Myndband birt er sýnir flugræningja frá 11. september á flugvelli í Washington

Tveir flugræningjanna sem réðust á Pentagon fara frá öryggishliði og …
Tveir flugræningjanna sem réðust á Pentagon fara frá öryggishliði og um borð í vél American Airlines að morgni 11. september 2001. Myndin er úr eftirlitsmyndavél á flugvellinum. AP

Myndband, sem tekið er á Washington Dulles alþjóðaflugvellinum að morgni 11. september 2001, var gert opinbert í Bandaríkjunum í gær. Á myndbandinu sjást öryggisverðir athuga fjóra af fimm flugræningjum, sem flugu vélum í hryðjuverkum þann dag, nánar, eftir að málmleitarhlið gaf frá sér merki er þeir fóru í gegnum það, að því er greint er frá í frétt Washington Post. Að athugun lokinni fengu mennirnir að halda áfram för sinni. Myndbandið birtist degi áður en ítarleg skýrsla óháðrar rannsóknarnefndar um atburðina 11. september, er gerð opinber, en skýrslan verður birt í dag.

Á myndbandinu sést flugvallarstarfsmaður leita að sprengiefnum í tösku eins hryðjuverkamannanna, Nawaf al-Hazmi, áður en al-Hazmi var leyft að fara um borð í fug á vegum American Airlines, ásamt bróður sínum, Salem, sem einnig stóð að hryðjuverkunum.

Myndin sjálf er nokkuð gróf og erfitt að átta sig á smáatriðum er horft er á myndbandið. Fyrri skýrsla rannsóknarnefndarinnar um atburðarásina á Dulles er í samræmi við það sem sést til ferða mannanna á myndbandinu.

Engir hnífar eða aðrir beittir hlutir sjást á eftirlitsmyndbandinu. Sérfræðingar í rannsóknarnefndinni hafa sagt að flugræningjarnir í Dulles hafi sennilega haft með sér hnífa sem notaðir eru við dagleg störf og annaðhvort borið þá á sér eða haft þá í farangri sínum. Á þeim tíma var leyfilegt að hafa slíka hnífa með sér í flug ef blöð þeirra voru styttri en 10 cm og þeir voru ekki álitnir „ógnvekjandi“.

Allir 58 farþegar vélarinnar, að meðtaldri sex manna áhöfn og flugræningjunum, auk 125 starfsmanna í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, létust þegar flugvélinni var flogið á byggingu þess klukkan 9.39 um morguninn.

Leitað á einum flugræningjanna á flugvellinum í Dulles, áður en …
Leitað á einum flugræningjanna á flugvellinum í Dulles, áður en hann hélt í vél American Airlines, sem flogið var á bandaríska varnarmálaráðuneytið. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert