Al-Qaeda liði: Motassadeq vissi ekki um árásir 11. september

Motassadeq ásamt lögmanni sínum á leið í dómssal í Hamborg …
Motassadeq ásamt lögmanni sínum á leið í dómssal í Hamborg í gær. AP

Lykilmaður al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, sem er í haldi Bandaríkjamanna, sagði við yfirheyrslur að marokkóskur nemandi, sem er fyrir rétti vegna gruns um að hafa átt aðild að árásunum á Bandaríkin 11. september 2001, hefði ekki vitað af ráðagerðunum. Þetta kom fram í framburði sem lesinn var við réttarhöldin yfir Marokkómanninum, Mounir Motassadeq, í Þýskalandi í dag.

Motassadew er sakaður um að hafa aðstoðað liðsmenn al-Qaeda í Hamborg við að skipuleggja árásirnar. Meðal manna sem Motassadeq þekkti þar voru flugræningjarnir Mohamed Atta, Marwan el-Shehhi og Ziad Jarrah. Réttarhöld í máli Motassadeq hófust að nýju í gær. Hann var sakfelldur fyrir aðild að árásunum í febrúar árið 2003, en í mars á þessu ári ógilti áfrýjunardómstóll dóminn og fyrirskipaði að ný réttarhöld skyldu fara fram í því.

Dómarar áfrýjunardómstólsins sögðu að málið skyldi tekið upp að nýju, þar sem grunaðir aðildarmenn árásanna í haldi Bandaríkjamanna, þar á meðal Ramzi Binalshibh, sem talinn er hafa verið tengiliður al-Qaeda í Hamborg, hefðu ekki borið vitni.

Ernst-Rainer Schudt, dómari í málinu, greindi frá því í dag að dómstólnum hefði borist símbréf frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu, með skjölum yfir framburð þriggja grunaðra al-Qaeda liða í haldi Bandaríkjanna.

Þar kemur fram að Binalshibh hafi sagt að „einu meðlimir al-Qaeda í Hamborg hefðu verði hann sjálfur, Atta, al-Shehhi og Jarrah,“ að því er fram kemur í símbréfinu.

Binanshibh sagði að „allnokkrir stúdentar af arabískum uppruna hefðu þekkt til hópsins,“ en þeir hefðu hvorki vitað um né tekið þátt í að skipuleggja árásirnar 11. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert