Bush: Könnum hvort Íranir hafi átt aðild að tilræðunum 11. september 2001

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag, að rannsakað yrði hvort og þá hvaða hlutverk Íran kunni að hafa átt í hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september 2001.

„Við erum að kafa ofan í staðreyndir til að sjá hvort eitthvert beint samband sé við [tilræðin] 11. september,“ sagði Bush eftir fund með Ricardo Lagos, forseta Chile.

Bush tók svo til orða í framhaldi af yfirlýsingu Johns McLaughlin, starfandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) þess efnis að nokkrir flugræningjanna sem þátt tóku í tilræðunum hafi komið til Bandaríkjanna frá Íran. Hann sagði að engar vísbendingar væru þó um að stjórnvöld í Teheran hefðu stutt við bakið á þeim.

„McLaughlin sagði að það væri ekkert beint samband á milli Írans og árásanna 11. september. Við munum halda áfram að rannsaka hvort Íranir hafi átt þar einhverja aðild að,“ sagði Bush.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert