð frá sjúkrahúsinu, en á leiðinni þangað segir Serna sársaukann hafa aukist með hverri mínútunni. Hún var fljótlega byrjuð að öskra og kasta upp og þurfti eiginmaður hennar sífellt að fara út í kant til að athuga hvort það væri í lagi með hana. 

Lögreglan hafði verið að fylgjast með bíl þeirra og þótti þau stoppa grunsamlega oft og ákváðu því að athuga hvað væri í gangi. Þegar lögreglan sá Sernu öskrandi var strax hringt í sjúkrabíl. 

„Guð minn góður. Barnið er á hlið“

Eftir að læknarnir höfðu skoðað Sernu og gefið henni sterk verkjalyf sem virtust ekkert slá á verkinn þá stakk einn þeirra upp á að senda hana í ómskoðun til að athuga hvort eitthvað hefði sprungið í maganum. 

Í ómskoðuninni rak læknirinn svo upp stór augu og sagði: „Guð minn góður. Barnið er á hlið.“ Serna spurði lækninn hvaða barn hann væri eiginlega að tala um, enda hafði hún ekki hugmynd um að hún væri ófrísk. Í kjölfarið var farið með Sernu inn á fæðingardeild í flýti. Hún var komin með níu cm útvíkkun og eftir þrjá rembinga var þriðja barn þeirra komið í heiminn. 

„Maginn á mér var flatur og þó svo við hefðum ekki notað getnaðarvarnir þá hafði ég fengið blæðingar í hverjum mánuði. Auk þess hafði ég verið ólétt tvisvar áður. Ég vissi nákvæmlega hvernig það er að vera ófrísk að barni. Þetta hlutu að vera einhver mistök,“ útskýrir hún. 

Í dag er fjölskyldan alsæl með hvort annað, en hjónin hafa þó ákveðið að nota getnaðarvarnir og fara beint til læknis við minnstu einkenni. „Ég elska að vera þriggja barna móðir, en ég held ég hafi fengið nóg af óvæntum uppákomum út lífið,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert